fbpx
Mánudagur 27.október 2025
Fréttir

María opnar sig um áralangt ofbeldi – „Maður festist í fangelsi óttans“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 27. október 2025 11:30

María Gomez

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

María Gomez, matargyðja og bloggari, fagnaði 47 ára afmæli þann 11. október síðastliðinn. Í færslu sem hún birti þann dag þakkaði hún fyrir fallegar afmæliskveðjur og sagði sumarið hafa verið erfitt. 

„Þetta sumar hefur kennt mér að jafnvel í storminum getum við börnin dafnað. Hvað er fallegra en að sjá börnin sín þroskast, blómstra og verða sterkari. Þrátt fyrir allt sem þau ganga í gegnum ? í því felst raunveruleg fegurð. Við krakkarnir fengum lífið okkar og hvort annað aftur. Ekki fullkomið, en okkar eigið, og það er besta afmælisgjöfin sem ég gat óskað mér.“

Sjá einnig: Afmælisdagur Maríu byrjaði með óvæntum hætti – „Þetta sumar hefur kennt mér að jafnvel í storminum getum við börnin dafnað“

María hefur nú opnað sitt um áralangt ofbeldi í færslu á samfélagsmiðlum sínum. Segist hún hafa kosið að þurfa aldrei að fara þá leið, „en stundum neyðist maður til að taka þegar þögnin skaðar meira en hún verndar. Ég hef því ákveðið að rjúfa þögnina.“

Segir María að því saklausari sem manneskja sýnist að utan því myrkari öflum búi hún með hið innra. Segir hún marga hafa tékkað á sér, athugað með líðan hennar og hvenær hún snúi aftur með efni á samfélagsmiðla, segir hún að henni þyki óendanlega vænt um það og svarið sé að hún er komin aftur.

 „Ég veit að sl. 2-3 ár hefur miðillinn minn breyst mikið, ég hef dregið mig smám saman í hlé, milli þess sem ég hef komið inn og lofað að segja meira frá  „Spánarævintýrinu“ en svo aftur komið þögn. En nú ætla ég að vera kjörkuð og fara langt út fyrir það sem ég er vön og segja blákalt frá öllu sem hefur valdið þessari breytingu.“

Segir engan vera gallalausan

Í mörgum færslum vísar María í Freud sem hún segir ekki alltaf eiga við, en engin manneskja sé svo hrein og saklaus að ekki megi finna einn galla.

„Ef þú finnur einhvern sem virðist gallalaus, er líklega best að hlaupa í burtu. Ég hefði átt að gera það miklu fyrr. Stundum lærir maður á bitran hátt að orð og ímynd segja ekki alla söguna. Þegar maður sér loksins hvað raunverulega býr undir, getur það verið of seint. Því hver trúir því að svona auðmjúk og góð manneskja geti gert nokkuð illt?

Stundum geta einstaklingar sem virðast veikburða, óöruggir eða jafnvel óheppnir í útliti nýtt sér það sem vopn. Því auðveldara er að vekja samúð og vorkunn og þeim mun erfiðara að sjá í gegnum hvað raunverulega er í gangi. Það er ekki góður veruleiki að búa við. Maður festist í fangelsi óttans og rembist við að halda áfram, þegar manni langar mest að hlaupa sem lengst.“

Segist hafa skammast sín 

Segist María hafa fram að þessu haldið einkalífi sínu og barna sinna vernduðu og hún hafi borið með sér skömm fyrir allt sem gengið hefur á, þó það sé ekkert sem hún eigi að skammast sín fyrir.

