Félög ýmissa stétta heilbrigðisstarfsfólks, sem er sjálfstætt starfandi og með gilda samninga við Sjúkratryggingar Íslands, lýsa yfir mikilli óánægju með drög að breytingum á lögum um sjúkratryggingar sem lögð hafa verið fram í samráðsgátt. Alma Möller heilbrigðisráðherra leggur drögin fram og samkvæmt þeim stendur til að gera ýmsar breytingar á lögunum. Í sameiginlegri yfirlýsingu ýmissa félaga heilbrigðisstarfsfólks sem koma fram fyrir hönd félagsmanna sem starfa sjálfstætt við sitt fag eru drögin gagnrýnd sérstaklega fyrir ákvæði sem lýtur að þátttöku ríkisins í kostnaði við þjónustu þessara aðila þegar samningar eru lausir.
Það eru félög sérgreinalækna, tannlækna, sjúkraþjálfara, sálfræðinga, ljósmæðra og talmeinafræðinga sem senda yfirlýsinguna frá sér. Hún snýr einkum að fyrirhugðum breytingum á 38. grein núgildandi laga um sjúkratryggingar sem fjallar um þátttöku í kostnaði þegar samningar eru lausir. Samkvæmt drögunum verður greininni meðal annars breytt þannig að Sjúkratryggingum verður heimilt að hafa sérstakt eftirlit með hafa eftirlit með kostnaði stofnunarinnar sem leiðir af athöfnum heilbrigðisstarfsmanna sem eru ekki, beint eða óbeint, í samningssambandi við stofnunina.
Segir í yfirlýsingunni að framkvæmd þessara áforma myndi fela í sér óheimilt inngrip í samningsfrelsi og atvinnuréttindi sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks og enda með fordæmalausu valdaframsali til Sjúkratrygginga. Með breytingunum sé meðal annars gert ráð fyrir að Sjúkratryggingar geti einhliða ákveðið greiðslur og skilmála fyrir þjónustu án samninga, jafnframt því sem þjónustuveitendum yrði bannað að innheimta gjöld af sjúklingum þegar greitt er samkvæmt gjaldskrá stofnunarinnar.
Segir enn fremur í yfirlýsingunni:
„Þessi áform stjórnvalda eru með öllu óásættanleg enda fela þau í sér brot á grundvallarrétti félaga heilbrigðisstarfsfólks til að semja á jafnræðisgrunni fyrir hönd síns félagsfólks við Sjúkratryggingar.Frumvarpsdrögin bera þess merki að hafa verið unnin án nokkurs samráðs við þau sem hagsmuna eiga að gæta, án skilnings á rekstrarumhverfi sjálfstætt starfandi aðila og án virðingar fyrir sjálfstæði og faglegri sérþekkingu heilbrigðisstétta.“
Segjast félögin telja að boðaðar takmarkanir á rekstrarformi séu ekki til hagsbóta fyrir almenning og muni auka kostnað hins opinbera. Þar að auki feli þau í sér auknar valdheimildir Sjúkratrygginga, þar á meðal um gagnaöflun og vinnslu, sem veki alvarlegar spurningar um persónuvernd og trúnaðarsamband heilbrigðisstarfsfólks og skjólstæðinga þeirra.
Félögin krefjast þess eindregið að þessi hluti áforma heilbrigðisráðherra um breytingar á lögum um sjúkratryggingar verði strax dregin til baka og að málið verði unnið frá grunni í raunverulegu samráði við fulltrúa þeirra stétta sem í hlut eigi. Beitt verði öllum lögmætum úrræðum til að vernda rétt sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks til samningsfrelsis, faglegs sjálfstæðis og eðlilegra starfsskilyrða. Óvissa ríki um áhrif þessarar lagasetningar á gildandi samninga.
Undir yfirlýsinguna rita Ragnar Freyr Ingvarsson – Læknafélagi Reykjavíkur, Gunnlaugur Már Briem – Félagi sjúkraþjálfara, Fríða Bogadóttir – Tannlæknafélagi Íslands, Pétur Maack – Sálfræðingafélagi Íslands, Unnur Berglind Friðriksdóttir – Ljósmæðrafélagi Íslands og Linda Björk Markúsardóttir – formaður kjaradeildar Talmeinafræðinga (Viska).