fbpx
Miðvikudagur 01.október 2025
Fréttir

Stefnir í samdrátt í Vestmannaeyjum vegna gjaldtöku á skemmtiferðaskip

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 1. október 2025 19:30

Frá Vestmannaeyjum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fram kemur í yfirlýsingum og gögnum frá Vestmannaeyjabæ að vegna aukinnar gjaldtöku ríkisins á skemmtiferðaskip hafi bókuðum komum slíkra skipa til bæjarins fækkað. Segja Eyjamenn að þetta muni hafa í för með sér töluverðan samdrátt í tekjum hafnarinnar og tekjum ferðaþjónustunnar í bænum. Sá samdráttur mun þó að öllum líkindum ekki raungerast fyrr en árið 2027 þegar fyrst stefnir í töluverða fækkun á komum skemmtiferðaskipa.

Bæjaryfirvöld í Fjallabyggð hafa áður reifað sams konar áhyggjur en töluverður samdráttur er í bókunum skemmtiferðaskipa þar á næsta ári og árið 2027 og mun það minnka enn frekar tekjur Fjallabyggðarhafnar sem nú þegar glímir við aukna erfiðleika í rekstri. Er þessi samdráttur í komum skemmtiferðaskip til Fjallabyggðar rakin beint til aukinnar gjaldtöku ríkisins á skipin en bókuðum komum þeirra til landsins hefur í kjölfarið fækkað en hlutfallslega mest í minni höfnum á landsbyggðinni.

Fjallabyggðarhöfn í vanda sem stefnir í að dýpki enn frekar

Um síðustu áramót tók gildi afnám tollfrelsis skemmtiferðaskipa og lagt var á þau nýtt innviðagjald.

Lækkun í ár

Til meðferðar á Alþingi er frumvarp til breytinga á ýmsum lögum vegna fjárlaga ársins 2026. Í frumvarpinu er kveðið meðal annars á um breytingar á lögum um gistináttaskatt og innviðagjald. Samkvæmt frumvarpinu verður innviðagjaldið á skemmtiferðaskip lækkað á næsta ári en sú lækkun á aðeins að gilda í eitt ár. Nú er gjaldið 2.500 krónur á hvern farþega, á hverjum degi á meðan viðkomandi skip dvelur í höfn hér á landi eða annars staðar á tollsvæði íslenska ríkisins en á næsta ári verður gjaldið 2.000 krónur.

Segir í greinargerð með frumvarpinu að ástæðan fyrir þessari tímabundnu lækkun sé að koma til móts við óánægju
rekstraraðila skemmtiferðaskipa í millilandasiglingum sem telji að of lítill fyrirvari hafi verið á gjaldtökunni þegar hún kom fyrst til framkvæmda. Markmiðið með gjaldinu sé að jafna samkeppnisstöðu skemmtiferðaskipa, sem séu öll erlend, við innlenda ferðaþjónustuaðila. Áður hafi skemmtiferðaskipin greitt takmarkaða skatta til ríkisins en helst hafi þau greitt gjöld til þeirra hafna sem þau hafi viðkomu í.

Ljóst virðist þó að þessi tímabundna lækkun gjaldsins muni ekki duga til að sefa óánægju Eyjamanna. Í bókun allra fulltrúa í bæjarráði sem lögð var fram á síðasta fundi ráðsins er lýst yfir miklum áhyggjum vegna aukinna álaga og gjalda á skemmtiferðaskip. Það sjáist nú þegar í bókunum fyrir árið 2027 að þessar auknu álögur séu farnar að hafa íþyngjandi áhrif fyrir höfnina og ferðaþjónustuaðila í Vestmannaeyjum. Mikilvægt sé að höggva ekki frekar í atvinnuvegi landsbyggðarsveitarfélaga.

Samdráttur 2027

Með fundargerð bæjarráðs fylgir minnisblað framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs. Þar kemur meðal annars fram að komum skemmtiferðaskipa til Eyja fækki í ár úr 87, árið 2024, í 78. Áætlað sé að farþegum fækki um rúmlega 3.000 og að tekjur hafnarinnar vegna skipanna fari úr 121,8 milljónum króna í 109,2 milljónir. Í minnisblaðinu er áætlað að hver farþegi eyði að meðaltali 24.000 krónum í landi. Byggja þær tölur á könnun frá Ísafirði, árið 2019, á neyslu farþega í landi en tölurnar voru uppreiknaðar með tilliti til verðlagsbreytinga. Með vísan til þessara talna er gert ráð fyrir að tekjur ferðaþjónustunnar í bænum af skemmtiferðaskipum muni minnka úr 753,8 milljónum króna árið 2024 í 675,8 milljónir króna á þessu ári.