 „Ég hélt lengi að þögnin myndi vernda okkur. En hún verndar aðeins þann sem veldur skaðanum. Við höfum nú lifað við óvissu og ótta of lengi. Sjö mánuðir í stöðugu helvíti, mörg ár þar á undan síðustu tvö til þrjú ár í martröð. Ég reyndi stöðugt að laga, réttlæta, bæta og halda frið. Því meira sem ég reyndi að laga, því meira missti ég stjórn á ástandi sem aldrei var hægt að laga. Það veit ég núna, en neitaði að horfast í augu við það of lengi. Á endanum varð mér ljóst að ástandið var orðið hættulegt, ekki aðeins fyrir mig, heldur líka fyrir aðra á heimilinu og fólkið í kring. Það hafði náð yfir allt: líf, skóla, vinnu, félagslíf og daglegt öryggi. Það sem áður var falið öðrum var nú orðið augljóst og sýnilegt fleirum.“

Segist María hafa búið stöðugt síðustu ár við aðstæður þar sem stjórn, hótanir og ofbeldi í öllum myndum réðu för; kynferðislegt, fjárhagslegt, tilfinningalegt og andlegt ofbeldi.

„Sumt af því heldur áfram enn í dag og hótanir, óvissa og kvíði halda okkur í stöðugri ógn. Það var aðeins tímaspursmál hvenær þetta myndi færast yfir í alvarlegt líkamlegt ofbeldi, því ógnin var orðin yfirþyrmandi.“

Í færslum sínum birtir María nokkur dæmi um ofbeldið:

„Hlutum var kastað þvert yfir herbergi, veggir og hurðir lamdar og hristar. Morgunverðarskál var brotin á eigin enni þess sem beitti ofbeldinu, í slíku tryllingsástandi að blóð fór um allt og djúpur skurður myndaðist. Speglar voru kýldir og brotnir með skurðum á hnefum, meðan viðkvæmir sváfu undir sama þaki. Stöðug öskur, niðurlægingar og skammir á borð við hóra og annað í sama dúr fyrir framan viðkvæmar sálir sem bjuggu á heimilinu, stundum jafnvel úti á götu fyrir framan almenning. Líkamlegt ofbeldi var minna áberandi varð þó einu sinni fyrir rifbeinsbroti þegar ég fékk olnbogahögg nokkrum sinnum viljandi í síðuna. Síðar var olnboganum oft beitt í svokölluðum  „slysum“ þegar ég gekk framhjá og þessi stóri harði olnbogi kom allt í einu  „óvart“ út. Ég er ekki stór en heldur ekki svo lítið að ég sjáist ekki koma og undraðist oft hversu oft ég gekk  „óvænt“ á sama olnbogann.“

Kom sér úr aðstæðunum

María segist að lokum hafa tekið ákvörðun um að koma sér út úr þessum aðstæðum og við það hafi ástandið breyst, það sem áður hafi verið erfitt hafi orðið að lifandi helvíti, ástand sem varað hefur síðustu sjö mánuði.

 „Það tók mig 2 ár að finna kjarkinn til að slíta okkur laus frá þessum hryllingi í eitt skipti fyrir öll. Ég trúði kerfinu og hélt að hægt væri að vernda okkur með réttum leiðum en mikið hafði ég rangt fyrir mér. Von mín um að komast undan hefur þvert á móti skapað enn meiri stjórn, ógn og óvissu.“

Segir María að hvorki kæra, nálgunarbann, vernd eða að klippa á lagalega hnútinn hafi hjálpað eða virkað.

 „Síðan þá höfum við lifað í stöðugri óvissu, pressu og afskiptum, þar sem stöðugt er reynt að ná aftur tökum á mér með öllum mögulegum leiðum: lagalegum, félagslegum og persónulegum.“

Segir María allt hafa verið notað gegn henni, orð, atriði úr einkalífi hennar, fortíð og reynslu, einkamál sem hún deildi í trúnaði og hennar persónulegasta notað gegn henni.

 „Það sem átti að vera einkamál varð að opinberri niðurlægingu. Þetta er eitt form ofbeldis sem svo oft á sér stað þegar manneskja reynir að slíta sig lausa frá þeim sem byggir vald sitt á stjórn og óflekkaðri ímynd.“

Segir marga hafa horft í hina áttina eða tekið afstöðu

María segir marga hafa litið í hina áttina og suma jafnvel tekið afstöðu, beint eða óbeint. Það hafi haft þær afleiðingar að hún geti hvergi leitað og hafi verið nánast ein.

