Borið hefur á því að lélegum gervigreindarlögum hafi verið laumað á síður íslenskra tónlistarmanna á streymisveitunni Spotify. Eru lögin dulbúin sem ný lög frá listamönnum, sem eru í sumum tilfellum löngu látnir.
Hafa lögin dúkkað upp á síðum hjá tónlistarmönnum á borð við Ragnari Bjarnasyni, Vilhjálmi Vilhjálmssyni, Mannakornum, GCD og Sálinni hans Jóns míns.
Lögin eru auglýst sem „nýjar smáskífur“ þrátt fyrir að hljómsveitirnar séu ekki allar starfandi og tónlistarmennirnir í mörgum tilfellum látnir, eins og í tilfelli Ragnars, Vilhjálms og Rúnar Júlíussonar í GCD.
Hins vegar er um að ræða tónlist sem líkist ekkert tónlist viðkomandi listamanna. Nokkurs konar gervigreindar „lyftutónlist“ með engum söng. Lögin eru svipuð og eru merkt með sams konar gervigreindarmyndum sem ber með sér að um sama óprúttna aðila sé að ræða.
Flest lögin bera handahófskennda titla, svo sem „Reykjadalur“ og „Haust“. En í tilfelli Sálarinnar heitir gervigreindarlagið „Hjá þér“, líkt og einn frægasti smellur hljómsveitarinnar. Það sem meira er þá kemur gervigreindarlagið fyrst upp þegar leitar er eftir „Hjá þér“ á Spotify.
Þessi íslensku tilfelli eru ekki þau einu í heiminum en í auknum mæli hafa óprúttnir aðilar laumað gervigreindarlögum á reikninga hjá tónlistarfólki um víða veröld. Er um svokallað „Spotify rán“ (Spotify hijacking) að ræða.
Hefur sænski streymisrisinn verið gagnrýndur fyrir það hversu auðvelt er fyrir þessa aðila að setja lög inn á reikninga sem þeir eiga ekki. Tilgangurinn sé að reyna að fá greiðslur fyrir lögin með því að narra aðdáendur viðkomandi tónlistarfólks til að smella á lagið.
En hér er ekki aðeins um fjárplógsstarfsemi að ræða heldur veldur þetta tónlistarfólki alvarlegum skaða. Það er orðspori þess ef grandlausir notendur Spotify halda að þessi lélega gervigreindartónlist sé í raun og veru það sem listamennirnir séu að bjóða upp á sem nýtt efni.
Á meðal þeirra fórnarlamba sem orðið hafa fyrir þessu er hljómsveitin Hiatus Kaiyote sem hafa skrifað greinar og beitt sér gegn þessu.
Í nýlegu bréfi til streymisveitna er ítrekað að þessi dæmi sýni alvarlegan galla við auðkenningu sem hafi alvarleg áhrif á bæði tónlistarfólk og hlustendur.
„Í dag getur hver sem er á auðveldan hátt upphalað hvaða tónlist sem er á reikning hvaða tónlistarmanns sem er á streymisveitum,“ segir í opnu bréfi hljómsveitarinnar sem hefur bent á að um 100 þúsund lögum sé upphalað á hverjum degi á Spotify. Spyrja meðlimirnir hversu mikið af því sé gervigreindartónlist og hversu mörgum lögum sé laumað á síður alvöru tónlistarmanna.
„Við krefjumst þess að tónlistardreifingar fyrirtæki og streymisveitur setji á fót alvöru auðkenningu til að koma í veg fyrir þetta,“ segir í bréfinu sem margir aðrir tónlistarmenn undirrita.