fbpx
Miðvikudagur 05.nóvember 2025
Fréttir

Kröfðust úrbóta á verðmerkingum fjölda fyrirtækja í Kringlunni og Smáralind – Sjö hlýddu ekki

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 5. nóvember 2025 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Neytendastofa greinir í tilkynningu frá því að starfsmenn stofnunarinnar hafi fyrr á þessu ári framkvæmt skoðanir á ástandi verðmerkinga hjá 142 verslunum og þjónustuveitendum í Kringlunni og Smáralind. Í þessu verðmerkingareftirliti hafi verið gerðar athugasemdir við verðmerkingar í 49 verslunum, en það er  um þriðjungur þeirra sem heimsóttar voru, þar sem ástandi verðmerkinga hafi verið ábótavant og hafi stofnunin  hvatt til úrbóta. Skoðuninni hafi að lokum verið fylgt eftir með annarri heimsókn og niðurstaðan sé sú að sjö fyrirtæki hafi verið sektuð fyrir að gera ekki fullnægjandi úrbætur á verðmerkingum. Aðeins eitt þeirra svaraði beiðni Neytendastofu um skýringar á því af hverju úrbætur hefðu ekki verið gerðar.

Í tilkynningunni segir að í verðmerkingareftirliti sé skoðað hvort söluvörur séu veðmerktar, hvar sem þær séu sýnilegar eða aðgengilegar neytendum. Einnig sé skoðað hvort að verðskrá yfir framboðna þjónustu sé sýnileg.

Fyrirtækið Local sem rekur samnefndan veitingastað í Kringlunni var sektað. Fyrsta skoðun Neytendastofu leiddi í ljós að á staðnum skorti bæði verðupplýsingar og upplýsingar um magnstærðir allra drykkja sem seldir voru. Í kjölfarið var þeim fyrirmælum beint til Local að bæta úr þessu. Seinni skoðunin fór fram um einum og hálfum mánuði síðar og þá var enn hvorki að finna verðskrá fyrir drykki sem seldir eru né upplýsingar um magnstærðir. Hefur fyrirtækið nú verið sektað um 50.000 krónur, meðal annars fyrir að brjóta gegn lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Gluggi

Fyrirtækið Aría-Bella rekur verslunina Home & You í Smáralind. Við fyrstu skoðun Neytendastofu kom í ljós að vörur í sýningarglugga voru óverðmerktar en ekki voru gerðar athugasemdir við verðmerkingar inni í versluninni. Eftir fyrirmæli um úrbætur fór önnur skoðun fram um mánuði síðar og þá reyndust vörur í sýningarglugga enn vera óverðmerktar.

Þar af leiðandi hefur Aría-Bella verið sektað um 50.000 krónur.

Þriðja fyrirtækið sem bætti ekki verðmerkingar var Útherji en það rekur knattspyrnuvöruverslunina Jóa Útherja í Smáralind. Þegar Neytendastofa heimsótti verslunina síðasta sumar kom í ljós að verðmerkingar vantaði í versluninni fyrir bolta og ýmis skópör. Þá voru gerðar athugasemdir við að vörur í sýningarglugga væru óverðmerktar. Eins og í fyrrnefndu tilfellunum var farið fram á úrbætur. Við síðari skoðun, um mánuði síðar kom í ljós, að vörur í sýningarglugga voru enn óverðmerktar en úrbætur höfðu verið gerðar inni í versluninni.

Útherji svaraði eins og fyrrnefndu fyrirtækin tvö ekki beiðnum Neytendastofu um skýringar og hefur fyrirtækið nú verið sektað um 50.000 krónur.

Tvær verslanir

Fjórða tilfellið varðar tvær verslanir sama fyrirtækis en um er að ræða Herragarðinn og Boss búðina í Kringlunni sem reknar eru af fyrirtækinu Föt og skór. Fyrsta skoðun Neytendastofu leiddi í ljós að ástandi verðmerkinga í umræddum verslunum var ábótavant, bæði inni í verslunum og í sýningargluggum. Við skoðun voru tilgreindar ýmsar vörur sem skorti verðmerkingar.

