fbpx
Þriðjudagur 21.október 2025
Fréttir

Karlmaður fór í hart eftir að hafa verið synjað um frí í kvennaverkfallinu

Jakob Snævar Ólafsson
Þriðjudaginn 21. október 2025 14:39

Frá kvennaverkfallinu 2023. Mynd: Facebook síða Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kærunefnd jafnréttismála hefur komist að þeirri niðurstöðu að karlmanni hafi verið mismunað á grundvelli kyns þegar vinnuveitandi hans, Íslenskar orkurannsóknir, neitaði honum um launað leyfi í kvennaverkfallinu 2023 en maðurinn vildi taka þátt í dagskrá dagsins og sýna konum og kvár stuðning. Nefndin segir hins vegar að lög hafi ekki verið brotin í málinu og synjunin þar af leiðandi verið heimil.

Íslenskar orkurannsóknir er opinber rannsóknarstofnun sem heyrir undir umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytið.

Málavextir eru í meginatriðum þeir að 19. október 2023 sendi forstjóri Íslenskra orkurannsókna tölvupóst til starfsmanna þar sem tekið var undir hvatningu til kvenna og kvára um þátttöku í kvennaverkfallinu 24. október 2023. Ekki yrði gerð krafa um vinnuframlag þeirra sem vildu taka þátt en óskað var eftir að sviðsstjórar yrðu upplýstir um væntanlega fjarveru eftir því sem kostur væri.

Karlmaðurinn sendi forstjóranum tölvupóst að morgni 24. október 2023 og sagðist ætla vera frá vinnu eftir hádegi þann dag til að styðja við kröfur um jafnrétti kynjanna og þá ekki síst þar sem hallaði á konur og kvár. Spurði maðurinn hvort ekki væri tryggt að kynjum yrði ekki mismunað vegna launaðrar fjarveru til stuðnings við málstaðinn. Vísaði hann til jafnlaunastefnu og jafnlaunavottunar stofnunarinnar og laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna máli sínu til stuðnings.

Bara konur og kvár

Forstjórinn kannaði málið en hafnaði loks beiðninni með vísan til leiðbeininga Kjara- og mannauðssýslu ríkisins um að ekki yrði litið á fjarvistir kvenna og kvára þennan dag sem óréttmætar en ekkert væri þar minnst á karla. Var manninum boðið að vinna heima það sem eftir væri dags, nýta sér styttingu vinnuviku, nýta unnar umframvinnustundir gegn leyfi eða vinna tímana síðar upp.

Maðurinn var frá vinnu þennan dag í rétt yfir fjórar klukkustundir og nýtti til þess unnar umframvinnustundi en gerði fyrirvara um að synjunin yrði borin undir kærunefnd jafnréttismála.

Í kæru sinni vildi maðurinn meina að synjunin hafi falið í sér mismunun á grundvelli kyns í andstöðu við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Vísaði maðurinn til jafnlaunavottunar og jafnlaunastefnu Íslenskra orkurannsókna og sagði að  stofnuninni hafi verið óheimilt að varpa fyrir róða réttindum sem tryggð séu með lögum og vottunum í því skyni að bregðast við ákalli frá samfélaginu, hversu göfugt sem slíkt ákall kunni að vera. Tilgangurinn geti ekki ávallt helgað meðalið. Staðfest væri með áðurnefndum vottunum og stefnum að ekki hallaði á konur eða kvár hjá stofnuninni og því hafi engin réttlæting fyrir því að hafna beiðni hans verið til staðar.

Í góðri trú

Maðurinn tók þó fram að hann teldi forstjórann hafa verið í góðri trú þegar hann hafnaði beiðninni en það hafi einfaldlega ekki verið reist á nægilega traustum röksemdum. Tók maðurinn fram að hann styddi jafnrétti kynja og málstað kvennavekfallsins. Maki hans hafi tekið þátt í dagskrá verkfallsins og því hafi hann þurft að vera heima og sinna börnum þeirra en hefði sjálfur mætt ef skólar hefðu verið opnir.

Maðurinn hafnaði einnig röksemd Íslenskra orkurannsókna að um hafi verið að ræða sértæka aðgerð sem séu heimilar samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Hann vildi meina að ekkert í áðurnefndum leiðbeiningum Kjara- og mannauðssýslu ríkisins heimilaði að synja körlum um sömu meðferð og konum og kynsegin fólki. Einnig hafi verið um að ræða íþyngjandi launaskerðingu þar sem hann hafi óhjákvæmilega þurft að sinna börnum sínum eins og fleiri feður enda leik- og grunnskólar lokaðir og mæður hafi margar hverjar tekið þátt í kvennaverkfallinu.

Maðurinn andmælti því einnig að hefði allt starfsfólk fengið frí hefði starfsemi Íslenskra orkurannsókna farið úr skorðum. Fordæmi séu fyrir því að allt starfsfólkið fái frí og þá vegna árshátíðaferða. Verkefni hans hafi getað beðið í einn dag og raunar hafi það almennt átt við um verkefni starfsfólksins enda sinni stofnunin einkum ráðgjöf. Hann hafi þó verið eini karlinn í starfsmannahópnum sem óskað hafi eftir launuðu leyfi í kvennaverkfallinu.

