fbpx
Mánudagur 20.október 2025
Fréttir

Synjað um bætur eftir örlagaríka ferð til tannlæknis

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 20. október 2025 17:00

Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur staðfest ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands sem synjaði manni um bætur úr slysatryggingu almannatrygginga. Maðurinn var á gangi á leið að strætisvagni sem hann ætlaði að taka að vinnustað sínum en datt þá í hálku og ökklabrotnaði. Sú staðreynd að maðurinn fór fyrst til tannlæknis áður en hann fór af stað í vinnuna átti hins vegar eftir að reynast honum óþægur ljár í þúfu þegar kom að umsókn hans um bætur.

Maðurinn tilkynnti Sjúkratryggingum í janúar síðastliðnum að hann hefði orðið fyrir slysi á leið til vinnu og fór á þeim grundvelli fram á bætur úr slysatryggingu almannatrygginga. Sjúkratryggingar höfnuðu því hins vegar í maí með vísan til þess að hann hafi verið að sinna einkaerindi, farið til tannlæknis, áður en hann hélt til vinnu, sem hefði ekkert haft með starf mannsins að gera. Þar að auki hafi maðurinn lagt töluverðan krók á leið sína frá dvalarstað sínum til vinnu í því skyni að sinna þessu einkaerindi. Vísaði stofnunin til þess að réttur til bótanna skapaðist aðeins ef viðkomandi væri á eðlilegri leið til vinnu.

Maðurinn kærði synjunina til nefndarinnar nokkrum dögum eftir synjun Sjúkratrygginga.

Allar upplýsingar um staðsetningar hafa verið afmáðar úr úrskurðinum og því ekki ljóst hversu langa leið maðurinn fór frá dvalarstað sínum og þaðan til tannlæknisins.

Datt

Fram kemur þó að maðurinn hafi dvalið annars staðar en þar sem hann var með skráð lögheimili þegar slysið átti sér stað. Í kærunni segir að umræddan dag hafi maðurinn ætlað að mæta á vinnustaðinn kl. 15 en hafi átt að hefja störf kl. 15:30. Fyrr um daginn hafi hann átt tíma hjá tannlækni og farið þangað fyrst frá dvalarstað sínum. Þegar tímanum hjá tannlækninum hafi verið lokið hafi hann tekið strætó og farið svo úr vagninum á biðstöð þar sem hann ætlaði að taka annan vagn sem stoppaði rétt hjá vinnustaðnum. Á leiðinni milli vagna hafi hann hins vegar dottið í hálku og ökklabrotnað en hann hafi í kjölfarið verið fluttur á Landspítalann í sjúkrabíl.

Maðurinn vísaði í kærunni til þess að hann hefði verið búinn hjá tannlækninum og verið á leið á vinnustaðinn og ætti þar af leiðandi, samkvæmt lögum, rétt á bótum úr slysatryggingu almannatrygginga. Samkvæmt lögum þarf viðkomandi að vera á eðlilegri leið til vinnu og vildi maðurinn meina að það ætti við í sínu tilfelli. Hann ætti ekki bíl og þyrfti iðulega að taka strætó frá dvalarstað sínum sem væri töluverða leið frá vinnustað hans. Leið hans umræddan dag hefði því verið eðlileg.

Á meðan málið var til meðferðar hjá nefndinni barst henni bréf frá lögmanni mannsins þar sem upplýst var að bótaskylda úr launþegatryggingu vinnuveitanda hans hefði verið viðurkennd.

Krókur

Sjúkratryggingar sögðu í sínum andsvörum að maðurinn hafi fyrst farið frá dvalarstað sínum til tannlæknis og sú ferð hafi ekki tengst vinnu hans á nokkurn hátt. Hann hafi farið verulega úr leið á milli dvalarstaðarins og vinnustaðarins og þessi krókur uppfyllti ekki ákvæði laga um að vera nauðsynleg ferð á leið til vinnu. Þar af leiðandi hafi hann ekki verið á eðlilegri leið til vinnu og því væri ekki heimilt samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga að fallast á umsókn hans.

Vildu Sjúkratryggingar einnig meina að þegar slysið varð hafi maðurinn ekki verið kominn á beina leið frá dvalarstað sínum  í vinnuna. Hafi hann þegar slysið varð verið þrjá kílómetra frá þeirri biðstöð þar sem hann ætti venjulega að taka þann strætisvagn sem stoppaði rétt hjá vinnustaðnum, væri hann að fara beinustu leið þangað frá dvalarstaðnum.

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála segir að gögn málsins sýni fram á að maðurinn hafi umræddan dag ekki farið beinustu leið frá dvalarstað sínum í vinnuna. Sú leið sem hann hafi farið til tannlæknisins hafi raunar verið mun lengri og í þveröfuga átt við beinustu leiðina frá dvalarstaðnum á vinnustaðinn. Þar sem um verulegan útúrdúr hafi verið að ræða sé ekki hægt að fallast á maðurinn hafi verið á eðlilegri leið frá dvalarstað til vinnu. Þar með eigi hann ekki rétt á bótum úr slysatryggingu almannatrygginga.

Ljóst er því að ferðin til tannlæknisins reyndist manninum dýrkeypt en eins og áður segir fær hann þó bætur úr launaþegatryggingu vinnuveitanda síns.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Teslu-brunamálið: Réttarhöldum lokað eftir að þau hófust – Sakborningur og brotaþoli fengu neyðarhnapp að ákvörðun lögreglu

Teslu-brunamálið: Réttarhöldum lokað eftir að þau hófust – Sakborningur og brotaþoli fengu neyðarhnapp að ákvörðun lögreglu
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Staðan aldrei erfiðari – „Dæmi um að greiða þurfi foreldrum og forráðamönnum fyrir að taka þátt í fjáröflunarverkefnum“

Staðan aldrei erfiðari – „Dæmi um að greiða þurfi foreldrum og forráðamönnum fyrir að taka þátt í fjáröflunarverkefnum“