Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, hefur verið harðlega gagnrýnd í dag fyrir viðbrögð hennar við rannsókn BSRB á Kópavogsleiðinni svokölluðu í leikskólamálum. Sagt er alvarlegt að Ásdís saki stéttarfélagið um að kaupa sér pólitíska niðurstöðu.
Í morgun greindi DV frá grein Ásdísar á mbl.is þar sem hún gerði lítið úr rannsókn Vörðu fyrir BSRB á hinu nýja leikskólakerfi Kópavogs, það er Kópavogsmódelinu svokallaða.
En rétt eins og í fjölmiðlaumfjöllun undanfarin ár þá kom fram mjög mikil óánægja hjá foreldrum með hið nýja kerfi sem byggir á því að fyrstu 6 tímar vistunar séu gjaldfrjálsir en ef foreldrar nýta fleiri tíma, eins og margir þurfa að gera, þá greiða þeir mjög há leikskólagjöld.
„Erfitt er að komast hjá því að álykta að „rannsókn“ BSRB sé lítið annað en keypt niðurstaða í pólitískum leik,“ sagði Ásdís í greininni og sakaði þar með verkalýðsfélagið um að falsa rannsóknina.
Við þessu hefur verið brugðist í dag. Meðal annars Theodóra Sigurlaug Þorsteinsdóttir, oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn Kópavogs, sem sagði ásökun Ásdísar vera grafalvarlega.
„Við vitum ekki alveg á hvaða vegferð bæjarstjórinn í Kópavogi er þegar hún sakar BSRB um að kaupa niðurstöðu í rannsókn í pólitískum leik,“ segir Theodóra í færslu á samfélagsmiðlum og veltir fyrir sér hvort þetta sé eitthvað sem Ásdís sjálf stundi.
„Þetta er auðvitað grafalvarleg ásökun og þegar betur er að gáð þá setur slík opinberun öll hennar störf í annað samhengi. Er hægt að kaupa niðurstöðu úr rannsóknum og hefur hún reynslu af því?“ spyr hún.
Undir þetta taka Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, oddviti Pírata í bæjarstjórn, sem og Björn Leví Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður sama flokks.
„Þetta er auðvitað það eina sem þeim dettur í hug, af því að þau gera þetta svona yfirleitt,“ segir Björn Leví.
Þá leggur Jónas Már Torfason, lögfræðingur, einnig orð í belg og gagnrýnir Ásdísi og hvernig Kópavogsmódelið kemur niður á fjölskyldum.
„Það er áhyggjuefni þegar stjórnmálamenn eru farnir að gleyma í þjónustu hverra þeir eiga starfa. Núverandi bæjarstjóri Kópavogs er svo upptekin að verja eigið útspil í leikskólamálum að hún getur ómögulega tekið tillit til gagnrýni foreldra, sem hefur verið margítrekuð, nú síðast með rannsókn á vegum Vörðu sem birtist í síðustu viku,“ segir Jónas Már. „Að hún sé svo hreykin af eigin módeli að það sé nánast óhugsandi að það verði gagnrýnt með sanngjörnum og málefnalegum hætti er ekki gott; þá er maður farinn að vinna fyrir kerfið en ekki fyrir fólkið.“
Segir Jónas Már að módelið virki til að tryggja betri mönnun. Um það sé ekki deilt. En kostnaðurinn fyrir þá sem verði að nýta sér fulla dvöl sé gríðarlegur.
„Það sem á hefur verið bent er að kerfið er öfgafullt – ef það smellpassar ekki fyrir þarfir viðkomandi fjölskyldu er fólki ýtt út í eina dýrustu leikskóladvöl á höfuðborgarsvæðinu og þótt víða væri leitað,“ segir hann. „Það komi harkalega niður á fólki sem ekki hefur ótakmarkaðan sveigjanleika í sinni atvinnu. Það þarf ekki að vinda ofan af Kópavogsmódelinu en það þarf að koma til móts við gagnrýni sem heyrst hefur frá foreldrum. Bæjarstjóri harðneitar að viðurkenna minnsta meinbaug á kerfi sínu og sýnir þar með að hún er ófær um að leiða frekari breytingar í þessum krítíska málaflokk.“