Margir viðskiptavinir stórverslunarinnar Costco koma við í matsalnum til að gæða sér á pylsu eða pizzu sneið eftir stóran verslunarleiðangur. Þykir mörgum það ómissandi partur af ferðinni. En Þó að Costco verslanir séu langtum fleiri í Bandaríkjunum en á Íslandi er einn hlutur sem þeir vestra öfunda okkur af. Það er gelató ísinn í vöfflu sem einungis er seldur í Garðabænum.
Fjallað er um málið á miðlinum Chowhound. Í Bandaríkjunum eru meira en 600 Costco verslanir og í þeim er vissulega hægt að fá ís. En aðeins venjulegan mjúkan rjómaís. Ekki gelató í vöffluformi eins og hér.
„Ein Costco verslun er á Íslandi í bæ sem kallast Garðabær, nálægt höfuðborginni Reykjavík og stuttan spöl frá alþjóðaflugvellinum í Keflavík. Ef þú ert að fljúga þangað gæti verið þess virði að stoppa í versluninni og grípa gelató og annan mat sem er í boði í matsalnum, og jafn vel fylla á byrgðirnar áður en þú ferð í gönguferðir, skoðar jökla, eltir norðurljósin eða hvað sem þú ætlar þér að gera í þessu fallega landi,“ segir í greininni.
Nefnt er að í boði séu fjórar tegundir af gelató ís, það er súkkulaði, mintusúkkulaði spænir, stracciatella og amarena kirsuber. Í umræðuþræði á samfélagsmiðlinum Reddit nefndu margir stracciatella sem þann besta.