fbpx
Fimmtudagur 02.október 2025
Fréttir

Nýtt úthverfi sem útilokar möguleika 62% heimila á að eiga bíl

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 2. október 2025 15:30

Hildur Björnsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir að endurhugsa þurfi samgönguskipulag Keldnalands frá grunni.

Hildur viðrar áhyggjur sínar af framtíðarskipulagi svæðisins í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Hún bendir á að undanfarnar vikur hafi verið til kynningar framtíðarskipulag fyrir Keldnaland sem er nýtt úthverfi í austurhluta borgarinnar.

„Skipulagið gerir ráð fyrir 12.000 íbúum og 6.000 störfum en aðeins 2.230 bílastæðum,” segir Hildur en miðað við þetta er áformað að mikill meirihluti íbúa velji sér bíllausan lífsstíl.

Kallar eftir raunsæi og skynsemi

Hildur segir að þetta gæti reynst erfitt sé litið til nýjustu ferðavenjukannana sem sýna að hátt í 87% íbúa úthverfa fara til vinnu á bíl.

„Það er gríðarlega hátt hlutfall og sýnir glöggt þann samgönguveruleika sem blasir við íbúum úthverfanna. Það er eðlilegt viðfangsefni borgaryfirvalda að kanna hvort ekki megi lækka þetta hlutfall og gera fleirum kleift að ferðast án bíls – eða reka jafnvel einn bíl í stað tveggja – en viðfangsefnið þarf að nálgast af raunsæi og skynsemi,“ segir Hildur og bætir svo við:

„Þegar borgaryfirvöld kynna skipulag nýs úthverfis sem útilokar möguleika 62% heimila á að eiga bíl er hvorki unnið með raunsæi né skynsemi. Skipulag af þessum toga nær ólíklega fram að ganga.“

Hildur bendir á að öll sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins hafi ríka hagsmuni af farsælu skipulagi Keldnalands. Áformað sé að selja uppbyggingaraðilum landið fyrir 50 milljarða króna sem notaðir verði til að fjármagna verkefni samgöngusáttmála svæðisins.

„Verktakar hafa hins vegar þegar lýst yfir áhugaleysi á skipulaginu að óbreyttu, enda sé teiknað upp hverfi og samgönguskipulag sem lítil eftirspurn er eftir.“

Endurhugsa þarf skipulagið frá grunni

Segir Hildur að hafi verktakar ekki áhuga á að kaupa byggingarrétt í hverfinu fáist ekkert söluandvirði fyrir Keldnalandið og mikilvæg verkefni samgöngusáttmála verða aldrei að veruleika. Allt sé þetta órjúfanlega samhangandi.

„Það er ljóst að endurhugsa þarf samgönguskipulag hverfisins frá grunni. Það taki mið af íslenskum veruleika og raunverulegri eftirspurn á húsnæðismarkaði. Sannarlega þarf að leita leiða til að auka notkun almenningssamgangna og fjölga þeim sem ganga og hjóla – en veruleikinn er sá að jafnvel þótt björtustu áætlanir um notkun nýrra almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu verði að veruleika munu flestir áfram ferðast á bíl,“ segir Hildur sem kallar eftir raunsæi.

„Við eigum nú tækifæri til að skipuleggja öflugt framtíðarúthverfi, sem svarar eftirspurn á húsnæðismarkaði – með öflugum húsakostum, fjölbreyttum atvinnutækifærum, góðum útivistarsvæðum og valkostum í samgöngum. En ekkert af þessu verður að veruleika ef áætlanir byggjast ekki á raunsæi og skynsemi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bjuggu til lífvænlegt egg úr húðfrumu einstaklings

Bjuggu til lífvænlegt egg úr húðfrumu einstaklings
Fréttir
Í gær

Andri Snær svarar Stefáni Einari fullum hálsi: „Stefán Einar hefði mátt gefa sér betri tíma til að kynna sér málefnið“

Andri Snær svarar Stefáni Einari fullum hálsi: „Stefán Einar hefði mátt gefa sér betri tíma til að kynna sér málefnið“