Jón Trausti Reynisson framkvæmdastjóri Heimildinnar leggur orð í belg um þær miklu umræður og deilur sem geisað hafa um frétt Stefáns Einars Stefánssonar, blaðamanns og þáttastjórnanda, í Morgunblaðinu um listamannalaun og afköst þeirra sem þiggja þau. Jón Trausti segir umræðu um listamannalaun þarfa en ljóst sé að frétt Stefáns Einars sé röng enda hafa sumir rithöfundar bent á að í fréttinni hafi vantað upplýsingar um hversu mörgum verkum þeir hafi í raun skilað af sér. Jón Trausti segir Stefán Einar haga sér í samræmi við þróun þjóðmála í Bandaríkjunum og þaðan sé hann að flytja inn niðurbrot sómakenndar.
Andri Snær Magnason svaraði frétt Stefáns Einars með því að benda á að í hana hefði vantað fjölda verka hans.
Stefán Einar svaraði með því að bjóða Andra Snæ í þátt sinn Spursmál en Andri Snær hefur sýnt því lítinn áhuga og segir ótækt að beiðni hans um að fréttin verði leiðrétt í samræmi við staðreyndir hafi ekki verið sinnt.
Jón Trausti segir, í pistli á Facebook, umræðu um listamannalaun réttmæta sem og að fjalla um afraksturinn af þeim. Umfjöllun Stefáns Einars sé þó bersýnilega röng þar sem hann undanskilji fjölda verka höfunda sem taldir séu upp og líti þar að auki fram hjá öllum samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum og viðmiðum öðrum en útgefnum blaðsíðum og kostnaði.
Því næst gerir Jón Trausti eigendur Morgunblaðsins, vinnuveitanda Stefáns Einars, að umtalsefni:
„Umfjöllun Stefáns Einars er niðurgreidd af útgerðarmönnum, sem vilja hafa áhrif á samfélagsumræðuna til að lágmarka skattgreiðslur sínar fyrir afnot á sameiginlegri auðlind landsmanna. Aðeins í fyrra tapaði útgáfa Stefáns Einars tæpum milljón krónum á hverjum einasta degi, þrátt fyrir ríkisstyrk og hjálp velviljaðra auglýsenda, en fær jafnóðum meira frá útgerðarmönnum. Það fellir ekki vandaðar umfjallanir, en það þarf að horfa til þess að hann er flokksblaðamaður fjármagnaður af útgerðinni að hluta, sem getur ýtt undir skekkjur í umfjöllunum og orðræðu.“
Jón Trausti minnir á að Stefán Einar hafi gengið gegn ýmsum normum og viðmiðum í blaðamennsku til dæmis með því að vera virkur í starfi stjórnmálasamtaka (Sjálfstæðisflokksins, innsk. DV), skrifa umfjallanir um sjálfan sig og með því að uppnefna nafngreint fólk. Gera megi ráð fyrir að framganga Stefáns Einars sé í samræmi við vilja eigenda Morgunbalaðins. Hann segir hegðun Stefáns Einars mótast af þróun þjóðmála í Bandaríkjunum. Stefán Einar sé virkur þátttakandi í að flytja inn þá óæskilegu þróun:
„Hegðun hans er í samræmi við þróun stjórnmála og þjóðmála í Bandaríkjunum. Ekki sér fyrir endann á útbreiðslu þeirrar samfélagsþróunar, sem hefur meðal annars falið í sér algert niðurbrot sómakenndar, en við vitum að tilraunir til innflutnings á hluta hennar standa yfir, meðal annars virkri aðkomu Stefáns Einars.“