fbpx
Miðvikudagur 05.nóvember 2025
Fréttir

Er þetta ógreint vandamál íslenskunnar? – „Ekkert sem kallar til mín“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 5. nóvember 2025 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mikið hefur verið rætt undanfarið um hnignun íslenkrar tungu og þær hættur sem steðji að henni. Rætt er meðal annars um minnkandi lestur á bókum á íslensku ekki síst meðal ungs fólks. Íslenskur bókaunnandi varpar hins vegar fram sjónarhorni sem lítið hefur farið fyrir í umræðunni. Viðkomandi virðist allur af vilja gerður til að lesa íslenskar bækur en segir að þær veki einfaldlega ekki nógu mikinn áhuga þegar hann heimsæki bókaverslanir en öðru máli gegni um bækur á ensku. Eru fleiri sammála viðkomandi um að íslenskar bækur skorti fjölbreytni.

Þetta kemur fram í færslu á Reddit. Bókaunnandinn segist þar lesa mikið og hafa almennt frekar góðan orðaforða á íslensku en af einhverjum ástæðum séu fáar íslenskar bækur sem veki áhuga hans í bókaverslunum en þegar kemur að bókum á ensku í sömu verslunum sé iðulega fjöldi bóka sem veki áhuga. Eða eins og bókaunnandinn orðar það um íslensku bækurnar:

„Ekkert sem kallar til mín.“

Raunar er yfirskrift innleggs hans:

„Hvað er vandamálið við íslenskar bókmenntir?“

Veltir bókaunnandinn að lokum fyrir sér hvað öðrum finnist um íslenskar bókmenntir og hvort hans upplifun sé einstök eða hvort hún eigi við um fleiri.

Föst

Einn aðili sem svarar spurningunni vill meina að vandamál íslenskra bókmennta sé skortur á fjölbreytni:

„Man t.d. að á yngri árum þá var eiginlega ekkert í boði nema íslensk grámygla og táningssögur skrifaðar af fyrrum fótboltastjörnum sem voru með einhverja nostalgíu gagnvart fyrstu ást sinni. Það var hin heila breidd og svo Laxness inn á milli. Eina sem hefur bæst við síðan eru endalausar bækur um hin og þessi morð.“

Annar aðili sem svarar spyr málshefjanda hvað sé svona meira heillandi við bækur á ensku en íslensku. Svarið er meðal annars að bækur á ensku hljómi oft eins og þær séu fyndnari og með áhugaverðari sögupersónum eða áhugaverðari söguþræði. Meiri fjölbreytileiki sé í bókum á ensku en íslensku:

„Þar sem það eru ævintýri, dystópíur, vísindaskáldskapur og aðgengilegar skáldsögur. Mér finnst eins og meginþorri íslensku bókanna séu krimmar eða þunglyndissögur (eða þunglyndir krimmar) sem kallar engan veginn til mín. Svo eru það vandaðar fagurbókmenntir sem mér líður eins og ég þurfi að kunna alla íslensku bókmenntasöguna utan að til að skilja, og svo ævisögur um fólk sem ég hef í raun engan áhuga á að vita meira um (sem eru samt örugglega mjög áhugaverðar).“

Annar aðili tekur undir þessa greiningu á íslenskum bókmenntum.

Of mikið af glæpasögum

Enn annar aðili vill einnig meina að íslenskar bækur séu ekki nógu fjölbreytilegar. Þær falli aðallega í nokkra flokka. Glæpasögur, þunglyndislegur hversdagsleikinn, skáldverk um sanna atburði, ævisögur, og göldróttur en samt þunglyndislegur hversdagsleiki. Vill viðkomandi einnig meina að of oft séu íslenskar bækur ekki nógu vel skrifaðar.

Ljóst er að mikið hefur verið gefið út af glæpasögum á Íslandi undanfarin ár og slíkar bækur rata iðulega í efstu sæti metsöluslista. Það eru þó nokkrir sem taka til máls í þessari sem segja að of mikið sé um glæpasögur í íslenskum bómenntum og þær veki ekki áhuga viðkomandi. Einn aðili segist lítinn áhuga hafa á glæpasögum og fjölskyldudrama í bláköldum veruleika:

„Þar með er voða lítið eftir af íslenskum bókum fyrir mig. Les svona 30 bækur á ári og veit eiginlega ekki hvenær ég las seinast bók á íslensku.“

Einn aðili gerir sérstaka athugasemd við bækur tveggja af vinsælustu rithöfundum landsins, Yrsu Sigurðardóttur og Arnalds Indriðasonar, og segist hafa misst áhugann á þeim þar séu í meginatriðum allar eins og of margar aðrar bækur séu hálfgerð endurvinnsla á þeirra verkum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Um 40 starfsmönnum Icelandair sagt upp

Um 40 starfsmönnum Icelandair sagt upp
Fréttir
Í gær

„Það svíður mig að ævistarf sé glæpavætt“

„Það svíður mig að ævistarf sé glæpavætt“