fbpx
Þriðjudagur 07.október 2025
Fréttir

Magga Stína siglir enn með Frelsisflotanum til Gaza – Gæti verið handtekin af Ísrael á morgun

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 7. október 2025 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margrét Kristín Blöndal, betur þekkt sem Magga Stína, er um borð í Frelsisflotanum, alþjóðlegum skipaflota sem siglir til Gaza með hjálpargögn. Hún er um borð í skipinu Conscience sem siglir nú framhjá Egyptalandi í átt að Gaza. Reiknað er með að skipið sigli í fyrramálið inn á svokallað „rautt svæði“ þar sem Frelsisflotinn er jafnað stöðvaður af Ísrael. Farþegar eru þá handteknir, fluttir til Ísrael og svo vísað úr landi.

Hægt er að fylgjast með ferðalagi Möggu hér, en þar má sjá að undanfarna daga hafði flotinn hringsólað og hefur ferðin því gengið hægt. Þetta á sér þó eðlilega skýringu en að sögn blaðamannsins Shahidul Alam ákvað Conscience að bíða eftir að smærri bátar sem sigla með flotanum, og fara hægar yfir, næðu stærri skipunum. Flotin sigli svo saman í átt að rauða svæðinu.

Alam birtir reglulegar færslur frá ferðalaginu og í grein sem hann birti í gær greindi hann frá lífinu um borð.

„Það er kannski gagnlegt að veita fólki innsýn í hvað er að eiga sér hér stað frá degi til dags. Conscience var aldrei ætlað að vera notað í skemmtisiglingar eða lengri ferðir. Þetta er gamalt skip sem var byggt árið 1972 og einkum ætlað í styttri ferðir. Þessu fylgja nokkrar áskoranir.“

Til dæmis sé engin svefnaðstaða um borð fyrir farþega. Svefnrými eru af skornum skammti og því nýtt fyrir sjálfa áhöfnina sem siglir skipinu þar sem hún þarf mest á svefni að halda. Aðrir sofa á þilfarinu eða undir þiljum. Farþegar tóku með sér svefnpoka og litla kodda, en lítið annað þar sem hver farþegi mátti aðeins taka með sér 10 kíló af farangri. Ekki er mikið af fersku vatni um borð svo vatn þarf að nota sparlega og farþegar geta ekki farið í sturtur. Áhöfnin sér um að sigla en sinnir engri þjónustu. Það eru því farþegarnir sem sjá um þrif, matseld og annað.

Öryggisráðstafanir eru einnig mikilvægar enda gæti Ísrael haft afskipti af skipinu hvað og hvenær. Farþegar skipta með sér vöktum til að fylgjast með ferðum dróna og reglulega eru haldnar öryggisæfingar enda eru farþegarnir einkum blaðamenn og heilbrigðisstarfsmenn sem hafa litla reynslu af sjóferðum. Þar sem farþegar eru óvanir er einnig töluvert um sjóveiki. Matur, vatn, salernisaðstaða og annað er af skornum skammti. Aðstæður um borð séu því ekki þær bestu og því erfitt fyrir farþega að svara fyrirspurnum um stöðuna.

Alam tók fram í færslu á Facebook í fyrradag að í ljósi sögunnar þykir honum ólíklegt að Conscience komist alla leið til Gaza. Ísrael muni stöðva flotann áður en til þess kemur.

„Við verðum að öllum líkindum handtekin og annað hvort vísað úr landi eða send í fangelsi. Hvenær og hvar það gerist er ómögulegt að spá fyrir um. Það er klárlega ekki í okkar höndum. Hér þurfum við ykkar hjálp.“

Ef fólki í landi tekst að skapa nægan þrýsting á stjórnvöld í Ísrael þá mögulega hleypi þau flotanum í gegn með hjálpargögnin.

Á heimasíðu Frelsisflotans er haft eftir Möggu Stínu:

„Ég sigli með Frelsisflotanum því ég er manneskja, móðir, amma og ég trúi því að við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að stöðva þjóðarmorðið sem er að eiga sér stað í Palestínu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segja Ísraela hafa misþyrmt og niðurlægt Gretu Thunberg

Segja Ísraela hafa misþyrmt og niðurlægt Gretu Thunberg
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vísindamenn spenntir – gæti líf fundist á tungli Satúrnusar?

Vísindamenn spenntir – gæti líf fundist á tungli Satúrnusar?