fbpx
Fimmtudagur 30.október 2025
Fréttir

Keypti íbúð af eigin fyrirtæki á of lágu verði

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 30. október 2025 17:30

Mynd: Eyþór Árnason. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Yfirskattanefnd hefur staðfest úrskurð ríkisskattstjóra í máli ónefnds manns sem er einn þriggja eigenda fyrirtækis. Hafði maðurinn keypt íbúð af fyrirtækinu í fjölbýlishúsi sem þetta sama fyrirtæki byggði. Taldi ríkisskattstjóri kaupverðið hafa verið óeðlilega lágt og færði manninum mismun kaupverðs annars vegar og matsverðs hins vegar til skattskyldra tekna sem gjöf.

Úrskurður ríkisskattstjóra var kveðinn upp í desember 2024 en kærður til yfirskattanefndar í febrúar 2025. Ríkisskattstjóri hafði fært manninum til skattskyldra tekna um 16,6 milljónir króna vegna gjaldársins 2019. Hafði hann keypt íbúðina árið 2018 á um 23,6 milljónir króna en ríkisskattstjóri taldi matsverðið eiga að vera um 40,2 milljónir króna og að mismuninn, áðurnefnda upphæð, ætti að telja manninum fram til skattskyldra tekna. Við upphæðina var síðan bætt 25 prósent álagi.

Með bréfi í september 2024 óskaði ríkisskattstjóri skýringa frá fyrirtækinu á þessu lága söluverði á íbúðinni, árið 2018, og benti á að á þeim tíma hefði fasteignamat íbúðarinnar verið 36 milljónir króna.

Sagði fyrirtækið að meðal annars hefði verið skrifað undir kaupsamning sumarið 2017 en í afsali hafi hann verið ranglega dagsettur í febrúar 2018. Árið 2015 hafi kauptilboð legið fyrir í allar íbúðir í húsinu en það hafi ekki gengið eftir og árið eftir hafi verið ákveðið að lækka fermetra verð á fokheldum íbúðum í viðskiptum við eigendur félagsins. Löggiltur fasteignasali hafi ekki talið það vera óeðlilegt.

Hækkaði

Sagði fyrirtækið enn fremur að gengið hefði verið frá þessum kaupsamningum við eigendur þess í byrjun árs 2017, en ekki hefði verið skrifað undir fyrr en veðbókarvottorð hefði legið fyrir í júní 2017. Í október 2017 hefði fasteignamat íbúðarinnar verið 16 milljónir króna og hefði sala íbúða í húsinu farið að glæðast seinni hluta árs 2017 og verð snarhækkað frá þeim tíma.

Samkvæmt bókhaldi fyrirtækisins var sala íbúðanna til eigenda bókfærð í desember 2018.

Benti ríkisskattstjóri meðal annars á að maðurinn hefði setið beggja vegna borðsins. Kaupsamningurinn hefði mælt fyrir um að kaupverð fasteignarinnar skyldi greitt að fullu við undirritun samningsins, en engar greiðslur hefðu átt sér stað vegna viðskiptanna á árinu 2017. Líta yrði því svo á að viðskipti með eignina hefðu farið fram á árinu 2018 en ekki 2017. Taldi ríkisskattstjóri skýringar á kaupverðinu vera ófullnægjandi. Miðað við lægsta fermetraverð í viðskiptum með samsvarandi fasteignir í sama fjölbýlishúsi þætti markaðsverð fasteignarinnar hafa getað numið um 40,2 milljónum króna við sölu til mannsins í febrúar 2018. Söluverð eignarinnar hefði þó numið 23,6 milljónum króna og fasteignamat verið 36 milljónir króna. Yrði ekki annað séð en að maðurinn hefði keypt fasteignina af félaginu á óeðlilega lágu verði, í skilningi laga um tekjuskatt.

Víst 2017

Maðurinn vildi hins vegar meina að viðskiptin hefðu átt sér stað 2017 og þar með væri sex ára tímafrestur ríkisskattstjóra til endurálagningar opinberra gjalda liðinn. Kaupsamningur hefði verið undirtitaður þá og veðbókarvottorð sem fylgdi honum hefði verið stimplað samdægurs af Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Það dugði ekki til að breyta niðurstöðu ríkisskattstjóra sem sagði í sínum úrskurði að um hefði verið að ræða óheimila úthlutun verðmæta úr félaginu, sem ekki hefði verið gerð grein fyrir í skattframtali mannsins árið 2019, og sem færa bæri honum til tekna sem skattskylda gjöf. Var 16,6 miljónum króna bætt við skattstofn mannsins fyrir umrætt ár að viðbættu 25 prósent álagi.

Maðurinn kærði þá málið til yfirskattanefndar. Hann rökstuði kæru sína meðal annars þannig að þegar gengið hefði verið frá kaupunum árið 2017 hefði íbúðin ekki verið fullkláruð. Erfitt væri að þinglýsa íbúðum fyrr en á vissu byggingastigi samkvæmt fasteignaskrá. Gengið hefði verið frá afsali fasteignarinnar í febrúar 2018 og það síðan fært til þinglýsingar. Í afsalinu hefði fyrir mistök verið vísað til kaupsamnings, dagsettum á sama degi og afsalið. Allir samningar um kaupin hefðu verið undirritaðir árið 2017 og vísaði hann í því skyni meðal annars til staðfestingar votta. Kaupsamningi milli hans og félagsins hafi ekki verið þinglýst fyrr en á árinu 2018 þar sem um hafi verið að ræða viðskipti milli tengdra aðila og hafi þess því ekki verið talin þörf, en ákveðið hafi verið að bíða þar til afsal hefði verið undirritað. Vegna þessa hafi eignayfirfærslan ekki skráðst í fasteignaskrá á árinu 2017 og því ekki farið sjálfkrafa í skattframtal hans árið 2018. Hafi honum einfaldlega yfirsést að færa eignina í skattframtalið.

