Snorri Másson alþingismaður segir það varla geta talist eðlilegt að nemendur Þorsteins V. Einarssonar kynjafræðings, sem kennir kynjafræðiáfanga í Menntaskólanum í Kópavogi (MK), eigi að vera neyddir til að mæta í áfangann og hlusta á skoðanir Þorsteins.
Snorri ræðir þetta í nýju myndbandi á samfélagsmiðlum. Tilefnið er að nýlega gagnrýndi Þorsteinn Snorra harðlega fyrir skoðanir hans meðal annars þær að kynin væru aðeins tvö. Sagði Þorsteinn meðal annars:
„Talandi um fornöld. Alþingismaðurinn Snorri telur að kynin séu og hafi alltaf verið bara tvö, trans sé hugmyndafræði og karlar eigi að fá frið til að sýna náttúrulegt eðli sitt, karlmennskuna. Sami alþingismaður sér lítið gagn í kynjafræði en mikið gagn í hugmyndafræði hægri róttækni og hoppar í drullupollum með frægustu ofbeldismönnum landsins.“
Þorsteinn sendir Snorra væna pillu: „Hoppar í drullupollum með frægustu ofbeldismönnum landsins“
Snorri segir það þá liggja opinberlega fyrir „hvað þessum ágæta manni finnst um mína pólitík.“ Snorri spyr hins vegar hvort það sé „eðlilegt að nemendur í MK séu skyldugir til þess að hlusta á þær skoðanir hans mörgum sinnum í viku?“
Snorri segist áður hafa gagnrýnt það sem hann kallar pólitíska innrætingu í íslensku skólakerfi en að Þorsteinn starfi nú við kennslu sé einum of:
„Þið þekkið Steina V., hinn glaðlyndi og öflugi kynjafræðingur og pólitíski aktvívisti. Hann hefur í gegnum tíðina verið mikill aðáandi minn og skrifað margt mjög fallegt og hjartnæmt um mig og mér hefur bara þótt vænt um það.“
Minna ber á að þetta er augljóslega sagt í kaldhæðni.
Snorri segir að þar sem málfrelsi sé á Íslandi megi Þorsteinn að sjálfsögðu skrifa það sem hann vilji. Hann bætir því hins vegar við að skrif Þorsteins um hann séu að verða persónulegri og rætnari. Eigi óvild Þorsteins í hans garð líklega rætur að rekja til þess þegar Snorri fjallaði um það á fjölmiðli sínum Ritstjórinn þegar Þorsteinn gagnrýndi opinberlega Ester Harðardóttur starfsmann Bónuss fyrir að hafna því að selja bók hans og eiginkonunnar Huldu Tölgyes í verslunum fyrirtækisins. Þorsteinn bað þó á endanum Ester afsökunar en Snorri segir:
„Ég held að hann hafi ekki farið að elska mig mikið meira eftir allt þetta mál.“
Snorri segir að það næsta sem hann hafi frétt af Þorsteini hafi verið þegar hann hafi fengið mynd senda úr kennslustund í Menntaskólanum í Kópavogi en þar var mynd af Snorra varpað upp á skjá en myndin er bersýnilega úr hinum fræga Kastljósþætti en þingmaðurinn hlaut harða gagnrýni fyrir framgöngu sína í þættinum. Var hann meðal annars sakaður um að ala á andúð í garð hinsegin fólks, þá sérstaklega trans fólks en Snorri segist ekki hafa gefið neinu slíku undir fótinn.
Umrædd mynd var tekin í kennslustund í kynjafræði sem Þorsteinn kennir:
„Guð veit hvað hann er að segja um mig í tímunum. Ekki er það allt fallegt samkvæmt mínum upplýsingum enda kannski ekki við því að búast að hann geti skyndilega orðið hlutlaus fræðimaður þegar kemur að mér.“
Snorri vill meina að hingað til hafi það verið almenna reglan að kennarar haldi pólitískum skoðunum sínum fyrir utan skólastofuna. Hann minnir á að umræddur áfangi í MK sé skylda en samkvæmt vefsíðu skólans er öllum nemendum á bóknámsbrautum skylt að taka áfangann:
„Þau verða að sitja undir skoðunum Þorsteins V. Einarssonar.“
Snorri minnir á að hann hafi áður lýst þeirri skoðun sinni að kynjafræði sé ekki alvöru fræðigrein heldur snúist um að breiða út pólitíska hugmyndafræði:
„Steini V. á launum hjá ríkinu að tala um mig í einhverri kennslustofu þar sem nemendur hafa ekki einu sinni val um að vera eða ekki.“
Þess má geta að í lýsingu á áfanganum á vefsíðu MK segir meðal annars:
„Eitt af meginmarkmiðum áfangans er að vekja ungt fólk til vitundar um það að jafnrétti kynja er ekki náð og að það næst ekki án baráttu. Lögð er áhersla á þátttöku nemenda, umræður og skoðanaskipti á jafnréttisgrunni. Atburðum líðandi stundar er skotið inn í áfangann eftir því sem tilefni gefst til og nemendum er hjálpað að nota ,,kynjagleraugun“ (sjónarhorn kynjafræðinnar) á veröldina í kringum sig.“
Snorri segist að lokum vel geta unað við það að Þorsteinn tali illa um hann en allt sem hann reki í myndbandinu staðfesti það sem hann hafi áður sagt um kynjafræði í skólum.