fbpx
Miðvikudagur 15.október 2025
Fréttir

Hnakkrifist á bæjarstjórnarfundi í Kópavogi – „Margur heldur mig sig“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 15. október 2025 10:31

Mynd: Kopavogur.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Meiri- og minnihluti bæjarstjórnar Kópavogs hnakkrifust á bæjarstjórnarfundi í gær. Bókanir voru lagðar fram á víxl þar sem hvor fylkingin kenndi hinni um að bera sína ábyrgð á töfum sem orðið hafa við byggingu alls 140 íbúða á svokallaðri Nónhæð í bænum en þær eiga að vera í fjölbýlishúsum sem eiga að standa við Nónsmára 1-17. Minnihlutinn mótmælti harðlega á fundinum samþykkt meirihlutans að snúa við fyrri ákvörðun um að synja beiðni um að auglýsa tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir lóðirnar en þeirri beiðni hafði verið hafnað á síðasta ári en fylkingarnar voru ekki sammála um forsöguna og hvort líta ætti á samþykktina í gær og samþykktina 2024 sem aðskildar. Gengur tillagan einna helst út á að auka leyfilegt byggingarmagn.

Samkvæmt tillögunni yrði Nónsmári 1-9 stækkaður um 1240 fermetra umfram það sem leyfilegt er í gildandi deiliskipulagi og Nónsmári 11-17 um 490 fermetra.

Samkvæmt fundargerð fundarins í gær var á fundi bæjarráðs þann 17. júlí 2025 samþykkt beiðni um endurupptöku á synjun bæjarstjórnar frá 12. mars 2024 á auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi Nónsmára 1-17, en beiðnin hafi meðal annars byggt á því að um hafi verið að ræða nýja tillögu sem frábrugðin hafi verið fyrri tillögum. Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Nónsmára 1-17 dagsett 12. febrúar 2024 sé því til samræmis við framangreinda ákvörðun lögð fram að nýju til auglýsingar.

Meirihluti Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins samþykkti að auglýsa tillöguna að breyttu deiliskipulagi Nónsmára 1-17 en minnihluti Samfylkingarinnar, Pírata, Vina Kópavogs og Viðreisnar var á móti.

Bókanaflóð

Eftir niðurstöðuna rifust meiri- og minnihlutinn með því að skiptast á fjölda bókana en í þeim samskiptum má sjá að forsaga málsins er orðin löng.

Minnihlutinn skaut fyrsta skotinu og sagði málinu eiga að vera löngu lokið, eftir ítarlegt samráð á sínum tíma hafi átt að ljúka uppbyggingu árið 2022. Engu að síður sé henni enn ólokið af hálfu verktakans og nú sé farið fram á 16 prósent aukningu á byggingarmagni án þess að fram komi trúverðugar forsendur eða málefnaleg rök fyrir því. Af virðingu við íbúa og til að vernda traust og trúverðugleika stjórnsýslunnar telji minnihlutinn að afgreiðsla ítrekaðra beiðna um frekari breytingarheimildir grafi undan gildi samráðs og skapi slæmt fordæmi gagnvart öðrum lóðarhöfum.

Meirihlutinn svaraði þessu með því að harma þær tafir sem orðið hafi á uppbyggingu á Nónhæð. Neikvæð afstaða minnihlutans væri hins vegar ekki til þess fallin að flýta framgangi verkefnisins.
Meirihlutinn leggi áherslu á mikilvægi þess að tryggja traust og virðingu fyrir stjórnsýslunni, en fallist ekki á þá túlkun minnihlutans að auglýsing deiliskipulagstillögunnar grafi undan samráði eða setji slæmt fordæmi gagnvart öðrum lóðarhöfum. Ekki sé gert ráð fyrir fjölgun íbúða í því skipulagi sem standi til að auglýsa. Þvert á móti sé auglýsing tillögunnar liður í gagnsæju og lögmætu ferli sem tryggi að íbúar og hagsmunaaðilar fái tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri áður en endanleg ákvörðun sé tekin.

Ábyrgð

Minnihlutinn svaraði með því vísa allri ábyrgð á töfum á uppbyggingu á Nónhæð síðustu ár á hendur meirihlutans. Fulltrúar meirihlutaflokkanna hafi átt fyrir mörgum árum að vera búnir að tryggja eðlilegan og réttan framgang uppbyggingar samkvæmt samþykktu skipulagi. Íbúar hafi ítrekað komið sínum sjónarmiðum á framfæri, þegar breytingatillögur hafi komið fram af hálfu verktakans, án þess að mark væri tekið á þeim.

„Í upphafi skyldi endinn skoða,“ svaraði meirihlutinn og sagði þróunaraðila lóðarinnar bera ábyrgð á þeim töfum sem hafi orðið. Kópavogsbæ hafi skort úrræði eða heimildir til að ýta á eftir framkvæmdum umfram það sem hafi verið gert. Það væri rangt að meirihlutaflokkarnir bæru ábyrgðina en meirihlutinn viðurkenndi þó að halda hefði þurft betur á málum í samskiptum bæjarins við þróunaraðila og íbúa á sínum tíma.

