Meðal sakborninga í Gufunesmálinu var kona um tvítugt sem ákærð var fyrir hlutdeild í frelsissviptingu og ráni með því að hafa mánudaginn 10. mars 2025 sett sig í samband við Hjörleif Hauk Guðmundsson, fengið hann til að yfirgefa heimili sitt og fara inn í bíl, vitandi að til stæði að svipta Hjörleif frelsi sínu og beita hann ofbeldi til þess að hafa af honum fjármuni með ólögmætum hætti.
Konan neitaði sök og var sýknuð þó að fyrir liggi að hún hafi haft sett sig í samband við Hjörleif með fyrrgreindum hætti. Aðdragandinn að þessu var sá að Lúkas Geir Ingvason, sem dæmdur var í 17 ára fangelsi fyrir hlutdeild sína í málinu, var í samskiptum við Hjörleif undir því yfirskini að hann væri stúlka að nafni Birta Sif. Mælti „Birta Sif“ sér mót við Hjörleif með fyrrgreindum hætti en ákærða konan kom að málinu með því að hringja í Hjörleif til að boða hann út í bílinn, samkvæmt beiðni Lúkasar.
Rétt er að staldra hér við þá fullyrðingu Stefáns Blackburn fyrir dómi, sem áður hefur komið fram, að Hjörleifur hafi með ásetningi sínum um að hitta stúlkuna verið að fara að fremja lögbrot.
Áður hefur verið greint frá því að Hjörleifur þjáðist af heilabilun sem hafði áhrif á framferði hans. En til þess er einnig að líta að samkvæmt dómnum sagðist Birta Sif vera 17 ára gömul. Ekkert í lögum segir að saknæmt sé að mæla sér mót við 17 ára manneskju. Í fjórðu málsgrein 202. greinar almennra hegningarlaga segir:
„Hver sem með samskiptum á netinu, annarri upplýsinga- eða fjarskiptatækni eða með öðrum hætti mælir sér mót við barn yngra en 15 ára í því skyni að hafa við barnið samræði eða önnur kynferðismök eða til að áreita það kynferðislega á annan hátt skal sæta fangelsi allt að 2 árum.“
Samræði við 17 ára einstakling er ekki heldur lögbrot en samkvæmt þriðju málsgrein er refsivert að tæla barn undir 18 ára til samræðis eða annarra kynferðismaka með blekkingum, gjöfum eða á annan hátt. – Miðað við dóminn virðast blekkingarnar hafa allar verið á hinn veginn og því erfitt að sjá að Hjörleifur hafi aðhafst nokkuð sem varðar við lög.
Það er niðurstaða dómsins að ekki sé hægt að sakfella konuna fyrir það sem hún er ákærð fyrir, hlutdeild í frelsissviptingu og ráni. Ekki sé hafið yfir vafa að hún hafi ekki vitað að til stæði að beita Hjörleif ofbeldi, eins og ákæruvaldið byggði á. Hún kunni að hafa gerst sek um hlutdeild í fjárkúgun en hún var ekki ákærð fyrir þær sakir og því ekki hægt að sakfella hana fyrir það.
Stúlkan sagði fyrir dómi að hún hefði áður tekið þátt í tálbeituaðgerðum þar sem reynt var að kúga fé út úr mönnum með hótunum um að afhjúpa rafræn samskipti þeirra við einstaklinga sem þeir töldu vera börn. Ekki hefði verið beitt líkamlegu ofbeldi í þeim tilvikum. Framburður annarra sakborninga studdi þennan framburð hennar, þ.e. Stefáns Blackburn og Lúkasar Geirs.
Niðurstaðan er sú að stúlkan er sýknuð af öllum kröfum ákæruvaldsins. Hún er eini sakborningurinn af fimm sem fær sýknudóm.