Starfsmanni Nettó á Ísafirði hefur verið sagt upp störfum vegna ítrekaðs þjófnaðar úr versluninni. Hafði hann bætt þýfinu á reikninga viðskiptavina en aðallega virðist hafa verið um að ræða sígarettur. Verslunarstjórinn var einnig rekinn.
RÚV greinir frá málinu. Segir í fréttinni að maðurinn hafi framið þessa þjófnaði sína frá því í júní og fram í miðjan október. Er talið að hann hafi gert þetta um 40 sinnum á hverjum mánuði. Maðurinn mun hafa fest strikamerki af sígarettupakka á hönd sína og skannað það þegar hann var að skanna vörur á afgreiðslukassa, sem viðskiptavinir voru að kaupa.
Mun málið hafa loks komist í hámæli þegar viðskiptavinur sem varð fyrir þessu uppgötvaði hvað maðurinn hafði gert og greindi frá því á samfélagsmiðlum. Samstarfsfólk mannsins vissi hins vegar af athæfi hans og varaði hann margsinnis við en hann hætti þessu aðeins tímabundið.
Verslunarstjóri Nettó á Ísafirði vissi einnig af þjófnuðum mannsins en vildi upphaflega láta málið kyrrt liggja. Honum hefur einnig verið sagt upp störfum.