Samkvæmt minnisblaðinu er þó gert ráð fyrir að aukning verði árið 2026 og er það byggt á bókunum og spám. Áætlað er að komur skemmtiferðaskipa til Eyja á næsta ári verði 100. Farþegum fjölgi um rúmlega 8.000, í rétt yfir 36.000. Tekjur hafnarinnar af skipunum hækki í 140 milljónir króna og tekjur ferðaþjónustunnar í bænum í 866,4 milljónir króna.

Árið 2027 stefnir hins vegar í skarpan samdrátt. Samkvæmt bókunum og spám er gert ráð fyrir að komum skemmtiferðaskipa til Vestmannaeyja fækki í 67, farþegum fækki í um 24.000, tekjur hafnarinnar af skipunum lækki niður í 93,8 milljónir króna og tekjur ferðaþjónustunnar í bænum verði um 580,5 milljónir króna.

Tap

Segir í minnisblaðinu að því sé ljóst að gjaldtaka ríkisins á skemmtiferðaskip muni hafa í för með sér tekjutap fyrir ferðaþjónustuna í bænum og þar með sveitarfélagið sjálft. Gjaldtakan muni draga úr samkeppnishæfni Íslands sem áfangastaðar. Þetta muni einnig hafa áhrif á atvinnusköpun á landsbyggðinni þar sem ferðamenn frá skemmtiferðaskipum séu oft ein helsta stoðin fyrir smærri fyrirtæki.

Lagt er til að í minnisblaðinu að endurskoðað verði hvort þessi gjaldtaka sé raunhæf leið til tekjuöflunar. Í staðinn megi skoða aðrar útfærslur sem bæði tryggi eðlilega þátttöku skemmtiferðaskipa í kostnaði samfélagsins en haldi jafnframt í horfi þeirri jákvæðu hagrænu og samfélagslegu virkni sem heimsóknir þeirra hafi haft.

Minnisblaðið fylgir síðan umsögn bæjarráðs um áðurnefnt frumvarp en umsögnin er nokkurn veginn samhljóða áðurnefndri bókun ráðsins.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hópi Norðlendinga ógnað með kindabyssu – Snerist snarlega til varnar

Hópi Norðlendinga ógnað með kindabyssu – Snerist snarlega til varnar
Fréttir
Í gær

Innbrot í snyrtistofu og hárgreiðslustofur – Lokaði gatnamótum með því að leggja bílnum

Innbrot í snyrtistofu og hárgreiðslustofur – Lokaði gatnamótum með því að leggja bílnum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hatrammar deilur í grunnskóla á Reykjanesi enduðu fyrir dómi – Ærumeiðandi ummæli í eineltiskvörtun ómerkt

Hatrammar deilur í grunnskóla á Reykjanesi enduðu fyrir dómi – Ærumeiðandi ummæli í eineltiskvörtun ómerkt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Erlendir miðlar fjalla um gjaldþrot Play og netverjar hæðast að Íslendingum – „Klassísk Íslendingahegðun“

Erlendir miðlar fjalla um gjaldþrot Play og netverjar hæðast að Íslendingum – „Klassísk Íslendingahegðun“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fjórir lífeyrissjóðir tapa 3 milljörðum króna á falli Play – „Stjórnir sjóðanna, þurfa þær ekkert að svara fyrir svona glórulausar fjárfestingar?“

Fjórir lífeyrissjóðir tapa 3 milljörðum króna á falli Play – „Stjórnir sjóðanna, þurfa þær ekkert að svara fyrir svona glórulausar fjárfestingar?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hryllingur á Ryder Cup – Trumpistar góluðu viðbjóðsleg orð og ógnuðu fjölskyldum evrópskra kylfinga

Hryllingur á Ryder Cup – Trumpistar góluðu viðbjóðsleg orð og ógnuðu fjölskyldum evrópskra kylfinga