Það eru ekki aðeins Íslendingar sem hafa orðið strandaglópar erlendis vegna falls Play og þurft að punga út hundruð þúsunda króna. Fjölmargir útlendingar hafa orðið strandaglópar á Íslandi og þurft að bæta miklum útgjöldum ofan á ferðir sem voru nógu dýrar fyrir eins og fjölskylda frá Spáni mátti kynnast.
Í dagblaðinu La Voz de Galicia, staðarblað í Galisíu í norðvesturhluta Spánar, greinir frá erfiðleikum Zelitu Gonzalez og fjölskyldu hennar frá bænum Sanxenxo, norðan við Vigo, sem heimsóttu Ísland.
Þau undirbjuggu ferðina og pöntuðu miða hjá Play í janúar frá borginni Portó í Portúgal. Það er tíu daga ferðalag sem myndi hefjast í Reykjavík þann 25. september. Það hafði lengi verið draumur þeirra að fara til Íslands og þau sáu ekkert því til fyrirstöðu að ferðin yrði draumur í dós. Zelita, eiginmaður hennar og tvö börn, 4 og 10 ára. Vinahjón þeirra pöntuðu líka ferð, og voru með 7 ára son sinn með.
Framan af gekk allt vel en eftir fjóra daga á Íslandi fengu þau þær fréttir að Play hefði hætt starfsemi og væri gjaldþrota. Viðskiptavinirnir voru eins síns liðs og voru hvattir til að finna sér farmiða heim hjá öðrum flugfélögum. Miðarnir heim, sunnudaginn 5. október, voru glataðir. Flugið var horfið af dagskrá.
„Enginn hafði samband við okkur, hvorki í síma né í gegnum tölvupóst,“ segir Zelita. „Við vissum ekkert hvert við áttum að snúa okkur. Það eina sem við vissum var það sem við lásum í blöðunum.“
Þau vildu áfram fljúga aftur til Portó á sunnudag. Þar voru bílarnir þeirra á langtímastæði. En það leit ekki út fyrir að það myndi takast.
„Við höfðum samband við sendiráðið en þau sögðust aðeins geta hjálpað ef um væri að ræða náttúruhamfarir þannig að það var ekkert sem þau gátu gert,“ segir Zelita sem hafði vonast eftir því að einhvers konar „björgunarflug“ yrði flogið til að koma strandaglópum heim. „En það gerðist ekki,“ segir hún.
Allar ferðir af landinu sem þau skoðuðu ruku upp í verði.
„Á aðeins einum sólarhring hafði verðið þrefaldast, þetta gerðist svo hratt,“ segir Zelita. „Við vissum ekki hvað við áttum að gera þannig að við keyptum miðana áður en þeir urðu svo dýrir að við hefðum ekki efni á þeim.“
Miðarnir sem þau keyptu kostuðu 3.500 evrur, eða um 500 þúsund krónur. Það er frá Keflavík til Varsjár í Póllandi og þaðan til Portó á mánudag.
„Ef við hefðum ekki keypt þá strax sáum við fram á að miðarnir myndu hækka í 8.000 evrur,“ segir Zelita. En það gera rúma 1,1 milljón króna.
Til samanburðar má nefna að ferðin fyrir fjölskylduna báðar leiðir með Play kostuðu aðeins 900 evrur, það er 129 þúsund krónur. Þessi aukaútgjöld hafa því sett stórt skarð í reikninginn fyrir fjölskylduna, bæði fjárhagslega og andlega. Fyrir utan flugið er fjölskyldan að borga leiguíbúð, bílaleigubíl, ferðir, mat og fleira.
„Við vorum mjög taugatrekkt að reyna að finna lausn því við bjuggumst ekki við því að nokkuð svona myndi koma fyrir okkur,“ segir Zelita. „Við vorum bjargarlaus.“
Þrátt fyrir þetta hefur fjölskyldan ákveðið að reyna að njóta síðustu dagana á Íslandi.
„Við erum búin að sjá norðurljósin og hvalina. Við viljum halda áfram að njóta okkar,“ segir Zelita. En hún vill að Play taki ábyrgð á því að hafa valdið fjölskyldunni fjárhagslegu og andlegu tjóni.