Sýn hefur boðað til starfsmannafundar í dag. Frá þessu greinir mbl.is. Félagið sendi frá sér afkomuviðvörun í gær og gerir nú ráð fyrir að rekstrarhagnaður á árinu verði um 280 milljónir króna en í fyrri spá var hagnaður áætlaður á bilinu 800-1000 milljónir króna. Þetta varð til þess að þegar markaðir opnuðu í morgun hrapaði gengi hlutabréfa félagsins um 20 prósent. Gengið hefur því lækkað um rúmlega 30 prósent á árinu.
Samkvæmt tilkynningu Sýnar í gær eru tekjur vegna stakra sjónvarpsáskrifta undir áætlun sem og tekjur af auglýsingasölu og hlutaneti. Sýn sendi stjórnvöldum pillu í afkomuviðvörun og vísaði til þess að í ljósi skorts á raunhæfum aðgerðum til að jafna samkeppnisstöðu einkarekinna miðla væri Sýn nú að vinna að endurskoðun á tekjumódeli í tengslum við fjölmiðlarekstur félagsins.
Þetta er ekki í fyrsta sinn á árinu sem boðað er til óvænts starfsmannafundar. Í sumar sameinuðust vörumerki fyrirtækisins undir nafni Sýnar og vegna þessa var haldinn stór starfsmannafundur sem boðað var til með sólarhringsfyrirvara. Markmið fyrri fundarins, sem fór fram þann 11. júní síðastliðinn, var að stilla saman strengi fyrir væntanlega stórsókn. Þar var eins tilkynnt að Stöð 2 heyrði sögunni til og sagði að útsendingar yrðu framvegis í nafni Sýnar.