fbpx
Miðvikudagur 12.nóvember 2025
Fréttir

BYKO lagði athafnamann með stormasama viðskiptasögu

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 12. nóvember 2025 10:41

Mynd: DV/Maggi gnúsari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt fyrirtækið Fastefli og athafnamanninn Óla Val Steindórsson til að greiða BYKO 10,3 milljónir króna vegna vangreiddra úttekta annars fyrirtækis, sem er gjaldþrota, úr versluninni. Óli Valur á nokkuð stormasama viðskiptasögu að baki en fyrirtæki í hans eigu hafa til að mynda oftar en einu sinni farið í gjaldþrot.

Fyrr á þessu ári var gjaldþrotaskiptum  lokið á fasteignafélaginu Stórefli sem var í 100 prósent eigu Óla Vals en ekkert fékkst upp í 81 milljóna krónu kröfur sem gerðar voru í búið.

Fyrir skömmu var síðan lokið gjaldþrotaskiptum á öðru fasteignafélagi, Sjávarsíðan, sem Óli Valur átti 50 prósent hlut í en ekkert fékkst upp í 27 milljóna króna kröfur.

Stundin greindi frá því árið 2020 að kennitölufals sem tengdist starfsmönnum sem unnu við framkvæmdir við Héðinshúsið á Granda væri til rannsóknar hjá lögreglu en fyrirtækið Upprisa, sem var í eigu Óla Vals, var meðal þeirra sem komu að framkvæmdunum. Sagði Óli Valur við Stundina að öllum stjórnendum fyrirtækja sem komu að framkvæmdunum væri brugðið og eftirlit í þessum málum yrði hert.

Túnfiskur

Árið 2013 fór fyrirtækið Atlantis Group sem var í eigu Óla Vals í þrot en hann var þá starfandi sem framkvæmdastjóri bandarísks fyrirtækis sem rak túnfiskeldi en Óli Valur lét fyrirtæki sitt vera millilið í sölu túnfisks frá bandaríska fyrirtækinu en hans fyrirtæki gat síðan ekki greitt fyrir viðskiptin. Óla Val var í kjölfarið sagt upp störfum. Óli Valur var sjálfur úrskurðaður gjaldþrota þetta sama ár og var það þá eitt stærsta einstaklingsgjaldþrot Íslandssögunnar. Kröfur í bú hans voru um þrír milljarðar króna en 63 milljónir fengust upp í kröfurnar.

Skiptum var síðan lokið 2016 á búi fyrirtækisins Aurora Fjárfestingar sem Óli Valur stýrði en kröfurnar voru um fjórir milljarðar króna en um 1 prósent af þeim fékkst greitt.

Þetta eru aðeins nokkur dæmi úr viðskiptasögu Óla Vals. Í dómsmáli sem Héraðsdómur Reykjaness hefur nú dæmt í stefndi BYKO honum og fyrirtæki hans Fastefli.

Krafðist BYKO 10,3 milljóna króna auk dráttarvaxta en málið snerist um reikningsviðskipti verktakafyrirtækisins BFU Vesturland en það var í eigu Óla Vals en var úrskurðað gjaldþrota fyrr á þessu ári.

Ábyrgð

Samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingu gengust Óli Valur og Fastefli í ábyrgð fyrir öllum láns- og reikningsviðskiptum BFU Vesturlands ehf. Nam ábyrgðin allt að 10 milljónum króna auk dráttarvaxta og innheimtukostnaðar. Átti upphæðin að taka breytingum til hækkunar samkvæmt vísitölu neysluverðs.

Framvísaði BYKO reikningsyfirliti yfir úttektir BFU Vesturlands.

Vildi Óli Valur hins vegar meina að úttektin hefði aðeins verið upp á þrjár milljónir króna og því ætti að lækka kröfuna sem því næmi. Óskað hafi verið eftir heimild til úttektar frá BYKO fyrir þá upphæð en ányrgðin hafi vissulega numið 10 milljónum. Úttektir í október 2024 sem BYKO byggði kröfu sína á hefðu verið í þágu annars félags sem væri í eigu fyrrum starfsmanna BFU Vesturlands.

Var í málflutningi Óla Vals og Fasteflis lögð áhersla á að úttektarheimild hafi aðeins verið þrjár milljónir króna og samningar um kaup á vörum umfram það væru ekki skuldbindandi. Ábyrgðaryfirlýsinguna ætti með réttu að lækka niður úr 10 milljónum í þrjár.

Engin takmörk

Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness kemur fram að í umsókn BFU Vesturlands um reikningsviðskipti kæmi fram að líkleg úttekt yrði þrjár milljónir króna á mánuði en ekkert hámark hafi verið tiltekið. Þar sem ábyrgðin var 10 milljónir hlyti að hafa verið gert ráð fyrir úttektum allt að þeirri upphæð. Ekki sé hægt að fallast á að ábyrgðin takmarkist aðeins við þrjár milljónir.

Þegar kemur að þeirri röksemd að úttektir í október 2024 hafi ekki verið á vegum BFU Vesturlands segir héraðsdómur að BYKO geti ekki ekki borið ábyrgð á því að vörur hafi verið teknar út af hálfu BFU Vesturlands í þágu annars félags ef þær voru teknar út af aðilum sem höfðu til þess heimild af hálfu BFU Vesturlands oglétu reikningsfæra þær hjá því félagi. Það hafi verið á ábyrgð forsvarsmanna BFU Vesturlands að ekki væru teknar út vörur í nafni félagsins í þágu annarra aðila. Rök fyrir þessari fullyrðingu hafi einnig skort.

Héraðsdómur hafnar einnig þeirri málsástæðu að úttektir umfram þrjár milljónir hafi ekki verið skuldbindandi fyrir BFU Vesturland þar sem umrædd ábyrgð hafi verið 10 milljónir og BYKO hafi ekki getað vitað að það stæði ekki til að hafa úttektina hærri en þrjár milljónir. Hafi það verið ætlunin hafi verið tilgangslaust að láta ábyrgðina vera 10 milljónir og á þessu hafi ekki fengist skýringar.

Óli Valur og fyrirtæki hans Fastefli eru því dæmd til að greiða BYKO 10,3 milljónir króna vegna vangreiddra úttekta BFU Vesturlands, auk dráttarvaxta.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Margrét, Ása og Arndís bjóða á stefnumót

Margrét, Ása og Arndís bjóða á stefnumót
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Ferðamaður segir frá raunum sínum á Íslandi – Vandræðin byrjuðu fyrir alvöru þegar lögreglan fór af vettvangi

Ferðamaður segir frá raunum sínum á Íslandi – Vandræðin byrjuðu fyrir alvöru þegar lögreglan fór af vettvangi