fbpx
Fimmtudagur 25.september 2025
Fréttir

Úthúðar Guðmundi Inga og segir hann ekki ráða við verkefnið – „Gerum við ekki meiri kröfur en þetta?“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 25. september 2025 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margrét Gísladóttir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í landbúnaði og fyrrum aðstoðarmaður Gunnars Braga Sveinssonar í tíð hans sem utanríkisráðherra, í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, úthúðar Guðmundi Inga Kristinssyni mennta- og barnamálaráðherra í pistli á Facebook. Margrét segir það blasa við að Guðmundur Ingi ráði ekki við embættið og spyr hvort eigi að umbera hann bara til að forðast að vera með leiðindi í hans garð.

Margrét Gísladóttir. Mynd: Stjórnarráðið.

Tilefni pistilsins er frammistaða Guðmundar Inga í Kastljósi síðasta mánudagskvöld. Margrét er ekki sú eina sem hefur gagnrýnt frammistöðu ráðherrans en aðrir hafa andmælt fullyrðingum um að hann hafi staðið sig illa. Í þættinum ræddi Guðmundur Ingi meðal annars um tilkomu nýs stjórnsýslustigs fyrir framhaldsskóla en komið verður á fót svæðisskrifstofum um allt land sem eiga að annast yfirumsjón með starfi skólanna. Margrét telur að Guðmundi Inga hafi ekki tekist sérstaklega vel upp við að færa rök fyrir nauðsyn þessara breytinga:

„Satt best að segja babblaði ráðherra þvers og kruss og ljóst að hann skildi sjálfur illa tilgang, markmið eða eðli boðaðra breytinga. Hið minnsta mistókst honum algerlega að koma því á framfæri til áhorfenda. Áhorfið var hreint út sagt óþægilegt og leitun að öðru eins skipsbroti í safni þó misgóðra viðtala við fyrrum ráðherra landsins.“

Ekki heppilegur kandídat

Margrét segir að blasað hafi við frá fyrsta degi Guðmundar Inga í embætti að hann réði ekki við verkefnið. Rifjar hún upp í því samhengi ræðu sem Guðmundur Ingi þurfti að flytja þann dag á ensku en flutningur ræðunnar mislukkaðist algerlega:

„Fólk sá hreinlega að viðkomandi var ekki mjög heppilegur kandídat í embætti menntamálaráðherra og mörgum fannst þetta hreinlega neyðarlegt. En þeir sem gagnrýndu ráðherra opinberlega voru fljótt úthrópaðir menntasnobbarar og var lagt upp með að gagnrýnin ætti uppruna sinn í óvild í garð Flokks fólksins fremur en að eiga fullkomlega rétt á sér sem gagnrýni þeirra sem þarna sáu vandræði á ferð.“

Margrét rifjar upp að nýlega sagði Guðmundur Ingi í viðtali í Bítinu á Bylgjunni að hann nennti ekki að kynna sér hvers vegna gömlu samræmdu prófin hefðu hætt að virka þótt hann  fullyrti að svo væri.

Hún minnir á að krafa sé um það í íslensku samfélagi að bæta stöðu menntamála og það hafi ríkisstjórnin sagst ætla að gera en skipan Guðmundar Inga sé ekki merki um það. Hún spyr hvort umbera eigi það að hafa Guðmund Inga sem menntamálaráðherra bara til að vera ekki með leiðindi og særa hann:

„Gerum við ekki meiri kröfur en þetta? Ætlum við að fórna mikilvægum 4 árum sem gætu farið í alvöru tiltekt, stefnumótun og vitundarvakningu um menntamál með djúpri og upplýstri umræðu, af þeim sökum einum að það vill enginn vera leiðinlegur við Guðmund Inga? Þá er ágætt að minna á að skipan í ráðherraembætti er ekki persónuleg. Hún á að vera með þeim hætti sem gerir þjóðinni sem mest gagn að mati sitjandi ríkisstjórnar. Er það staðan?“

Sagan

Hafa ber þó í huga að vandinn í menntakerfinu á sér lengri sögu en vera Guðmundar Inga í menntamálaráðuneytinu og Margrét lætur þess í engu getið að hennar gamli flokkur, Framsóknarflokkurinn, fór með menntamál í ríkisstjórn Íslands frá 2017 og þar til Flokkur fólksins tók við ráðuneytinu í þeirri ríkisstjórn sem tók við völdum í lok síðasta árs.

