fbpx
Fimmtudagur 16.október 2025
Fréttir

Fjórir hestar veiktust og einn drapst eftir að hafa verið innan girðingar ratsjárstöðvar Landhelgisgæslunnar – Orsökin óljós

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 16. október 2025 20:00

Ratsjárstöðin á Stokksnesi. Mynd: Landhelgisgæslan.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem sýknaði íslenska ríkið, Landhelgisgæsluna og Verkís hf. af kröfu tveggja manna. Fjögur hross í þeirra eigu veikust, sum heiftarlega, og ein hryssa þeirra drapst eftir að hafa komið inn fyrir girðingu í kringum ratsjárstöð Landhelgisgæslunnar á Stokksnesi, í nágrenni Hafnar í Hornafirði. Vildu mennirnir meina að hestarnir hefðu komist í mengað hey og vatn á svæðinu og í skýrslu Matvælastofnunar var tekið undir það ákveðið atriði í sýnatöku úr blóði hrossanna varð að mati Landsréttar til þess að draga úr vægi skýrslunnar.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að hross mannanna hafi verið frjáls úti í haga á haustin í áratugi en þeir reka hrossaræktarbú. Fram kemur einnig að fyrir liggi að athafnasvæðið á Stokksnesi þar sem rekin hafi verið ratsjárstöð síðan á sjötta áratug síðustu aldar hafi orðið útsett fyrir mengun meðal annars af völdum olíu. Landhelgisgæslan tók við rekstri stöðvarinnar 2011. Stöðin er á landi sem annar mannanna á og hefur gæslan greitt honum leigu síðan. Gæslan hefur stefnt að því að láta hreinsa svæðið og skila því síðan aftur til mannsins. Verkís var fengið 2018 til að gera skýrslu um mengun á svæðinu en samkvæmt henni var hún töluverð ekki síst eftir olíutanka frá þeim tíma sem Bandaríkjamenn ráku stöðina. Fyrirtækið var síðan fengið til að skipuleggja hreinsun á svæðinu.

Veik þrátt fyrir aðgerðir

Árið 2020 réðst Verkís í aðgerðir á svæðinu sem raktar eru ítarlega í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur en samkvæmt mælingum dró verulega úr olíumengun eftir þær en í nóvember 2020 veiktist ein hryssa mannsins alvarlega. Hún virðist þó hafa náð sér en um þremur vikum síðar komst hún samkvæmt manninum inn fyrir girðingu umhverfis ratsjárstöðina, ásamt fjórum öðrum hestum.

Girðingin átti að vera búfjárheld en maðurinn sagðist hafa tekið eftir að svo hefði ekki verið lengur. Hann hefði farið inn á svæðið og séð þar tvo sandhauga og opna heyrúllu á steinsteyptum sökklum nærri ratsjárstöðinni þar sem áður voru olíutankar og byggingar á vegum varnarliðs Bandaríkjanna. Um hafi verið að ræða úrgangshey og tvo olíuhauga sem skildir hafi verið eftir opnir á steinsteyptum sökklum fyrir opnu landi. Hrossaskítur og leifar af úrgangsheyi hafi verið allt um kring á svæðinu. Stutt frá haugunum hafi verið mengað vatn er runnið hefði úr þeim og úrgangsheyinu. Honum hafi þá orðið ljóst að hrossin hefðu étið eitrað heyið og drukkið mengað vatnið,

Hafi ekkert gert

Maðurinn sagðist hafa samstundis flutt hrossin í örugga girðingu og krafið því næst starfsmenn Landhelgisgæslunnar og síðan Verkís um tafarlausar úrbætur en þeir hafi ekki sinnt því. Loks hafi þó heyrúllan verið fjarlægð. Hrossin hafi öll í kjölfarið veikst og eitt af þeim, hryssa, drepist en ummerki hafi gefið til kynna að hún hafi hlotið kvallafullan dauðdaga.

Vildu mennirnir meina að þetta hafi verið af áðurnefndum orsökum og höfðuðu í kjölfarið skaðabótamál.

Í héraðsdómi voru ýmis gögn lögð fram máli mannanna til stuðnings. Dýralæknir vildi meina að hin skyndilega útbreiddu veikindi hrossanna og þá dauði eins þeirra yrðu ekki útskýrð með nærtækari skýringu en þeirri að þau hafi komist í mengað hey og vatn á svæðinu við Stokksnes.

Annar dýralæknir sem starfaði fyrir Matvælastofnun vildi meina í sinni skýrslu að líklegasta skýring veikinda hrossanna væri óvenju há gildi á áli, bæði í umhverfissýnum og í blóðsýni þriggja hrossanna. Heilbrigð hross ættu ekki að greinast með ál í blóði og slíkt væri óþekkt vandamál hérlendis en þó vel þekkt víða erlendis og gæti þá leitt til slíkra einkenna sem sáust á hrossunum, þar sem slíkt ylli truflun á kalsíum-fosfór jafnvægi. Dró dýralæknirinn þá ályktun að álmengun á Stokksnesi hefði borist með heyi eða vatni í hrossin og líklegast valdið veikindunum.

