

„Áður en ég heimsótti borgina í fyrsta sinn var mér ráðlagt að bóka nokkra daga þar, því hún byði upp á svo margt. Eftir að hafa heimsótt hana fimm sinnum, á öllum árstíðum, get ég með sanni sagt að það þarf ekki nema nokkrar klukkustundir til að fá góða yfirsýn – í mesta lagi tvo daga ef maður vill virkilega sjá allt sem áhugavert er,” segir viðkomandi og heldur áfram:
„Borgin er mjög lítil. Maður gengur í gegnum helstu staðina á ótrúlega stuttum tíma — íbúafjöldinn er aðeins um 140 þúsund og um 250 þúsund á höfuðborgarsvæðinu öllu. Það eru þó nokkur áhugaverð söfn í borginni, þannig að ef þú hefur gaman af slíku, þá er það frábært. Hallgrímskirkja og Harpa eru falleg kennileiti, nokkrar verslanir og barir eru virkilega skemmtilegir að kíkja inn í, og andrúmsloftið í borginni er almennt frábært. Það eru líka nokkrar skoðunarferðir sem hægt er að fara í. Samt sem áður hefur maður á tilfinningunni að eitthvað vanti – nema maður haldi út fyrir borgina,” segir viðkomandi sem vill þó ekki gagnrýna Reykjavík of mikið.
„Ég elska borgina og uppgötva eitthvað nýtt í hvert sinn sem ég kem. Hún stendur þó ekki alveg undir þeim væntingum sem margir hafa til hennar.”
Um 1.400 athugasemdir hafa verið skrifaðar við færsluna og snúast þær margar um Reykjavík og innlegg viðkomandi um borgina.
„Til að gæta sanngirni, ef þú ferð til Íslands og ferð ekki út fyrir Reykjavík, þá ertu eiginlega að gera þetta vitlaust. Tilgangurinn með því að heimsækja Ísland er að komast út úr borginni og njóta náttúrunnar. Það er eins og að fara í Grand Canyon-þjóðgarðinn og stoppa bara í gestamiðstöðinni,“ segir einn.
Annar tekur undir þetta. „Já, einmitt. Keyra hringinn, kíkja á Vestfirði og Snæfellsnes. Ég upplifði alla töfrana á þessum stöðum.“
Annar bendir á að Reykjavík sé í eðli sínu ágæt og maturinn þar sé til dæmis framúrskarandi.
Enn annar furðar sig á þessari umræðu og spyr hvort Reykjavík hafi einhvern tímann verið talin sérstök borg til að heimsækja. „En Ísland sem land er allt annað – ég hef heimsótt nærri fimmtíu lönd og það er samt í fyrsta sæti hjá mér. Reykjavík sjálf… ég var ekki með miklar væntingar, en borgin kom mér samt skemmtilega á óvart. Við dvöldum þar einmitt á þjóðhátíðardeginum og það gerði upplifunina enn eftirminnilegri. Samt sem áður, þegar ég segi fólki að fara til Íslands, þá kemur Reykjavík varla upp í samtalinu nema í tengslum við flug og gistingu á leiðinni til eða frá. Það eru svo margir aðrir staðir í landinu sem eru algjörlega stórkostlegir — náttúrufegurð í hverju horni.”