
Kærunefnd húsamála hefur kveðið upp úrskurð í harðvítugu deilumáli á milli leigjenda og leigusala. Höfðu leigjendurnir í frammi ýmsar ásakanir á hendur leigusalanum. Meðal þeirra var að leigusalinn hefði viðhaft hótanir í þeirra garð og stolið af þeim. Einnig fullyrtu leigjendurnir að leigusalinn hefði ekkert sinnt nauðsynlegum viðgerðum á húsnæðinu og vildu meðal annars meina að gluggar hefðu lekið, mygla verið til staðar og skólp flætt um húsnæðið. Nefndin varð við helstu kröfu leigjendanna en ekki öllum.
Leigjendurnir sem um ræðir eru tveir og virðast vera par eða hjón en leigusalinn er fyrirtæki sem virðist einnig hafa verið vinnuveitandi annars leigjandans. Leigjendurnir kröfðust þess að viðurkennt yrði að uppsögn þeirra á leigusamningi væri lögmæt og að kröfu leigusalans um greiðslu leigu fyrir ágúst 2024 yrði hafnað. Einnig kröfðust þau þess að leigusalanum yrði gert að endurgreiða tryggingarfé að fjárhæð 500.000 krónur ásamt dráttarvöxtum. Þá var þess einnig krafist að leigusalinn endurgreiddi þeim 260.000 krónur í leigu þar sem hann hafi leigt hluta húsnæðisins til annars einstaklings í sex og hálfan mánuð á leigutíma þeirra. Sömuleiðis kröfðust leigjendurnir þess að leigusalanum yrði gert að skila hlutum í þeirra eigu sem hann hafi læst inni í bílskúr og gámum. Loks gerðu leigjendurnir kröfu um miskabætur úr hendi leigusalans vegna hótana og móðgana hans í þeirra garð, sem og vegna vangoldinna launa til annars leigjandans að fjárhæð 770.000 krónur.
Fram kemur í úrskurði nefndarinnar að aðilar málsins hafi gert með sér leigusamning frá apríl 2023 til apríl 2024 um leigu á íbúð leigusalans. Leigusamningurinn var síðan framlengdur ótímabundið en aðila málsins greindi einnig á um hvenær leigutímanum lauk.
Fram kom af hálfu leigjendanna að leigusalinn hafi lofað úrbótum vegna bilana og slæms ástands íbúðarinnar en ekki staðið við það. Gluggar og þak hafi lekið, rafmagn hafi ítrekað slegið út og einnig hafi upphitun hússins verið ábótavant. Mygla hafi verið á baðherbergi, engin loftræsting verið í húsinu, skólp hafi flætt um húsið og mygla verið á veggjum í herbergjum. Engir reykskynjarar hafi verið til staðar fyrr en í apríl 2023, en þeir hafi síðan pípt daga og nætur og leigusalinn þá ráðlagt að rafhlöðurnar yrðu fjarlægðar. Aðilar hafi komist að samkomulagi um uppsögn leigjendanna og að þeir myndu flytja í annað húsnæði 1. ágúst 2024. Engu að síður hafi leigusalinn ekki endurgreitt tryggingarféð og hvorki svarað skilaboðum né símtölum. Þá hafi hann haldið áfram að setja reikninga vegna leigu inn á heimabanka þeirra frá 1. ágúst 2024.
Í andsvörum leigusalans kom fram að leigjendurnir hafi flutt inn í íbúðina í apríl 2023 og að ári liðnu óskað eftir ótímabundnu leigusamningi til að geta fengið húsaleigubætur. Reykskynjarar hafi verið settir í öll herbergi en tveimur vikum síðar hafi nokkrir þeirra verið fjarlægðir án leyfis. Þá spurði leigusalinn hvers vegna leigjendurnir hafi gert ótímabundinn leigusamning eftir að hafa búið í húsnæðinu í eitt ár hafi þau talið búsetuskilyrði ófullnægjandi. Það sé hægt að ljúka leigusamningnum, en réttindi og skyldur beggja aðila gildi þó þar um.
Í viðbótar athugasemdum leigjendanna kom fram að með þessum orðum væri leigusalinn að viðurkenna að viðvörunarkerfi hússins hafi verið bilað og að honum hafi verið tilkynnt um það án þess að hann hafi brugðist við. Þrjár fjölskyldur hafi verið búsettar í húsinu og þær allar orðið fyrir misnotkun og mannréttindabrotum af hálfu leigusalans. Einnig hafi hann hótað þeim, stolið af þeim og vangreitt þeim laun. Mörg vitni séu að ástandi hússins, þar á meðal félagsþjónusta á Norðurlandi.