Eftir fyrirmæli um úrbætur voru verslanirnar heimsóttar á ný um einum og hálfum mánuði síðar. Enn var ástandi verðmerkinga inni í báðum verslunum ábótavant og vörur enn óverðmerktar í sýningargluggum. Tiltekin voru ýmis dæmi um vörur þar sem vantaði verðmerkingar.

Fyrirtækið svaraði beiðni Neytendastofu um skýringar á þann hátt að því þætti miður að vörur hafi verið óverðmerktar og að það ætti ekki að gerast. Tók fyrirtækið fram að smávara kæmi óverðmerkt af lager og væri verðmerkt jafnóðum í verslunum félagsins þegar hún færi í framsetningu. Seinni skoðunin hafi farið fram rétt eftir að útsala hafi hafist í öllum verslunum félagsins og því miður hafi í öllum látunum fyrirfarist að verðmerkja ákveðna hluti við áfyllingar. Fyrtækið væri meðvitað um að þetta eigi að vera í lagi og hafi eftir að Herragarðurinn fékk sekt lagt sig fram við að passa upp á þessa hluti.

Neytendastofu þótti við hæfi að sekta Föt og skó um 100.000 krónur fyrir að gera ekki umbeðnar útbætur á verðmerkingum.

Útstilling

Fimmta málið varðar fyrirtækið POP Retail og verslun þess Polern O. Pyret í Kringlunni. Við skoðun Neytendastofu kom í ljós að vörur í útstillingu voru óverðmerktar.

Stofnuninni kom á framfæri fyrirmælum um úrbætur og heimsótti verslunina aftur um einum og hálfum mánuði síðar. Þá voru vörur í útstillingu ennþá óverðmerktar. Fyrirtækið svaraði ekki beiðni Neytendastofu um skýringar og hefur stofnunin nú lagt 50.000 króna sekt á fyrirtækið.

Neytendastofa heimsótti einnig verslanir Útilífs í Kringlunni og Smáralind en rekstraraðili er samnefnt fyrirtæki. Versluninni í Smáralind var hins vegar síðar lokað. Skoðun Neytendastofu leiddi í ljós að ástandi verðmerkinga var ábótavant inni í báðum verslunum auk þess sem ástandi verðmerkinga var ábótavant á útstillingum í Smáralind en útstillingar óverðmerktar í Kringlunni.

Eftir fyrirmæli um úrbætur var síðari skoðun framkvæmd með viku millibili í sitthvorri versluninni. Í versluninni í Kringlunni voru útstillingar enn óverðmerktar og í Smáralind var verðmerkingu útstillinga ábótavant. Útilíf svaraði ekki beiðni um skýringar og þarf að greiða 100.000 krónur í sekt.

Föt

Sjöunda og síðasta málið varðar fyrirtækið Drífu og verslanir þess, Icewear Magasín og Mt. Hekla í Kringlunni. Verðmerkingum á útstillingum var ábótavant. Eftir sams konar ferli og í hinum málunum sex voru verslanirnar heimsóttar aftur um einum og hálfum síðar. Ástandi verðmerkinga á útstillingum var ennþá ábótavant í báðum verslunum auk þess sem ástandi annarra verðmerkinga í Icewear var ábótavant.

Eins og í hinum sex málunum fór Neytendastofa fram á skýringar á því hvers vegna fyrirmælum hennar um úrbætur hafði ekki verið sinnt en engin svör bárust.

Eins og í öðrum tilfellum þar sem um tvær verslanir var að ræða var lögð 100.000 króna sekt á Drífu.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Um 40 starfsmönnum Icelandair sagt upp

Um 40 starfsmönnum Icelandair sagt upp
Fréttir
Í gær

„Það svíður mig að ævistarf sé glæpavætt“

„Það svíður mig að ævistarf sé glæpavætt“