Jákvæð mismunun

Íslenskar orkurannsóknir vildu meðal annars meina í sínum andsvörum að synjunin á beiðni karlmannsins um launað leyfi í kvennaverkfallinu 2023 en að veita slíkt konum og kvár hafi falið í sér jákvæða mismunun sem sé heimil samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Sagði stofnunin það miður að annað starfsfólk hafi upplifað stuðning við konur og kvár sem brot á rétti sínum eða að það fæli í sér mismunun á launakjörum.

Þessi ákvörðun stofnunarinnar hafi falið í sér sértæka og tímabundna aðgerð eins og lögin heimili og það sama hafi átt við um kvennaverkfallið. Það væri samfélagsleg skylda stofnunarinnar og annarra atvinnurekenda að gefa konum og kvárum tækifæri til að taka þátt í verkfallinu og styðja þennan mikilvæga málstað. Í áðurnefndum leiðbeiningum Kjara- og mannauðssýslunnat hafi ekki verið gert ráð fyrir að körlum yrði veitt launað leyfi og það hafi ekki verið forsendur fyrir því að gefa öllu starfsfólki frí. Meðalhófs hafi verið gætt gagnvart manninum með boði um að nýta styttingu vinnuvikunnar eða vinna heima og ákvörðunin hafi ekki verið íþyngjandi í hans garð.

Missa marks

Í ítarlegri niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála segir meðal annars að í ljósi þess að Íslenskar orkurannsóknir telji þá ákvörðun sína að veita konum og kvár launað leyfi en ekki manninum verði lagt til grundvallar í málinu að honum hafi verið mismunað í kjörum á grundvelli kyns. Úrlausnarefni hennar snúist hins vegar um hvort þetta hafi brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

Nefndin segir að ekki hafi verið gert ráð fyrir þátttöku karla í skipulagðri dagskrá kvennaverkfalls, heldur hafi þeir verið hvattir til að sýna samstöðu með því að taka að sér verkefni kvenna, á vinnumarkaði og heimilum. Telur nefndin að aðgerðir kvennaverkfalls myndu missa marks ef synjun atvinnurekenda á óskum karla um launað leyfi, til að styðja beint eða óbeint slíkar aðgerðir, teldist brot gegn lögunum. Kvennaverkfallið sé hvorki verkfall í hefðbundnum skilningi laga né eigi konur eða kynsegin fólk rétt að lögum til þess að fá launað leyfi frá störfum. Aðstandendur aðgerðanna hafi hins vegar hvatt atvinnurekendur til þess að gera konum kleift að taka þátt í aðgerðunum og mælst til þess að ekki yrði dregið af launum vegna fjarveru í þeim tilgangi. Að mati nefndarinnar endurspegli áðurnefndar leiðbeiningar Kjara- og mannauðssýslunnar þetta og að þar hafi ekki verið gert ráð fyrir því að körlum yrði veitt launað leyfi.

Nefndin telur það engum vafa undirorpið að kvennaverkfallið 2023 hafi verið sértæk, tímabundin og afmörkuð aðgerð í skilningi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Meðal annars hafi aðgerðirnar verið í því skyni að að bæta stöðu kvenna og kynsegin fólks til að koma á jafnri stöðu kynjanna og jafnri meðferð. Þær teljist því innan þess svigrúms sem atvinnurekendur hafi á grundvelli laganna. Nefndin tekur ekki undir það með manninum að synjunin hafi verið íþyngjandi í hans garð og það sé ekki rétt hjá honum að um hafi verið að ræða almennar aðgerðir heldur hafi þær beinst að misrétti á ákveðnu sviði, vanmati á störfum kvenna, launamun og kyn­bundnu og kynferðislegu ofbeldi gegn konum og kvárum.

Sú ákvörðun Íslenskra orkurannsókna að veita konum og kvár leyfi í kvennaverkfallinu 2023 en ekki manninum hafi því verið heimil samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Jafnlaunastefna, jafnlaunavottun eða staða kynjanna hjá stofnuninni breyti engu um það.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Hlaupamerkingar valda ólgu í Hafnarfirði – „Ömurlegt að sjá hvernig einhverjir umhverfissóðar eru búnir að krota á stéttar“

Hlaupamerkingar valda ólgu í Hafnarfirði – „Ömurlegt að sjá hvernig einhverjir umhverfissóðar eru búnir að krota á stéttar“
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Víkingur Heiðar hlýtur verðlaun Norðurlandaráðs 2025

Víkingur Heiðar hlýtur verðlaun Norðurlandaráðs 2025
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Spyr af hverju níðingar fá pláss og vald – „Er einelti í lagi ef eineltið er gagnvart minnihlutahóp eins og trans fólki?“

Spyr af hverju níðingar fá pláss og vald – „Er einelti í lagi ef eineltið er gagnvart minnihlutahóp eins og trans fólki?“
Fréttir
Í gær

Synjað um bætur eftir örlagaríka ferð til tannlæknis

Synjað um bætur eftir örlagaríka ferð til tannlæknis
Fréttir
Í gær

Þorgerður varð hugsi yfir skilti Baldvins – „Íslenskt hugrekki í hnotskurn“

Þorgerður varð hugsi yfir skilti Baldvins – „Íslenskt hugrekki í hnotskurn“
Fréttir
Í gær

Bíræfinn þjófur rekinn úr starfi hjá Nettó

Bíræfinn þjófur rekinn úr starfi hjá Nettó