Íbúðin var leigð út í upphafi árs 2018 en í húsaleigusamningi var fyrirtækið tilgreint sem eigandi íbúðarinnar en maðurinn vildi meina að það væri eðlilegt þar sem afsal til hans hefði ekki farið fram. Hefði félagið því veitt honum umboð til að leigja eignina út.

Ríkisskattstjóri vildi meina að misræmi hefði verið í skýringum mannsins hvað varðaði yfirlýsinga votta á dagsetningu viðskipta fyrirtækisins við eigendur. Líta yrði til þess að vottarnir hefðu verið aðilar honum tengdir. Því neitaði maðurinn og vísaði hann meðal annars til þess að fasteignasalinn sem hefði séð um söluna og vottað samninginn væri honum ótengdur. Afsal vegna sölunnar væri dagsett 2018 og samkvæmt því kaupsamningur gerður sama dag og kaupverð að fullu greitt við útgáfu afsalsins. Engar greiðslur hefðu átt sér stað vegna viðskiptanna á árinu 2017 og hefði kaupverð eignarinnar verið gert upp undir lok ársins 2018 í tengslum við arðgreiðslu félagsins til mannsins. Hann hefði heldur ekki verið skráður eigandi íbúðarinnar í fasteignaskrá fyrr en árið 2018.

Of lágt

Lagði ríkisskattstjóri áherslu á að skýringar mannsins á söluverðinu, sem hefði verið óeðlilega lágt, hefðu verið ófullnægjandi. Til að mynda hefðu jafn stórar íbúðir í húsinu, 80 fermetrar, verið seldar 2017 til ótengdra aðila á 36,5 milljónir króna og nefndi fleiri dæmi um kaup á íbúðum í húsinu, árin 2017-18, og sagði að miðað við lægsta fermetraverð í þeim hefði markaðsvirði íbúðarinnar átt að vera rétt undir 40,2 milljónum króna en ekki 23,6 milljónir eins og maðurinn greiddi fyrir íbúðina.

Yfirskattanefnd tekur undir með ríkisskattstjóra um að það dragi úr trúverðugleika yfirlýsinga votta um að kaupsamningur hafi verið undirritaður 2017 að þar sé um tengda aðila að ræða, en þetta hafi verið eiginkona mannsins og eiginkona meðeiganda hans að fyrirtækinu. Önnur gögn málsins beri ekki með sér að salan hafi gengið í gegn árið 2017. Afsal sé dagsett 2018 og dagsetning kaupsamnings samkvæmt því sú sama. Maðurinn hafi ekki sannað að um mistök hafi verið að ræða. Þar að auki hafi fyrst verið gert grein fyrir kaupunum í skattframtali hans árið 2019 vegna tekjuársins 2018. Engar greiðslur vegna kaupanna hafi heldur átt sér stað 2017. Því sé ekki annað hægt en að taka undir með ríkisskattstjóra um að kaupin hafi farið fram 2018 og því hafi 6 ára frestur hans til endurálagningar opinberra gjalda ekki verið liðinn.

Nefndin telur það hafa verið eðlilegt hjá ríkisskattstjóra að ákvarða eðlilegt söluverð á íbúðinni miðað við fasteignamat og söluverð á sambærilegum íbúðum í húsinu á svipuðum tíma. Taka verði því undir niðurstöðu hans um söluverðið og að líta beri á það sem skattskylda gjöf. Nefndin staðfesti einnig að bætt yrði 25 prósent álagi á endurálagninguna í ljósi þess að annmarkar hefðu verið á skattskilum mannsins.

Niðurstaða ríkisskattstjóra í málinu, um að maðurinn hafi greitt of lágt verð fyrir íbúðina og ætti að borga skatt af muninum á verðinu og því verði sem hefði verið eðlilegt að greiða, stendur því óhögguð.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Lét lífið eftir að hafa verið sprautuð með ólöglegu þyngdartapslyfi á snyrtistofu

Lét lífið eftir að hafa verið sprautuð með ólöglegu þyngdartapslyfi á snyrtistofu
Fréttir
Í gær

Einar segir veðurspárnar hafa brugðist – „Mikil vonbrigði þessa vangeta reiknilíkananna og verulegt umhugsunarefni“

Einar segir veðurspárnar hafa brugðist – „Mikil vonbrigði þessa vangeta reiknilíkananna og verulegt umhugsunarefni“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Uppsagnir í sparnaðarskyni hjá ríkislögreglustjóra í gær – Stjórnendaráðgjafinn ráðinn í fullt starf eftir að RÚV hafði samband

Uppsagnir í sparnaðarskyni hjá ríkislögreglustjóra í gær – Stjórnendaráðgjafinn ráðinn í fullt starf eftir að RÚV hafði samband
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jakub krefst skaðabóta frá sýslumanni og þeim sem komu að sölunni – „Hægt hefði verið að koma í veg fyrir þessa niðurstöðu“

Jakub krefst skaðabóta frá sýslumanni og þeim sem komu að sölunni – „Hægt hefði verið að koma í veg fyrir þessa niðurstöðu“