Færsla Margrétar í heild sinni: 

„Af menntamálum

Mér er orða vant eftir áhorf á Kastljósið sl. mánudagskvöld. Í þættinum gerði mennta- og barnamálaráðherra tilraun til að útskýra hugmyndir að nýju stjórnsýslustigi við opinbera framhaldsskóla. Satt best að segja babblaði ráðherra þvers og kruss og ljóst að hann skildi sjálfur illa tilgang, markmið eða eðli boðaðra breytinga. Hið minnsta mistókst honum algerlega að koma því á framfæri til áhorfenda. Áhorfið var hreint út sagt óþægilegt og leitun að öðru eins skipsbroti í safni þó misgóðra viðtala við fyrrum ráðherra landsins.

Þegar sitjandi ráðherra tók við í upphafi árs komu fljótt fram gagnrýnis- og áhyggjuraddir í kjölfar vægast sagt óheppilegrar frammistöðu á alþjóðlegum leiðtogafundi í menntamálum. Fólk sá hreinlega að viðkomandi var ekki mjög heppilegur kandídat í embætti menntamálaráðherra og mörgum fannst þetta hreinlega neyðarlegt. En þeir sem gagnrýndu ráðherra opinberlega voru fljótt úthrópaðir menntasnobbarar og var lagt upp með að gagnrýnin ætti uppruna sinn í óvild í garð Flokks fólksins fremur en að eiga fullkomlega rétt á sér sem gagnrýni þeirra sem þarna sáu vandræði á ferð. Ekki fyrir löngu lét sami ráðherra hafa eftir sér að hann “nenni ekki” að kynna sér hvers vegna gömlu samræmdu prófin væru ekki heppileg lengur. Á milli þessara uppákoma hefur lítið sem ekkert heyrst frá menntamálaráðherra.

Á sama tíma hafa fulltrúar ríkisstjórnarinnar talað um að þau setji menntamál á oddinn, enda var ljóst að mikil og þung krafa væri í samfélaginu fyrir kosningar um það. En er það raunin? Gerum við ekki meiri kröfur en þetta? Ætlum við að fórna mikilvægum 4 árum (!) sem gætu farið í alvöru tiltekt, stefnumótun og vitundarvakningu um menntamál með djúpri og upplýstri umræðu, af þeim sökum einum að það vill enginn vera leiðinlegur við Guðmund Inga? Þá er ágætt að minna á að skipan í ráðherraembætti er ekki persónuleg. Hún á að vera með þeim hætti sem gerir þjóðinni sem mest gagn að mati sitjandi ríkisstjórnar. Er það staðan? “

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hildur um Charlie Kirk og tjáningarfrelsið: „Hélt á lofti skoðunum sem ganga gegn gildum fjölda fólks“

Hildur um Charlie Kirk og tjáningarfrelsið: „Hélt á lofti skoðunum sem ganga gegn gildum fjölda fólks“
Fréttir
Í gær

Lést í bílslysi við gatnamót Vatnagarða og Sundagarða

Lést í bílslysi við gatnamót Vatnagarða og Sundagarða
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Móðir með kaupfíkn myrti fjölskyldu sína – Sagði það „glæp gegn mannkyni“ að fá ekki að eyða peningum

Móðir með kaupfíkn myrti fjölskyldu sína – Sagði það „glæp gegn mannkyni“ að fá ekki að eyða peningum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Uppgangur á snyrtistofumarkaðnum í Reykjavík á sér myrkar hliðar

Uppgangur á snyrtistofumarkaðnum í Reykjavík á sér myrkar hliðar