

„Umræðan um bilunina á Grundartanga staðfestir það sem maður hefur haft ávæning af en kemur nú berlega í ljós – hversu hagsmunasamtök á Íslandi væla mikið. Þetta á við um þau flest – Samtök iðnaðarins, Samtök atvinnulífsins, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök ferðaþjónustunnar o.s.frv. Það er voða sjaldan að maður heyrir eitthvað jákvætt eða uppbyggilegt úr þessari átt. Vælið er nánast eins og ósjálfrátt viðbragð við umhverfinu,“ sagði Egill í færslu á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi.
Jón svarar Agli á Facebook-síðu sinni í dag þar sem hann segir skrif hans opinbera ótrúlega lítinn skilning á mikilvægi verðmætasköpunar í okkar samfélagi.
„Þau koma svo sem ekki á óvart komandi frá einstaklingi sem lítið annað hefur gert um ævina en að lépja ríkisjötuna. Nokkrar staðreyndir um þetta mál: Fyrirtækið hefur alls ekki verið að leita til ríkisins eftir aðkomu þess að málinu. Spennar sem hér eru undir eru sérframleiddir fyrir hvern og einn í Kína, kosta milljarða króna hver og pöntunar/framleiðslutími er ca 12 mánuðir,” segir Jón sem bendir á að hjá fyrirtækinu starfi yfir 600 starfsmann og afleidd störf, samkvæmt verkalýðsforkálfinum Vilhjálmi Birgissyni, séu yfir þúsund. Útflutningsverðmæti upp á 70 milljarða geti hæglega tapast.
Jón nefnir að tímabundnar ráðstafanir sem ríkið, eða Alþingi, geta gripið til sé að létta skattalegum álögum af fyrirtækjum og hvetja til frekari fjárfestinga þar sem það er hægt.
„Það er ljóst að það verður ekki Egill Helgason og hans líkar sem fara i þá vegferð samfélaginu til heilla. Það verða þeir sem hann kýs að kalla væluhópa,“ segir Jón.
Egill svarar Jóni fullum hálsi og áréttar að hann hafi ekki komist á hina svokölluðu ríkisjötu fyrr en um fimmtugt, eftir hátt í 30 ára feril á almennum vinnumarkaði.
„En einhvern veginn hefur maður á tilfinningunni að þeir sem hafa hæst um þetta tjón – sem við vitum alls ekki hvað verður – vilji einmitt að ríkið grípi inn í. Ein spurning svo: Eru þingmenn líka á ríkisjötu? Kjör þeirra eru allavega mun betri en margra okkar sem sjúgum spenann. Svo held ég að myndlíkingin „að lepja jötu“ geti ekki talist góð íslenska – hún stenst víst ekki,“ segir Egill.
Jón svaraði Agli strax í kjölfarið og vísaði í fyrri orð sín.
„Hvaðan sem þú kemur Egill lýsa þessi skrif þín mikilli vanþekkingu og afstöðu gagnvart þeim atvinnugreinum sem standa undir verðmætasköpun í okkar samfélagi. Nú er ég búinn að tala við tugi manna vegna þessa máls og þ.á.m. flesta þá sem það stendur næst. Enginn hefur viðrað aðkomu ríkisins. Nema þá hið augljósa sem felst í almennum stuðningi við þá sem missa atvinnu sína komi til þess.“