Dýraþjónusta Reykjavíkur gagnrýnir í umsögn frumvarp Ingu Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra til breytinga á lögum um fjöleignarhús. Samkvæmt frumvarpinu þyrfti ekki lengur að óska eftir heimild annarra eigenda til að hafa hunda og ketti í fjöleignarhúsum. Dýraþjónustan segir að frumvarpið skorti heimildir til að framfylgja reglum um hunda- og kattahald eins og raunin sé um núgildandi lög. Töluvert sé um að eigendur slíkra dýra í fjölbýlishúsum í Reykjavík hunsi reglur um hunda- kattahald og þar á meðal að óska eftir samþykki nágranna sinna í viðkomandi húsi. Oft hafi komið upp harðar deilur um hunda-og kattahald í fjölbýlishúsum í borginni og þar séu yfirleitt allir hlutaðeigandi ekki tilbúnir að gera neinar málamiðlanir.
Dýraþjónusta Reykjavíkur hefur umsögnina á því að geta þess að hennar hlutverk sé að halda utan um málefni gæludýra og samskipti við eigendur þeirra fyrir hönd Reykjavíkurborgar. Dýraþjónustan sinni því eftirliti og framfylgi viðeigandi samþykktum sveitarfélagsins hvað varðar dýrahaldið sem og ráðgjöf til íbúa borgarinnar vegna dýrahalds þar á meðal í fjöleignarhúsum.
Dýraþjónustan segir að í auknum mæli hafi hún þurft að veita húsfélögum, eigendum gæludýra og öðrum eigendum í viðkomandi fjöleignarhúsi ráðgjöf um dýrahald. Hún líti hins vegar svo á að þetta sé frekar málefni húsfélaga enda hafi þau ríkari heimild en sveitarfélög, samkvæmt núgildandi lögum, til að aðhafast í málum sem varða gæludýrahald einstakra eigenda. Hins vegar geri Dýraþjónustan kröfu um að hunda- og kattahald sé í samræmi við lög og samþykktir borgarinnar hverju sinni.
Í umsögn Dýraþjónustunnar segir enn fremur að ítrekað hafi komið upp deilur í fjölbýlishúsum í Reykjavík vegna hunda- og kattahalds. Heilstu deiluefnin séu hávaði og ónæði, til dæmis vegna gelts í hundum á öllum tímum sólarhrings, ekki hvað síst þegar eigendur séu að heiman. Einnig sé deilt um sóðaskap og þá einna helst að hundaskítur sé ekki hirtur upp af eiganda á sameiginlegri lóð eða af leiksvæðum barna. Þriðja deiluefnið sé lausaganga hunda um sameiginleg svæði fjöleignarhúsa bæði utan og innan dyra og loks sé deilt um ofnæmismál.
Allt þetta sé brot á samþykkt um hundahald í Reykjavíkurborg.
Dýraþjónustan segir deilur vegna hunda og katta í fjöleignarhúsum í borginni afar algengar og stundum illskeyttar. Það sem kristallist oftast í slíkum deilum sé annars vegar óþol einstakra íbúa fyrir dýrahaldi annarra, sem stundum sé úr hófi fram og hins vegar ábyrgðar-, og tillitsleysi einstakra dýraeigenda gagnvart öðrum íbúum í nánu sambýli sem valdi úlfúð.
Dýraþjónustan segir enn fremur að töluvert sé um að gæludýraeigendur í fjöleignarhúsum virði ekki lög og reglur um dýrahald í slíkum húsum.
Núgildandi ákvæði laga um að þörf sé á samþykki 2/3 hluta íbúa sé gjarnan hunsað af dýraeigendum í fjöleignahúsum og húsfélög virðist hafa afar takmarkaða möguleika á að bregðast við þegar slíkt gerist. Í þeim tilfellum sé ekki að sjá að hagsmunir annarra eigenda séu virtir og lausn fyrir þá eða húsfélagið skýr eða auðsótt.
Í umræðum á samfélagsmiðlum er gjarnan gert lítið úr þeim athugasemdum að ef frumvarpið nær fram að ganga setji það íbúa í fjölbýlishúsum sem séu með ofnæmi fyrir hunda- og kattahárum í mikinn vanda. Dýraþjónustan segir hins vegar að upp hafi komið nokkur fjöldi mála þar sem íbúum hafi verið leiðbeint varðandi ofnæmi einstakra íbúa fyrir hundum eða köttum. Dæmi séu um slík mál, þar sem bráðaofnæmi íbúa sé sannarlega staðfest af þar til bærum sérfræðilækni. Í þeim tilfellum hafi engu að síður reynst erfitt fyrir viðkomandi dýraeiganda sem og húsfélag að virða þá greiningu og dæmi séu um að sá sem ofnæmið hafði hafi tilneyddur flutt tímabundið annað.
Þegar kemur að reglum um skráningu hunda í Reykjavíkurborg, sem felur jafnframt í sér ábyrgðartryggingu gagnvart þriðja aðila, segir Dýraþjónusta Reykjavíkur að afar algengt sé að hundar í fjöleignarhúsum sem og annars staðar séu óskráðir. Megi því líta svo á að vera þeirra í borginni sé ekki í samræmi við lög. Á undaförnum árum hafi hundum fjölgað mikið og alvarleg atvik komið upp, til dæmis að hundur bíti manneskju.
Afar mikilvægt sé að löggjafinn, Alþingi, tryggi öryggi borgaranna með því að styrkja heimildir sveitarfélaga til þess að bregðast við brotum. Skráning hunda og þar með ábyrgðartrygging gagnvart mögulegu tjóni þriðja aðila sé afar mikilvægur þáttur í þessu samhengi. Sé horft til nágrannalanda hafi víðast hvar orðið dauðsföll af völdum hundsbita á undanförnum árum og ástæðulaust sé að telja að Ísland muni hafa þar sérstöðu að eilífu.
Dýraþjónusta Reykjavíkur vill að lokum meina að núverandi lagaumhverfi utan um hunda- og kattahald í þéttbýli sé afar óskýrt. Eftirlitsaðilum skorti heimildir til að taka á sannarlega erfiðum málum og ferlar í málaflokknum séu afar óljósir. Mikilvægt sé að fyrirhugaðar lagabreytingar styrki réttindi þeirra íbúa fjöleignarhúsa sem ekki haldi dýr og tryggi þeim nauðsynlegar bjargir. Nauðsynlegt sé að það liggi skýrt fyrir hver hafi framkvæmdarvaldið í málum er varða hunda- og kattahald og geti gripið til aðgerða þegar þörf krefur.