Víst

Minnihlutinn svaraði með því að standa fast á þeirri fullyrðingu sinni að ábyrgðin væri meirihlutans. Frá júní 2020 hafi þróunaraðili ítrekað óskað eftir auknu byggingarmagni. Í febrúar 2022 hafi meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar auglýst breytingu að nýju þrátt fyrir gildandi skipulag og þar með hafið endalaus vandræðagang málsins. Nú síðast hafi borist beiðni um endurupptöku í mars 2024 sem ekki hafi verið afgreidd fyrr en 16 mánuðum síðar, í sumarleyfi bæjarfulltrúa í júlí 2025. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi auk þess ítrekað fjallað um málið, sem undirstriki óstöðuga og ófyrirsjáanlega málsmeðferð meirihlutans. Það sé þessi endurtekna opnun málsins að nýju af hálfu meirihlutans sem hafi tafið framgang þess, ekki afstaða minnihlutans.

Meirihlutinn sagði það rangt hjá minnihlutanum að endurupptökubeiðnin, vegna fyrri synjunar á að auglýsa tillögu nýju deiliskipulagi, hafi verið lögð fyrir í mars 2024, það hafi verið gert í febrúar 2025:

„Tilraunir til að skilgreina hvað hefur orsakað tafir eru ekki í samræmi við staðreyndir málsins, en það er eðlilegt að skipulag taki breytingum á skipulags- og framkvæmdatíma. Að gera slíkar breytingar tortryggilegar er sett fram í pólitískum tilgangi. Ljóst er að betur hefði þurft að halda á málum í upphafi.“

Dagsetningar

Minnihlutinn benti þá meirihlutanum á að sú tillaga sem hann hafi samþykkt að auglýsa, og feli í sér að taka upp þegar samþykkt deiliskipulag, sé dagsett 12.febrúar 2024 og verið fyrst tekin fyrir í bæjarstjórn í mars 2024.

Umrædd umsókn er birt með fundargerð bæjarstjórnar og hún er dagsett 12. febrúar 2024.

Meirihlutinn vildi þó meina að málið væri ekki svona einfalt:

„Beiðni um deiliskipulagsbreytingu sem bæjarfulltrúar minnihlutans kalla hérna „endurupptökubeiðni“ var afgreidd á bæjarstjórnarfundi 12. mars 2024. Endurupptökubeiðnin fór aftur á móti fyrir bæjarráð í febrúar 2025. Að minnihlutinn fullyrði í bókun að endurupptökubeiðnin hafi beðið afgreiðslu í tæpt eitt og hálft ár dregur í dagsljósið hversu langt er hér seilst til að teikna stjórnkerfi bæjarins og meirihlutann upp sem grýlu í þessu máli. Hafa skal það sem sannara reynist!“

Minnihlutinn vildi hins vegar meina að beiðni um að taka málið upp að nýju hafi komið fyrir bæjarstjórn 12. mars 2024. Fulltrúar meirihlutans væru að rugla saman annars vegar þeirri beiðni og hins vegar síðari beiðni um endurupptöku á höfnun þeirrar beiðnar. Aðalatriðið sé að málsmeðferðin hafi verið allt of löng:

„Nú er verið að afgreiða mál sem fyrst var lagt fram fyrir 19 mánuðum. Tafir málsins tengjast ítrekaðri opnun þess að nýju fyrir tilstuðlan meirihlutans, en hafa ekkert með andstöðu minnihlutans að gera.“

Það var hins vegar meirihlutinn sem átti síðasta orðið:

„Margur heldur mig sig. Meirihlutinn frábiður sér að vera sakaður um misskilning þegar fulltrúar minnihlutans tala um breytingu á deiliskipulagi sem endurupptökubeiðni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Íslandsbanki vann stóra vaxtamálið að hluta en tapaði líka – Breki lýsir yfir sigri

Íslandsbanki vann stóra vaxtamálið að hluta en tapaði líka – Breki lýsir yfir sigri
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Um 37% íslenskra tölva enn með Windows 10

Um 37% íslenskra tölva enn með Windows 10
Fréttir
Í gær

Maður svaf í gámi og stolinn bíll fannst í gegnum staðsetningarbúnað

Maður svaf í gámi og stolinn bíll fannst í gegnum staðsetningarbúnað
Fréttir
Í gær

Skjólstæðingur Brynjólfs sætir pyndingum – „Forstjóri Útlendingastofnunar hefur alið á óstjórn innan stofnunarinnar“

Skjólstæðingur Brynjólfs sætir pyndingum – „Forstjóri Útlendingastofnunar hefur alið á óstjórn innan stofnunarinnar“
Fréttir
Í gær

Nýskilin kona taldi flutningsmann hafa lofað sér ókeypis þjónustu en svo kom rukkunin frá konu hans – „Ég er rotinn lygari“

Nýskilin kona taldi flutningsmann hafa lofað sér ókeypis þjónustu en svo kom rukkunin frá konu hans – „Ég er rotinn lygari“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Sigurvegarinn að þessu sinni er Anna, sem náði að eyða starfsmannaskránni!“

„Sigurvegarinn að þessu sinni er Anna, sem náði að eyða starfsmannaskránni!“