Í umsögn sinni um frumvarp, Eyjólfs Ármannssonar innviðaráðherra, til breytinga á lögum um leigubifreiðaakstur hvetja Neytendasamtökin meðal annars til þess að breytingarnar hindri ekki aðgang nýrra aðila eins og t.d. Uber að markaðnum. Hvetja samtökin einnig til þess að komið verði á sjálfstæðri úrskurðarnefnd vegna kvartana yfir þjónustu leigibifreiða.
Eitt heitasta umræðuefni undanfarinna missera í íslensku samfélagi hafa verið breytingar sem voru gerðar, í tíð síðustu ríkisstjórnar, á lögum um leigubifreiðaakstur. Skilyrði til að fá að aka leigubifreið voru nokkuð rýmkuð og var þá meðal annars vísað til samkeppnissjónarmiða. Síðan þá hafa frásagnir af óánægju með þjónustuna orðið meira áberandi og reglulega koma upp atvik þar sem bílstjórar eru sakaðir um sviksemi meðal annars með óhóflegri og ógagnsærri verðlagningu. Einnig er nokkuð um ásakanir um áreitni og ofbeldi af hálfu leigubílstjóra, sérstaklega þeirra sem starfa ekki á neinni stöð.
Frumvarpi Eyjólfs, sem nú er til meðferðar hjá umhverfis- og samgöngnefnd Alþingis, er ætlað að bæta þá vankanta sem eru á hinni nýju umgjörð leigubifreiðaaksturs og auka öryggi farþega. Samkvæmt frumvarpinu verður meðal annars leigubílstjórum aftur gert skylt að starfa hjá tiltekinni leigubifreiðastöð en sú skylda var afnumin með nýja fyrirkomulaginu. Tryggja á að allar greiðslur verði skráðar og að stöðvarnar geymi allar upplýsingar í vist langan tíma um ferðir leigubifreiða á þeirra vegum.
Margir Íslendingar hafa nýtt sér þjónustu Uber eða annarra sambærilegra fyrirtækja á ferðum sínum erlendis. Þjónustan virkar í meginatriðum þannig að fólk pantar sér akstur í appi og greiðir fyrir ferðina fyrir fram. Fólk velur sér akstur með tilteknum bílstjóra og getur gert það út frá meðmælum og sjálft gefið bílstjórum einkunn. Uber og önnur slík fyrirtæki reka ekki leigubifreiðastöðvar heldur eru bílstjórar verktakar fyrir fyrirtækin og aka á eigin bifreiðum.
Neytendasamtökin hvetja til þess að með frumvarpinu verði ekki gerð hindrun fyrir aðgang slíkra aðila inn á markaðinn enda sé þessi þjónusta í samræmi við markmið frumvarpsins, þar sem hægt sé að sjá verð fyrir fram og velja bílstjóra út frá meðmælum. Óháð fyrirkomulagi eigi þó alltaf að hafa öryggi farþega í fyrirrúmi.
Neytendasamtökin fagna því ákvæði frumvarpsins að leigubifreiðastöðvum verði gert að vera með farveg fyrir kvartanir neytenda yfir verði og gæðum þjónustu. Mikilvægt sé að slíkt fyrirkomulag sé samræmt milli stöðva og að neytendum standi til boða að bera ágreininginn undir skilvirkt úrræði hjá viðeigandi stjórnvöldum. Til að tryggja raunverulega eftirfylgni með framkvæmd laganna telji Neytendasamtökin rétt að skoðað verði að koma á fót sjálfstæðri úrskurðarnefnd fyrir kvartanir tengdar leigubifreiðaþjónustu, að danskri fyrirmynd (d. Klagenævnet for Taxi). Slík úrskurðarnefnd geti stuðlað að skilvirkri og faglegri afgreiðslu kvartana og þar með aukið traust almennings til leigubifreiðaþjónustu hér á landi.
Í umsögninni er hins vegar ekkert minnst á Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa og heldur ekki færð rök fyrir því hvers vegna hún geti ekki sinnt þessu hlutverki. Nefndin tekur fyrir mál sem varðar ágreining neytenda við seljendur vöru- og þjónustu. Í úrskurðum hennar er ekki mikið um mál sem varða þjónustu leigubifreiða og bílstjóra þeirra. Ljóst er hins vegar að nefndin þarf að úrskurða í fjölda mála og yfirleitt fæst niðurstaða hennar ekki fyrr en nokkrum mánuðum eftir að kæra hefur verið lögð fram. Verði kvörtunum vegna mála sem snúa að akstri leigubifreiða í auknum mæli beint til nefndarinnar ætti því álagið á hana að aukast enn meira og bið eftir niðurstöðu að lengjast.