Ekki sammála

Í skýrslu efnafræðings sem vann skýrslu að beiðni Landhelgisgæslunnar kom hins vegar fram að umhverfissýni gæfu ekki til kynna álmengun eða ál umfram það sem vænta mætti í óspilltri náttúru. Hvað svo varðaði hér fyrirliggjandi mæligildi á áli í blóðsýnum hrossanna sem veiktust þá lægi ekki fyrir samanburðarmælingar á því hver væri eðlilegur bakgrunnsstyrkur áls í blóði annarra hrossa á umræddu samanburðarsvæði. Taldi hann ekki sannað að álmengun á svæðinu hefði orsakað veikindi hrossanna.

Héraðsdómur sem var skipaður sérfróðum meðdómanda á sviði dýralækninga taldi ekki sannað hver orsökin fyrir veikindum hrossanna og dauða eins þeirra hefði verið. Hrossin hafi meðal annars veikst mismikið, sum alvarlega en önnur minna, og ekki sýnt nein einkenni fyrr en nokkrum dögum eftir að þau komust inn fyrir girðinguna utan um hið mengaða svæði. Taldi dómurinn mögulegt að veikindi eins hrossins hefðu orsakast af breyttri fóðurgjöf og tveggja af völdum sjúkdóms. Ósannað væri að veikindi hrossanna væru af völdum mengunarinnar á svæðinu og í safnhaugunum og heyinu sem þar voru.

Landsréttur

Eigendur hrossanna áfrýjuðu til Landsréttar. Rétturinn fékk dýralækni, sem kom ekki við sögu málsins fyrir héraðsdómi, til að vinna skýrslu um málið. Dýralæknirinn sagðist í skýrslunni hafa rætt við áðurnefndan dýralækni sem vann skýrslu um málið fyrir Matvælastofnun sem tjáð hefði sér að við sýnatöku úr hrossunum hafi hefbundin blóðsýnatökuglös verið notuð.

Sagði dýralæknirinn að ef slík glös séu notuð til blóðsýnatöku mælist gildi áls í sýnum of hátt. Við mælingar dýralæknisins sjálfs á blóðsýnum hrossa með svonefndum „rauðtappaglösum“, sem henti til álmælinga, hafi komið í ljós að gildi áls í sýnum væri vart mælanlegt. Þá væri ekki hægt að ganga út frá því að einkenni þau er lýst væri í gögnum hins dýralæknisins, sem fjallaði um málið í héraði, hafi verið vegna bráðrar áleitrunar heldur gætu einkennin verið af ýmsum uppruna. Þá væri ekki hægt að draga neinar ályktanir um dauða hryssunnar sem drapst þar sem engin klínísk skoðun hefði verið framkvæmd á henni.

Þá fékk Landsréttur jarðefnafræðing til að leggja mat á álmengun á svæðinu en hans niðurstöður voru þær að styrkur áls í bergi og jarðvegi þar væri svipaður og annars staðar á landinu.

Með vísan til mælinga jarðefnafræðingsins og þeirrar niðurstöðu dýralæknisins að Matvælastofnun hafi notað sýnatökuglös sem henti ekki til mælinga á áli í blóði hrossa telur Landsréttur verulegum vafa undirorpið að niðurstöður stofnunarinnar, um að hrossin hafi orðið veik eftir að hafa hafi étið hey mengað af áli, séu réttar.

Dómur héraðsdóms um sýknu ríkisins, Landhelgisgæslunnar og Verkís af kröfum eigenda hrossanna, um skaðabætur, var því staðfestur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Yfirmaður um ástandið á bráðamóttökunni – „Við getum auðvitað ekki sagt þeim að bíða úti á plani“

Yfirmaður um ástandið á bráðamóttökunni – „Við getum auðvitað ekki sagt þeim að bíða úti á plani“
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Þorvaldur Davíð kallar eftir að virðing sé borin fyrir börnunum okkar

Þorvaldur Davíð kallar eftir að virðing sé borin fyrir börnunum okkar
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Viðskiptavinir Varðar nú tryggðir á meðgöngu og í fæðingu

Viðskiptavinir Varðar nú tryggðir á meðgöngu og í fæðingu
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Stefán segir niðurstöðu Götunafnanefndar óheppilega – „Þetta er örnefnaklám og það vill enginn sjá!“

Stefán segir niðurstöðu Götunafnanefndar óheppilega – „Þetta er örnefnaklám og það vill enginn sjá!“
Fréttir
Í gær

Hildur setur fótinn niður: „Ég fer fram á það að samfélagið hætti að gera lítið úr nemendum mínum“

Hildur setur fótinn niður: „Ég fer fram á það að samfélagið hætti að gera lítið úr nemendum mínum“
Fréttir
Í gær

Greindist loks eftir 23 heimsóknir á heilbrigðisstofnanir – Bundinn við hjólastól en fær engar bætur

Greindist loks eftir 23 heimsóknir á heilbrigðisstofnanir – Bundinn við hjólastól en fær engar bætur