fbpx
Miðvikudagur 15.október 2025
Fréttir

Þorskastríðshetjur minnast tímamóta en vara um leið við

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 15. október 2025 16:30

Varðskipið Þór í síðasta Þorskastríðinu. Mynd: Skjáskot úr myndbandi úr fréttum BBC frá 1976./Facebook-BBC.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þess er minnst nú í dag að nákvæmlega 50 ár eru síðan að útfærsla íslenskra stjórnvalda á landhelgi Íslands í 200 sjómílur tók gildi. Eins og við fyrri útfærslur landhelginnar sættu Bretar sig ekki við þetta og við tók enn eitt þorskastríðið milli Íslands og Bretlands. Þetta þorskastríð var það harðasta af þeim öllum en var á endanum hið síðasta og samið var að lokum og landhelgin hefur verið síðan 200 sjómílur. Mikið reyndi á starfsmenn Landhelgisgæslunnar í þorskastríðunum og þessi hópur manna hefur ætíð síðan verið álitnir þjóðhetjur. Félag fyrrum starfsmanna gæslunnar þar sem innanborðs eru meðal annars menn sem voru á varðskipunum í þorskastríðunum fagna tímamótunum en vara um leið við því að stjórn á fiskveiðiauðlindinni verði eftirlátin öðrum.

Á Facebook-síðu Landhelgisgæslunnar er tímamótanna minnst með stuttri upprifjun með vísan til frétta Morgunblaðsins á þessum tíma. Rifjað er upp ávarp Geirs Hallgrímssonar, þáverandi forsætisráðherra, sem sagði við þjóðina: ,, Lífsbjörg okkar er í veði og málstaður okkar svo sterkur, að sigur mun vinnast með fullum yfirráðum Íslendinga yfir fiskimiðunum.“

Það harðasta

Matthías Bjarnason, þáverandi sjávarútvegsráðherra, sagði í samtali við Morgunblaðið á þessum degi árið 1975 að með gildistöku hinnar nýju reglugerðar um útfærslu landhelginnar yrðu lagðar stórauknar skyldur á Landhelgisgæsluna og fyrirséð væri að verkefni hennar myndu margfaldast. Um þetta segir Landhelgisgæslan í dag:

„Spá sjávarútvegsráðherrans reyndist rétt því í kjölfarið tók við harðasta þorskastríðið með ásiglingum breskra verndarskipa og botnvörpuklippingum íslensku varðskipanna.“

Loks rifjar gæslan upp að þetta síðasta þorskastríð stóð fram á sumarið 1976 þegar  náðust sættir í deilunni og samið um að 24 breskir togarar mættu veiða innan 200 mílna lögsögunnar til 1. desember sama ár og síðan ekki meir. Þar með lauk síðasta þorskastríðinu.

Sagan

Fyrr á þessu ári lét Haukur Davíð Grímsson af störfum vegna aldurs hjá Landhelgisgæslunni en hann var sá síðasti sem enn var þar starfandi af þeim sem höfðu verið á varðskipunum í þorskastríðunum.

Fyrrum starfsmenn Landhelgisgæslunnar og þar á meðal þeir sem störfuðu þar í þorskastríðunum láta sig áðurnefnd tímamót skiljanlega varða en félag þeirra, Öldungaráðið, hefur sent frá sér tilkynningu í tilefni tímamótanna. Þar er saga þessara átaka um landhelgina rifjuð stuttlega upp.

Áður en útfærslan í 200 sjómílur tók gildi 15. október 1975 hafði verið samið við Bretland og Vestur-Þýskaland um tímabundnar veiðar eftir að landhelgin hafði verið færð út í 50 sjómílur 1972. Reglugerð um útfærsluna í 200 mílur var sett í júlí 1975 en tók gildi 15. október það ár. Það tókst ekki að semja við löndin tvö um áframhaldandi tímbundar veiðar og strax sama dag og reglugerðin tók gildi hófu varðskip Landhelgisgæslunnar að vara bresk og þýsk fiskiskip við því að veiðar þeirra væru ólöglegar og að ef þeim yrði ekki hætt yrði klippt á togvíra skipanna.

Segir enn fremur að í nóvember 1975 hafi Bretar sent herskip og dráttarbáta á miðin til að verja fiskiskipin en Þjóðverjar hafi þá viðurkennt útfærsluna:

„Harðvítug átök urðu á miðunum á milli íslenskra varðskipa og breskra dráttarbáta á tímabilinu nóvember 1975 til síðla maí 1976. Íslensk varðskip sem vörðu 200 sjómílur klipptu á veiðarfæri 48 togara á þessu tímabili og 54 sinnum sigldu bresk herskip og dráttarbátar á íslensk varðskip í þessum átökum. Fullnaðarsigur vannst síðan 1. júní 1976 með uppgjöf Breta.“

Viðvörun

Segir að lokum í tilkynningu Öldungaráðsins að þorskastríðin vegna útfærslu landhelginnar hafi verið barátta fyrir efnahagslegu sjálfstæði Íslands og varað er við því að standa ekki vörð um þann árangur sem Íslendingar náðu í stríðunum, til framtíðar:

„Árangurinn náðist vegna pólitísks hugrekkis, samstöðu og viljastyrks þjóðarinnar. Árangurinn er undistaðan að efnahagslegri velmegun landsins í dag. Þessu þarf að viðhalda með skilvirku eftirliti og auðlindagæslu í orðsins víðtækustu merkingu og undir engum kringumstæðum að framselja auðlindina og stjórnun hennar til annarra. Ef svo færi hefði verið til lítils barist.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ferðamaður frá Víetnam í miklum vandræðum eftir að lögreglan á Selfossi haldlagði vegabréfið hans

Ferðamaður frá Víetnam í miklum vandræðum eftir að lögreglan á Selfossi haldlagði vegabréfið hans
Fréttir
Í gær

Lögreglan hvetur íslensk fyrirtæki til að vera á varðbergi – Fölsk fyrirtækjalén notuð til fjársvika

Lögreglan hvetur íslensk fyrirtæki til að vera á varðbergi – Fölsk fyrirtækjalén notuð til fjársvika
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Maður svaf í gámi og stolinn bíll fannst í gegnum staðsetningarbúnað

Maður svaf í gámi og stolinn bíll fannst í gegnum staðsetningarbúnað
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Skjólstæðingur Brynjólfs sætir pyndingum – „Forstjóri Útlendingastofnunar hefur alið á óstjórn innan stofnunarinnar“

Skjólstæðingur Brynjólfs sætir pyndingum – „Forstjóri Útlendingastofnunar hefur alið á óstjórn innan stofnunarinnar“