 „En þó ekki alveg því um leið höfum við fengið ómetanlegan stuðning frá yndislegum vinum úr fyrri tíð sem kom til hennar á réttum tíma og hreinlega bjargaði okkur.

Við upplifum daglega bjargarleysi og varnarleysi, sama hvað maður reynir að hrópa á hjálp og sýna með gögnum hvað er að eiga sér stað. Ekkert fær þetta stöðvað og ekkert gerist. Ég hef hingað til kosið að réttlæta mig ekki né draga aðra inn í hryllinginn, því fólk á ekki að þurfa að lifa þetta með mér. En þegar maður þegir of lengi, verður þögnin túlkuð sem sekt og gefur þeim sem vilja stjórna frásögninni byr undir báða vængi.“

Gagnrýnin á kerfið sem eigi að vernda en gerir það ekki

María er gagnrýnin á kerfið sem eigi að vernda þolendur en gerir það ekki. Kerfið leyfi óásættanlegu ástandi að viðgangast of lengi með alvarlegum afleiðingum fyrir þá sem þurfa á vernd þess og aðstoð að halda. Kerfið eigi að staldra við, spyrja gagnrýninna spurninga og flýta ferlum svo fólk geti komist úr aðstæðum sem enginn eigi að þurfa að lifa við.

 „Það sem í raun á sér stað er frelsissvipting í skjóli laganna og í mínum huga ekkert annað en mannréttindabrot. Réttarferli dragast, ákvarðanir tefjast og kerfin virðast ófær um að vernda þá sem mest þurfa á því að halda. Á meðan kerfið tekur sinn tíma lifum við í bið, í hálfgerðri frelsissviptingu með tilheyrandi áhrifum á líf, framtíð og öryggi okkar. 

Þegar þögnin verndar ekki lengur sé ég mig knúna til að segja frá því sem raunverulega er að eiga sér stað, lífi í bið, óvissu og frelsissviptingu sem nær inn í öll svið daglegs lífs, á meðan verndin beinist að þeim sem ekki á að vernda, á meðan.“

Segist María tilneydd til að nota rödd sína og vettvang sinn, samfélagsmiðla sína, því ekkert bíði hennar annað en meiri óvissa og bið vikur, mánuði, jafnvel ár.

„Föst í aðstæðum sem hafa víðtækar afleiðingar og seytla inn í allt okkar líf: svefn, skóla, tengsl, sjálfstraust, fjármál og jafnvel andardrátt. Við búum daglega við stöðugt álag, ótta og óvissu, oft undir árásum og áreiti“, segir María.

Bætir hún við að hún þurfi stöðugt að sanna sig og réttlæta og verja sig eins og glæpamaður. Þannig sé hennar daglega líf og hún glími enn við það sem hún reyndi að komast undan og stöðva.

 „Því þótt vágesturinn sé horfinn af heimilinu, heldur ofbeldið áfram á annan hátt, í gegnum netð, stjórnsýslu, félagsnet og jafnvel yfirvöld. Eftir marga mánuði í ótta og óvissu finn ég að ég get ekki þagað lengur. Þetta er neyðarkall og áminning um að kerfin okkar verða að geta verndað fólk áður en eitthvað fer úrskeiðis. Ég birti þetta af þeirri einföldu ástæðu að þögn hefur ekki verndað okkur. Þögnin hefur aðeins gagnast þeim sem beita ofbeldi. Svona frelsissvipting á lífi einstaklinga á ekki að líðast og það verður aldrei hægt að breyta með því að þegja.“

Vill að á sig sé hlustað

María segir tilganginn með skrifunum ekki vera að sannfæra neinn, heldur einfaldlega að segja frá því sem hún og börnin þurfa að lifa við á hverjum degi,  „af þeirri illu nauðsyn og örvæntingu að reyna að stöðva þetta í eitt skipti fyrir öll. Með von um að einhvers staðar verði á mig hlustað, að ég verði tekin alvarlega og við fáum kannski aðstoð, ráð, stuðning eða hjálp til að komast út úr þessu helvíti. Því hingað til hefur enginn né ekkert getað hjálpað okkur. Og þetta er að fara með okkur!“

Segist hún ekki vita hvernig ástandið væri ef nálgunarbann væri ekki fyrir hendi, það sé þó orðið að skiptidíl.

