
Tveir karlmenn annar Íslendingur en hinn Letti hafa verið ákærðir fyrir stórfelld fíkniefnalagabrot með ræktun og sölu á kannabis í iðnaðarhúsnæði sem tilheyrir Kjalarnesi. Lagði lögreglan hald á mikið magn í aðgerðum vegna málsins en um er að ræða tugi kílóa.
Íslendingurinn er á fimmtugsaldri en Lettinn á fertugsaldri. Ákæran á hendur þeim síðarnefnda er birt í Lögbirtingablaðinu í dag en hann er með íslenska kennitölu en skráður til heimilis í Lettlandi.
Mennirnir tveir eru ákærðir fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa, í sameiningu, í mars 2021, í umræddu iðnaðarhúsnæði á Kjalarnesi, haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni 57 kannabisplöntur, 29,2 kíló af kannabisplöntum og 25,4 kíló af maríhúana og hafa um nokkurt skeið fram til þess dags ræktað þessar plöntur en lögregla lagði hald á efnin við leit.
Þess er krafist að mennirnir verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Jafnframt er krafist upptöku á áðurnefndum kannabisplöntum og maríhúana, Þá er einnig krafist upptöku á 6 viftum, 4 lömpu, 2 kælikössum fyrir loftræstingu, 45 ljósaperum, 48 lömpum, 47 straumbreytum, 3 skiljörum með glerkúpli og snúningsró, 4 led lömpum og 12 loftsíu.
Væntanlega hefur ekki tekist að birta Lettanum ákæruna og því er það gert með þessum hætti. Er hann einnig kvaddur til að mæta fyrir dóm þegar málið verður tekið fyrir við Héraðsdóm Reykjavíkur í janúar næstkomandi. Sæki maðurinn ekki dómþing, við þingfestingu máls eða á síðari stigum þess, má hann búast við því að fjarvist hans verði metin til jafns við það að hann viðurkenni að hafa framið það brot sem hann er ákærður fyrir og dómur verði lagður á málið að honum fjarstöddum.