Aðilar hafi gert tímabundinn leigusamning til eins árs frá 1. apríl 2023 sem hafi verið undirritaður á ensku. Útgáfan á þeim ótímabundna samningi sem aðilar hafi gert í gegnum vefsíðu á netinu hafi ekki verið í samræmi við ensku útgáfuna. Um hafi verið að ræða falsaðan samning sem leigusalinn hafi neytt þau til að undirrita. Hann hafi vitað að þau kynnu ekki íslensku. Framlenging samningsins hafi verið þvinguð ráðstöfun fyrir þau þar sem konan hafi átt von á sínu fjórða barni. Á þeim tíma hafi þau ekki getað flutt úr húsnæðinu og ekki haft tíma til að finna annað húsnæði fyrir þessar tilteknu dagsetningar. Þau hafi síðan fundið nýtt húsnæði fyrir ágúst 2024, sem þau hafi tilkynnt leigusalanum um með þriggja mánaða fyrirvara.
Það er ekki takið fram hvar á landinu húsnæðið er en miðað við vísan leigjendanna til félagsþjónustu á Norðurlandi virðist húsnæðið hafa verið þar. Í niðurstöður kærunefndar húsamála kemur þó fram að þegar fyrri leigusamningurinn, sem var í gildi frá apríl 2023 til apríl 2024, var gerður hafi Reykjanesbær fyrir hönd leigjendanna millifært 500.000 krónur inn á reikning leigusalans sem tryggingu. Þegar þessum samningi hafi lokið hafi nýr ótímabundinn samningur verið gerður en í honum hafi hins vegar verið merkt við að ekki væri gerð krafa um tryggingu.
Nefndin segir að þar með hafi leigusalanum borið að endurgreiða trygginguna þegar fyrri leigusamningnum lauk og hann hafi ekki gert kröfu í trygginguna. Líta verði svo á að leigjendurnir sjálfir hafi reitt trygginguna fram þótt að Reykjanesbær hafi greitt hana. Því fellst nefndin á kröfu leigjendanna um að þeir fái trygginguna, sem var eins og áður segir 500.000 krónur, endurgreidda ásamt dráttarvöxtum.
Nefndin fellst hins vegar ekki á kröfur leigjendanna um að viðurkennt verði að uppsögn þeirra á ótímabundna leigusamningnum væri lögmæt. Ekki hafi verið sýnt fram á að þau hafi ekki verið bundin af 6 mánaða uppsagnarfresti þegar þau fluttu út úr íbúðinni um mánaðamótin júlí/ágúst 2024. Engin gögn hafi verið lögð fram sem sanni að lögmætar ástæður hafi verið að baki riftuninni. Leigjendurnir þurfa þó aðeins að greiða leigu fyrir ágúst 2024 en ekki 6 mánuði þar sem leigusalinn sýndi ekki fram á að hann hefði gert neinar ráðstafanir til að koma húsnæðinu aftur í útleigu. Fram kemur raunar að ári eftir að leigjendurnir flutti út hafi húsnæðið enn ekki verið komið aftur í útleigu.
Þegar kemur að kröfu leigjendanna um endurgreiðslu á 260.000 krónum í leigu þar sem leigusalinn hafi leigt hluta húsnæðisins til annars einstaklings í sex og hálfan mánuð á leigutíma þeirra þá segir nefndin að samkvæmt gögnum málsins hafi verið um að ræða einstakling sem hafi tekið herbergið á leigu fyrir tilstuðlan leigjendanna. Krafa um þetta hafi heldur ekki verið lögð fram á leigutíma og sé of seint fram komin. Þessari kröfu er þar með hafnað.
Þegar kom að ásökunum leigjendanna um að leigusalinn hafði stolið hlutum í eigu þeirra og læst inn í gámi og bílskúr segir nefndin að engin nánari lýsing eða rökstuðningur fyrir þessu hafi verið lögð fram af hálfu leigjendanna. Leigusalinn vildi meina að ekki hafi verið um að ræða muni í eigu leigjendanna sem gerðu engar athugasemdir við þá fullyrðingu. Vegna óskýrleika og skorts á rökstuðningi fellst nefndin ekki á þá kröfu að leigusalanum verði gert að skila hlutunum til leigjendanna.
Loks vísar nefndin frá kröfu leigjendanna um miskabætur vegna meintra hótana leigusalans í þeirra garð, sem og vegna launa sem hann skuldi öðru þeirra. Ekki sé um að ræða ágreining sem varði ákvæði húsaleigulaga og falli þar með utan lögsögu nefndarinnar.