fbpx
Mánudagur 10.nóvember 2025
Fréttir

Tryggingasvikari þarf að endurgreiða 55 milljón króna bætur eftir að hann laug í tjónaskýrslu um neyslu fíkniefna

Ritstjórn DV
Mánudaginn 10. nóvember 2025 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur gert karlmanni að endurgreiða Sjóvá tæpar 55 milljónir sem hann hafði fengið greiddar í skaðabætur vegna umferðaslyss eftir að í ljós kom að hann var undir áhrifum kannabisefna þegar slysið átti sér stað. Eins hefur manninum verið gert að þola kyrrsetningu eigna vegna málsins. Dómur féll í málinu þann 15. október.

Var bent á dóm í sakamáli

Málið má rekja allt aftur til ársins 2019 þegar maðurinn slasaðist alvarlega í umferðarslysi við bæinn Stóru-Giljá skammt vestan við Blönduós. Var maðurinn í kjölfarið metinn með 30 prósent varanlega örorku og varanlegur miski var metinn 33 stig. Á grundvelli matsgerðar greiddi Sjóvá manninum rétt tæpar 40 milljónir á árinu 2021 en heildartjónagreiðslur að meðtöldum lögmannskostnaði og kostnaði við gagnaöflun nam rúmum 57 milljónum.

Sjóvá barst svo ábending á árinu 2023 um dóm sem féll í Héraðsdómi Norðurlands vestra árið 2020. Þar var maðurinn dæmdur til að greiða 180 þúsund króna sekt til ríkissjóðs og var jafnframt sviptur ökuréttindum í eitt ár. Dómurinn varðaði slysið sem Sjóvá hafði greitt bætur vegna. Þar kom fram að þegar maðurinn missti stjórn á bifreið sinni hafði hann verið undir áhrifum tetrahýdrókannabínóls, eða THC.

Taldi tryggingarfélagið þá ljóst að maðurinn hefði aldrei átt rétt til bótanna. Slysið mætti rekja til saknæmrar háttsemi. Eins sé ljóst að maðurinn hafi logið í tjónatilkynningu þegar hann hakaði ekki í reitinn „Já“ við spurningunni: „Varst þú undir áhrifum áfengis/lyfja?“ Eins hafi maðurinn ekki upplýst Sjóvá um áðurnefnda niðurstöðu Héraðsdóms Norðurlands vestra en maðurinn sendi skaðabótakröfu sína rúmu ári eftir að sá dómur féll.

Maðurinn krafðist sýknu. Hann tók fyrir að hafa verið undir áhrifum við akstur og auk þess geti Sjóvá ekki þremur árum eftir fullnaðaruppgjöf krafist endurgreiðslu. Sakamálið hjá Héraðsdómi Norðurlands vestra hafi ekki snúist um það hvort hann hafi raunverulega verið undir áhrifum og það valdið óhappinu. Skýrsla í því máli segi ekkert um áhrif THC á aksturhæfni hans heldur segi það eitt að efnið hafi mælst í blóði hans. Þar með sé ekki búið að sanna að stórkostlegt gáleysi hafi valdið slysinu.

Ber hallann af sönnunarskorti

Dómari rakti að í áðurnefndu sakamáli hafi maðurinn og lögmaður hans sent dómara bréf þar sem þeir mótmæla því ekki að maðurinn hafi verið óhæfur til að aka bifreið. Hann hafi þó ekki talið sig hafa fundið til áhrifa við aksturinn. Styrkleiki THC var samkvæmt blóðsýni 5,1 ng/ml. Það sé mikið magn samkvæmt öllum mælikvörðum. Dómari gerði athugasemd við að hvorki Sjóvá né maðurinn sáu tilefni til að kalla sjónarvott að slysinu til skýrslugjafar eða þá lögreglumenn sem að slysinu komu. Eins hafi maðurinn valið að nýta sér lagalegan rétt sinn til að skorast undan skýrslugjöf. Þar með gat dómari ekki spurt manninn út í atvik máls. Ekkert bendi því til annars en að áhrif THC hafi verið meginorsök slyssins.

„Breytir engu í því samhengi þótt stefndi hafi ekið um langan veg áður en slysið varð eða að ekki hafi mátt merkja það á akstri hans fyrir slysið að hann hafi verið undir áhrifum THC.“

Maðurinn þurfti að bera hallann af sönnunarskortinum. Eins tók dómari undir með Sjóvá að maðurinn hafi veitt rangar upplýsingar á tjónaskýrslu og hafi líklega gert það af ásetningi.

„Verður í því samhengi að telja sannað að stefndi hafi vitað eða mátt vita að hinar röngu eða ófullnægjandi upplýsingar gætu leitt til þess að greiddar yrðu út bætur sem hann ætti ekki rétt til.“

Dómari staðfesti því kyrrsetningu eigna mannsins sem eru bifhjól, BMW- bifreið og Coleman-fellihýsi, og gerði honum að endurgreiða Sjóvá tæpar 55 milljónir.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Hinn 11 ára gamli Pétur er fundinn í Orlando – Móðursystir hans segir það búðarstarfsmanni að þakka

Hinn 11 ára gamli Pétur er fundinn í Orlando – Móðursystir hans segir það búðarstarfsmanni að þakka
Fréttir
Í gær

Erla safnar undirskriftum til að seinka klukkunni

Erla safnar undirskriftum til að seinka klukkunni
Fréttir
Fyrir 3 dögum

„Ég held að þetta fyrirkomulag sé einstakt á heimsvísu. Við erum alltaf til staðar fyrir allt fólkið í landinu“

„Ég held að þetta fyrirkomulag sé einstakt á heimsvísu. Við erum alltaf til staðar fyrir allt fólkið í landinu“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Bjóst ekki við þessu þegar hann kveikti sér í sígarettu – Sjáðu myndbandið

Bjóst ekki við þessu þegar hann kveikti sér í sígarettu – Sjáðu myndbandið