

Sigurður Árni Reynisson, kennari og fyrrverandi lögreglumaður, fjallar um heimilisofbeldi með áhrifaríkum hætti í aðsendri grein á Vísi. Segir hann fáa mál snerta lögregluþjóna dýpra og um sé að ræða flókin mál sem reyni mjög á alla sem að þeim koma.
„Heimilisofbeldi er svo falið. Við sjáum aðeins toppinn á ísjakanum, en undir honum leynast þúsundir sagna, barna, foreldra, fjölskyldna og sársauka sem enginn sér. Heimilisofbeldi er ekki eitt atvik. Það er saga sem endurtekur sig, stundum dag eftir dag, bak við lokaðar dyr. Það byrjar ekki alltaf á höggi, heldur augnaráði eða orðum. Smám saman lærir manneskja að minnka sjálfa sig til að forðast storminn. Þannig verður óttinn hluti af daglegu lífi, jafn eðlilegur og andardrátturinn,“ skrifar Sigurður Árni.
Hann lýsir svo aðkomu sinni, sem lögreglumaður, að slíku heimilisofbeldismáli sem breytti sýn hans á málaflokkinn.
„Ein minning stendur þó öðrum framar, en ekki endilega sú versta, heldur sú sem breytti viðhorfi mínu til þessa málaflokks. Ég var á bakvakt þegar síminn hringdi. Það var dimmt og rólegt í bænum, en rödd varðstjórans var þung. Faðir hafði ráðist á eiginkonu sína og dóttur. Þegar ég kom að húsinu sá ég venjulegt raðhús, en þegar ég opnaði dyrnar lagði á móti mér þykk lykt af gömlum reyk og súru áfengi. Húsið var fullt af þögn, ekki rólegri heldur varkárri, eins og hún væri að hlusta á sjálfa sig. Stóll lá á hliðinni, glerbrot út um allt glitruðu á gólfinu og hálfdrukkin flaska á borðinu. Ég fann hvernig hjartað í mér sló hraðar en venjulega, en ég þurfti að halda mér rólegum. Maður lærir að virka rólegur þó að innra með sér vilji maður öskra,“ skrifar Sigurður Árni.
Við honum blasti þriggja manna fjölskylda í sárum eftir skelfilega atburði næturinnar.
„Eiginkonan sat á stól með handklæði við kinnina, blóðug og bólgin. Hún leit ekki á mig. Í einum af herbergisdyrunum stóð tólf ára stúlka í náttfötum með mynd af kanínu á bringunni. Hún horfði á föður sinn sem sat í horninu, handjárnaðan, biðjandi um sígarettu sem hann fékk til að róa hann. Stúlkan skalf, ekki af kulda heldur ótta. Eins og hún vissi ekki hvort hún ætti að óttast meira, okkur eða hann,“ skrifar Sigurður Árni.
Hann segir lögreglumennina hafa tekið þá ákvörðun að fjarlægja manninn til að geta rætt við hann þegar af honum væri runnið. Eiginkonan hafi fallist á það með þögninni en viðbrögð dótturinnar hafi komið honum í opna skjöldu.
„Ég sneri mér að stúlkunni. Hún stóð kyrr, föl í framan með tár í augum sem hún hélt niðri eins og hún skammaðist sín fyrir þau. Ég sagði nafnið hennar, rólega, en hún leit ekki upp. Ég sagði að við þyrftum að fara með föður hennar í burtu, að hann fengi að sofa hjá okkur og að við myndum tala við hann þegar hann væri edrú.
Orðin virtust einföld og rökrétt, en orðin sprungu inn í herberginu. Hún kipptist við, tók skref fram á við og sagði lágt „nei“ en svo kom það og það gall yfir húsið. Það var eins og hún þyrfti tilhlaup til að segja eitthvað. Hún grét, barði mig í bringuna með litlum hnefum og hún hrópaði að hann elskaði þær báðar. Tárin runnu niður andlitið, blönduðust við blóðið á kinninni. Þetta var ekki reiði, heldur örvænting. Hún var að reyna að bjarga heiminum sínum frá því að molna endanlega. Ég reyndi að tala rólega, sagði að við myndum passa hann, en hún horfði á mig eins og ég væri sá sem ætlaði að svipta hana föður sínum. Og að einhverju leyti var það rétt. Þegar við leiddum hann út hélt hún áfram að grátbiðja okkur um að taka hann ekki frá henni. Ég sá í augum hans glitta í eitthvað sem ég gerði mér ekki alveg grein fyrir hvað væri, kannski eftirsjá, skömm eða tómið sjálft. Þegar ég leit til baka stóð hún í dyrunum og horfði á hann hverfa út í nóttina,,“ skrifar lögreglumaðurinn fyrrverandi.
Eins og gefur að skilja var Sigurður Árni eftir sig eftir þessa reynslu og segir hana hafa opnað augu sín fyrir því hversu margbrotin þessi flóknu mál eru.
„Ég sat í bílnum með hendur á stýri og fann hvernig kyrrðin umlukti mig eins og þykk þoka. Það var eitthvað sem ég skildi ekki, eitthvað sem særði mig djúpt. Hvernig getur barn sem hefur verið barið svona illa, varið þann sem barði það? Hvernig getur ástin lifað af í svo miklu myrkri?“.
Síðar hafi komið í ljós að stúlkan var með brotin kjálka eftir föður sinn.
„Ég man að mér fannst menn sem gerðu svona vera aumingjar, menn sem ekki réðu við eigið líf og tóku það út á öðrum. En með árunum lærði ég að þetta var ekki svona einfalt. Ég fór að skilja að sem lögreglumaður gat ég ekki séð heimilisofbeldi aðeins sem svart eða hvítt, sekt eða sakleysi. Það sem ég áður sá sem glæp þurfti ég að læra að sjá líka sem afleiðingu, ekki til að réttlæta, heldur til að skilja. Ég áttaði mig á því að mín staða var ekki að dæma, heldur að halda jafnvægi. Sem lögreglumaður þurfti ég að vera það hlutlausa afl í miðjunni, sá sem hlustar á allar hliðar og líka á gerandann. Því aðeins með því að skilja alla myndina er hægt að finna leið út úr myrkrinu.
Gerandinn er líka manneskja. Það er eitthvað sem drífur hann áfram, ótti, skömm, uppeldisáföll eða vanmáttur sem hann kann ekki að mæta. Það afsakar ekki verknaðinn, en það skýrir hann. Ég fór að sjá að á bak við hvern brotamann býr saga sem enginn spurði um. Lækningin liggur ekki aðeins í refsingu heldur í því að brjóta keðjuna sem heldur sársaukanum lifandi milli kynslóða,“ skrifar Sigurður Árni.
Hér má lesa grein Sigurður Árna í heild sinni og er óhætt að mæla með lestrinum.