fbpx
Miðvikudagur 08.október 2025
Fréttir

Skatturinn neitaði að trúa því að hann hefði ekki búið frítt í Airbnb-íbúð

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 8. október 2025 20:30

Mynd: Facebook-síða Skattsins

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurði ríkisskattstjóra, æðsta yfirmanns Skattsins, um endurákvörðun opinberra gjalda ónefnds manns hefur verið vísað aftur til embættisins af yfirskattanefnd. Meint húsnæðishlunnindi mannsins voru færð honum til tekna en ríkisskattstjóri vildi meina að maðurinn hefði búið endurgjaldslaust í íbúð, í eigu fyrirtækis, á ónefndum stað en maðurinn var með lögheimili sitt skráð í íbúðinni. Maðurinn þverneitaði því og sagði að þvert á móti hefði íbúðin verið í útleigu á meðan hann hafi átt að hafa búið í henni, meðal annars hefði hún verið leigð út, í gegnum erlendar leigumiðlanir eins og Airbnb og Booking.

Úrskurðurinn var kærður í mars á þessu ári en hann náði til gjaldáranna 2019, 2020, 2021 og 2022. Hin meintu húsnæðishlunnindi voru tekjufærð að fjárhæð 2,2 – 2,4 milljónir króna fyrir hvert ár að undanskildu síðastnefnda árinu en þá var fjárhæðin um ein milljón. Þar að auki var bætt við 25 prósent álagi.

Fram kemur í úrskurði yfirskattanefndar að töluverð bréfaskipti hafi átt sér stað milli mannsins og ríkisskattstjóra við meðferð málsins. Ríkisskattstjóri hafi skorað á manninn og fyrirtækið að láta í té sundurliðun á tekjum einkahlutafélagsins af útleigu fasteigna umrædd ár og gögn þar að lútandi. Þótti embættinu, eftir að andmæli mannsins bárust, ekki ástæða til að breyta neinu og hækkaði skattstofn hans vegna hinna meintu húsnæðishlunninda.

Airbnb

Í kæru sinni til yfirskattanefndar sagðist maðurinn hafa greint ríkisskattstjóra frá því að hann hefði ekki notað íbúðina sjálfur heldur hafi hún verið í skammtímaútleigu til ferðamanna fyrir milligöngu Airbnb og Booking, en þess á milli í langtímaútleigu. Kærunni fylgdu gögn sem maðurinn sagði sýna fram á að íbúðin hafi verið í útleigu á þessum erlendu síðum en annað íslenskt fyrirtæki hefði séð um skráninguna og samskipti við leigjendur.

Maðurinn vildi einnig meina að andmælaréttur sinn hefði ekki verið virtur í málinu þar sem hann hefði aðeins fengið fimm daga til að svara ríkisskattstjóra.

Með kærunni fylgdu bókanir í íbúðina hjá Airbnb og Booking vegna útleigu hennar, en fyrirtækið sem séð hefði um milligönguna hafi fengið greitt fyrir umsýslu sína.

Lögheimili

Rót málsins er bersýnilega sú að maðurinn var með lögheimili sitt skráð í hinni umræddu íbúð. Vildi hans hins vegar meina að gögn málsins sýndu fram á að hann hefði ekki raunverulega búið í henni. Skráning lögheimilis hans hafi verið röng vegna sérstakra og persónulegra ástæðna. Lét hann fylgja með yfirlýsingu ónefnds einstaklings um að hann hefði á þessum tíma, sem úrskurður ríkisskattstjóra náði til, búið á öðrum stað.

Ríkisskattstjóri vildi í andsvörum sínum meina að gögn sem maðurinn hafi afhent með kærunni sýndu eingöngu útleigu á takmörkuðum hluta hvers árs og bæru ekki með sér hvaða fasteign hafi verið leigð út í hvert skipti. Engin gögn lægju fyrir sem staðfestu meinta langtímaleigu eignarinnar. Þá hafi yfirlýsing mannsins um hans eigin búsetu ekki verið trúverðug þar sem hún samræmdist ekki bréfi umboðsmanns hans þar sem fram komi að maðurinn hafi verið með skráða búsetu annars staðar en fullyrt sé í yfirlýsingunni. Taldi ríkisskattstjóri manninn ekki hafa sýnt fram á að hann hefði ekki búið í íbúðinni eins og opinber lögheimilisskráning hans hefði kveðið á um. Þar að auki hefði hann fengið lögmætan frest til að svara embættinu.

Þessu andmælti maðurinn og vildi meina að gögnin í kæru hans sýndu þvert á móti fram á útleigu á íbúðinni öll umrædd ár. Hann hafi því augljóslega ekki getað hafa búið í íbúðinni og það væri ómálefnalegt að byggja fullyrðingar um annað eingöngu á skráningu lögheimilis hans.

Knappt en samt nóg

Yfirskattanefnd segir í niðurstöðu sinni að hægt sé að taka undir það með manninum að fimm daga frestur sem ríkisskattstjóra veitti til að svara bréfi embættisins hafi verið heldur knappur. Í bréfinu hafi maðurinn verið beðinn um að framvísa gögnum um útleigu íbúðarinnar en beiðnin hafi þó aðeins verið ítrekun á fyrri beiðni sem maðurinn hafi ekki svarað. Nefndin er heldur ekki sammála því mati mannsins að beiðnin hafi snúið að öflun umfangsmikilla gagna þvert á móti hafi verið einfalt að útvega gögnin frá hinum erlendu fyrirtækjum, í gegnum netið. Gögn málsins sýni að maðurinn hafi fengið næg tækifæri innan eðlilegs frests til að veita andmæli.

Hins vegar segir nefndin að gögnin sem maðurinn lagði fram með kærunni hafi ekki komið fram á fyrri stigum málsins. Er þá vísað til gagnanna um útleiguna frá hinum erlendu leigumiðlunum og yfirlýsingu hins ónefnda einstaklings um búsetu mannsins á öðrum stað, á þeim tíma sem málið snýst um. Ríkisskattstjóri hafi við meðferð málsins krafið manninn um umrædd gögn en hann aldrei afhent þau fyrr en hann kærði málið til nefndarinnar. Þar sem ríkisskattstjóri hafi ekki tekið rökstudda afstöðu til þessara gagna verði að senda málið aftur þangað til nýrrar meðferðar og úrskurðar.

Hvort ríkisskattstjóri muni í þetta sinn taka manninn trúanlegan og snúa úrskurðinum við á eftir að koma í ljós.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Þýskur bæjarstjóri þungt haldinn eftir hnífaárás – Leitað að „nokkrum“ mönnum sem grunaðir eru um verknaðinn

Þýskur bæjarstjóri þungt haldinn eftir hnífaárás – Leitað að „nokkrum“ mönnum sem grunaðir eru um verknaðinn
Fréttir
Í gær

Héðinn ómyrkur í máli: Hótelið dregið niður á bókunarsíðum vegna slæmra vega

Héðinn ómyrkur í máli: Hótelið dregið niður á bókunarsíðum vegna slæmra vega
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Spáir rekstrarerfiðleikum fyrir easyJet og Wizz Air eftir fall Play og Braathens – Fækkar valkostum Íslendinga?

Spáir rekstrarerfiðleikum fyrir easyJet og Wizz Air eftir fall Play og Braathens – Fækkar valkostum Íslendinga?
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vilja Uber til Íslands og stofna úrskurðarnefnd um þjónustu leigubíla

Vilja Uber til Íslands og stofna úrskurðarnefnd um þjónustu leigubíla