 „Ég á annað hvort að draga svokallaðar  „falskar ásakanir“ til baka, þegja og láta sem ekkert hafi gerst, gegn því að fá frelsi og frið fyrir mig og börnin. Ef ég samþykki það ekki, á ég að lifa áfram í þessu ástandi árum saman, innan kerfis sem verndar okkur ekki, heldur virðist oft gefa gerendum og þeim sem beita þvingunum meiri tíma til að halda ótrauðir áfram. Hvers konar val er það spyr ég bara? 

Svona frelsissvipting á lífi einstaklinga á ekki að líðast! Ég vil bara að þetta hætti. Að börnin mín og ég fáum að lifa í friði. Að ég geti lifað sem frjáls manneskja með rétt til að taka eigin ákvarðanir um líf mitt og fjárhag og annað.“

Ætlar ekki að lifa lengur í skömm og ótta

Segist María vilja vekja athygli á hvernig lög og kerfi geta gert einstaklingum kleift að halda öðrum í óvissu, ótta og stjórnleysi árum saman. Segir hún ofbeldi ekki alltaf sýnilegt.  „Það getur verið falið í kerfum, í þögn, í orðunum sem enginn heyrir.“

María segist ekki ætla að þegja lengur heldur segja frá öllu sem átt hefur sér stað. Segir hún marga ekki munu skilja frásögnina, en þeir sem hafa sjálfir upplifað eitthvað svipað og fagfólk sem þekki slíkar aðstæður og hafi séð í gegnum störf sín, muni skilja.

„Þess vegna hef ég ákveðið að tala. Af ábyrgð og af nauðsyn. Og til að vekja athygli á því sem svo mörgum er hulið. Ég er hætt að lifa í skömm og ótta!“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Heiða segir mannanafnalögin miskunnarlaus – „Ég er algjörlega ráðalaus“

Heiða segir mannanafnalögin miskunnarlaus – „Ég er algjörlega ráðalaus“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Standa undir 40% ráðstöfunartekna sveitarfélagsins en fá ekki að hafa rödd – „Og hvað fáum við fyrir fasteignagjöldin okkar?“

Standa undir 40% ráðstöfunartekna sveitarfélagsins en fá ekki að hafa rödd – „Og hvað fáum við fyrir fasteignagjöldin okkar?“
Fréttir
Í gær

Ráðuneytið telur gæludýrafrumvarp Ingu standast stjórnarskránna – Friðhelgi einkalífs og eigna

Ráðuneytið telur gæludýrafrumvarp Ingu standast stjórnarskránna – Friðhelgi einkalífs og eigna
Fréttir
Í gær

Krefjast nýs aðalfundar í Sósíalistaflokknum

Krefjast nýs aðalfundar í Sósíalistaflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Aðgerðasinni truflaði kokteilboð dómsmálaráðherra

Aðgerðasinni truflaði kokteilboð dómsmálaráðherra
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Engin þjóðarvá vegna bilunarinnar í Norðuráli – „Vælið er nánast eins og ósjálfrátt viðbragð við umhverfinu“

Engin þjóðarvá vegna bilunarinnar í Norðuráli – „Vælið er nánast eins og ósjálfrátt viðbragð við umhverfinu“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Lögmaður segir fólk spá lítið í þetta við upphaf sambúðar: „Getur skipt sköpum að gengið sé rétt frá þessum hlutum“

Lögmaður segir fólk spá lítið í þetta við upphaf sambúðar: „Getur skipt sköpum að gengið sé rétt frá þessum hlutum“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Guðmundur Andri rifjar upp hjartnæma sögu af mömmu sinni: „Munum það strákar. Þetta er dagur kvennanna sem við elskum“

Guðmundur Andri rifjar upp hjartnæma sögu af mömmu sinni: „Munum það strákar. Þetta er dagur kvennanna sem við elskum“