
Hannes Valle Þorsteinsson, 22 ára gamall Reykvíkingur, hefur verið ákærður fyrir tvö kynferðisbrot gegn einu barni, í starfi sínu við leikskólann Múlaborg. Brotaþoli var nemandi við leikskólann.
Málið var þingfest í dag, miðvikudaginn 12. nóvember, og barst fjölmiðlum ákæran í málinu í eftirmiðdaginn frá Héraðsdómi Reykjavíkur.
Málið kom upp um miðjan ágúst í kjölfar tilkynningar frá foreldri barns á leikskólanum. Barnið hafði greint foreldrum sínum frá meintum brotum Hannesar. Síðan málið kom upp hefur Hannes setið í gæsluvarðhaldi. Eins og DV greindi frá fyrr í dag er Hannes ákærður fyrir að hafa brotið tvisvar gegn sama stúlkubarninu með því að hafa haft önnur kynferðismök en samræði gegn henni. Hann er þar sagður hafa misnotað freklega yfirburðastöðu sína gagnvart stúlkunni, brugðist trausti hennar og trúnaði hennar, sem starfsmaður leikskólans. Í síðara brotinu er hann jafnframt sagður hafa notfært sér að þannig var ástatt um stúlkuna að hún gat ekki spornað við verknaðinum vegna svefndrunga.
Fyrr í haust fengu fjölmiðlar þær upplýsingar að til rannsóknar væru fleiri brot Hannesar gegn börnum á Múlaborg. RÚV greindi frá því þann 3. október að Hannes væri grunaður um brot gegn fleiri en tíu börnum.
Ekki liggur fyrir hvort rannsókn á fleiri mögulegum brotum Hannesar á Múlaborg leiði einnig til ákæru eða hvort það hafi verið niðurstaða héraðssaksóknara að aðeins væri tilefni til að ákæra í vegna brota gegn þessu eina barni sem um ræðir í ákærunni. DV hefur ekki náð sambandi við saksóknara í málinu til að fá svör við þessu en hefur sent honum fyrirspurn.
Þinghald í málinu er lokað sem þýðir að ekki er hægt að veita neinar upplýsingar um það sem fram kemur í réttarhöldunum fyrr en dómur fellur. Þannig liggur ekki fyrir hvort Hannes játaði eða neitaði sök við þingfestingu málsins. Hins vegar hefur komið fram í fjölmiðlum að hann játaði brotin gegn stúlkunni í yfirheyrslu lögreglu í ágústmánuði.
Samkvæmt heimildum DV hafði Hannes starfað á Múlaborg innan við tvö ár þegar málið kom upp í ágústmánuði. Hann hafði ekki starfað áður á leikskóla en vann áður í stórmarkaði, Honum hefur verið lýst sem einfeldningi en sagður vera blíður við börn og var vel liðinn af þeim og samstarfsfólki á Múlaborg þar til málið kom upp. Hannes er 22 ára gamall, hann á íslenskan föður og erlenda móður.