

Maður sem grunaður er um að hafa brotist í tvígang inn á heimili fjölskyldu í Hafnarfirði og framið alvarlegt kynferðisbrot gegn 10 ára dreng var fyrrverandi vinnufélagi móðurinnar. Sá hópur hafði átt í samskiptum um daginn vegna fyrirhugaðs hittings.
Frá þessu greinir í Heimildinni en foreldrar drengsins eru þar í viðtali.
Á miðnætti fóru ítrekuð símtöl að berast frá manninum í síma móðurinnar en hún hafði verið í hópspjalli við hann og hina fyrrverandi vinnufélaganna fyrr um daginn. Þar sem maðurinn hefur sögu um ofdrykkju og að falla á bindindi taldi hún að eitthvað slíkt væri í gangi og ákvað að svara ekki. Eftir ítrekaðar hringingar sendi hún honum skilaboð og spurði hvað væri í gangi. Hann spurði þá til baka hvað hún væri að meina og allt væri í góðu.
Undir morgun kom drengurinn inn í herbergi til foreldra sinna og greindi þeim frá því að maður hefði verið inni í herberginu hjá honum og hefði komið buxnalaus upp í rúm til hans. Faðirinn hljóp inn í herbergi til sonarins en taldi að hann hefði verið að dreyma þetta. Drengurinn skýrði foreldrum sínum frá því að maðurinn hefði verið buxnalaus er hann kom upp í rúm til hans og að hann hefði tekið hann úr buxunum.
Á meðan drengurinn var að greina foreldrum sínum frá þessu reyndi maðurinn að brjótast aftur inn í húsið. Faðirinn stökkti honum á flótta og hringdi í lögreglu. Segir hann í viðtali við Heimildina að það undri hann mikið að maðurinn hafi komið aftur.
Foreldrarnir segja að lýsingar drengsins í skýrslutökum á meintu ofbeldi mannsins gegn honum séu mjög sláandi og í viðtalinu, sem er ítarlegt, er farið í gegnum hvað áhrif þessi hræðilegi atburður hefur haft á fjölskylduna.
Þau segja jafnframt að það hafi verið glórulaus ákvörðun að leysa manninn úr gæsluvarðhaldi á miðvikudeginum eftir árásina, en brotið átti sér stað aðfaranótt sunnudagsins 14. september. Segjast þau enn upplifa ógn.
„Ég kaupi það ekki að sonur okkar sé óhultur fyrir þessu manni,“ segir faðirinn.
Sjá nánar í Heimildinni.