fbpx
Miðvikudagur 01.október 2025
Fréttir

Leynd ríkir um fjármögnun maltneska dótturfélags Play – „You can take that to the bank“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 1. október 2025 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og flestir ættu að vita hefur íslenska flugfélagið Fly Play hf hætt starfsemi og verið tekið til gjaldþrotaskipta. Maltneskt dóttufélag þess Fly Play Europe virðist tóra hins vegar ennþá og þeir íslensku stjórnendur sem enn eru eftir hjá Play vinna að því fullu fetum að halda starfsemi maltneska félagsins áfram og flytja þær átta flugvélar sem íslenska félagið var með í rekstri yfir til félagsins á Möltu. Aðspurður neitaði einn stjórnandinn að upplýsa hvernig áframhaldandi starfsemi maltneska félagsins verður fjármögnuð en fullyrti að nægt fjármagn sé til staðar. Þeim stjórnanda hefur nú verið sagt upp og segist hann nú ekkert vera inni í peningahliðinni á rekstrinum.

DV hefur undir höndum upptöku sem fullyrt var að sé af fundi sem Halldór Guðfinnsson flugrekstrarstjóri Play hafi átt með forsvarsmönnum dótturfélags úkraínska flugfélagsins Skyup á Möltu en það félag mun hafa leigt að minnsta kosti tvær Airbus flugvélar af Fly Play Europe og eftir því sem DV kemst næst voru vélarnar mannaðar af starfsmönnum síðarnefnda félagsins. Líklega er þó um misskilning að ræða en Halldór viðhefur á upptökunni mjög svipað orðalag og á fundi með starfsmönnum Fly Play Europe en aðrir fjölmiðlar hafa greint frá upptöku af því sem fram fór á þeim fundi og því er um sömu upptöku að ræða.

Leynd

Halldór segist á upptökunni ekki vera lengur flugrekstrarstjóri Play á Íslandi en sé enn flugrekstrarstjóri félagsins á Möltu. Hann segir starfsemina á Möltu halda áfram og unnið sé að því að flytja flugvélarnar sem íslenska félagið var með í notkun yfir til maltneska félagsins en Play hafi verið með þær á leigu og það velti nokkuð á eigendum vélanna hvernig það takist. Fram kemur á upptökunni að unnið sé að því að manna þær átta flugvélar sem flytja eigi yfir til Fly Play Europe.

Halldór fullyrðir að félagið muni hafa yfir nægum mannafla að ráða til að standa við samninginn við Skyup. Fly Play Europe muni sömuleiðis vera með nægilega marga flugmenn til að standa við aðra samninga en hvaða samningar það séu geti hann ekki upplýst um á þessu stigi. Aðspurður um hvort það séu spænskar áhafnir segir Halldór að það sé nóg af íslenskum áhöfnum á lausu. Hvort þetta þýðir að íslensku starfsfólki Play, sem missti vinnuna við gjaldþrot íslenska móðurfélagsins, hafi verið eða verði boðin vinna hjá maltneska félaginu tekur Halldór ekki fram.

Því næst er Halldór spurður um hvaðan fjármagn eigi að koma til að reka áfram Fly Play Europe:

„Maltneska félagið er fjármagnað að fullu.“

Aðspurður um hvaða aðilar standi á bak við þá fjármögnun segir Halldór:

„Ég get ekki upplýst um það.“

Þegar þrýst er á Halldór um að veita betri svör og tekið fram að þetta sé ekki traustvekjandi segir hann:

„Fjármagnið hefur verið tryggt. Það er það eina sem ég get sagt ykkur.“

Halldór bætir síðan við að um sé að ræða afar viðkvæma viðskiptahagsmuni.

Ekki einn af þeim

Halldór segir síðan að hann hafi ólíkt mörgum vinum sínum á Íslandi ekki misst vinnuna við gjaldþrot Fly Play hf:

„Ég er kannski einn af tveimur sem eru ennþá hérna. Ég myndi ekki vera að vinna fyrir Fly Play Europe ef ég væri í einhverjum vafa um að það væri nógu mikill peningur í félaginu.“

Vart þarf að taka fram að fundurinn fór fram á ensku en til að leggja áherslu á að hægt sé að treysta orðum hans notar Halldór orðatiltæki sem mun vera upprunnið frá Bandaríkjunum:

„You can take that to the bank.“

Kröfuhafar

Eitthvað virðist þó hafa breyst eftir að þessi fundur með starfsfólki Fly Play Europe var haldinn en samkvæmt Vísi var Halldóri sagt upp störfum skömmu eftir fundinn.

Mbl.is greinir frá því að þegar Fly Play hf. lauk skuldabréfaútgáfu til tveggja ára, í ágúst síðastliðnum, hafi bréfin verið tryggð meðal annars með veði í leigusamningum flugvéla sem félagið var með í rekstri og í hlutafé Fly Play Europe. Fram kemur að Einar Örn Ólafsson forstjóri Play hafi ekki veitt skýr svör um framtíð Fly Play Europe en hann muni ekki leiða félagið. Eins og bent er á í umfjöllun Mbl.is virðist þá vart annað vera í stöðunni en að eigendur skuldabréfana eða skiptastjórar Fly Play hf. geri það. Meðal helstu eigenda skuldabréfanna munu vera auk Einars sjálfs lífeyrissjóðurinn Birta og fyrirtækið Stoðir.

Í fréttum Vísis kemur einnig fram að eigendur skuldabréfanna muni geta óskað eftir því að fá maltneska félagið leyst til sín en fundur kröfuhafa mun fara fram 6. október næstkomandi. Starfsemi Fly Play Europe mun liggja niðri á meðan unnið er að yfirfærslu flugvélanna þangað og við að afla flugrekstrarleyfis á Möltu.

Hvort Halldór hafi á áðurnefndri upptöku verið að vísa í að fjármagnið komi frá þessum kröfuhöfum íslenska móðurfélagsins er óljóst en í frétt Vísis um brottrekstur Halldórs, eftir fundinn með starfsmönnum Fly Play Europe, er haft eftir honum:

„Ég er ekkert inni í peningahliðinni á þessu dóti, það er bara þannig, það er ekki hlutverk flugrekstrarstjóra.“

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sauð upp úr á Bylgjunni þegar Stefán Einar og Margrét tókust á – „Þú ert ekki að stjórna þessum þætti, Stefán Einar“

Sauð upp úr á Bylgjunni þegar Stefán Einar og Margrét tókust á – „Þú ert ekki að stjórna þessum þætti, Stefán Einar“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einar segir unnið að því að koma áhöfnum fimm véla heim – Vinnumálastofnun býr sig undir stóra tilkynningu

Einar segir unnið að því að koma áhöfnum fimm véla heim – Vinnumálastofnun býr sig undir stóra tilkynningu