Sólbaðsstofunni Sælunni Reykjavík í Faxafeni hefur nú verið lokað. Eftirfarandi tilkynning hefur verið birt á Facebook-síðu stofunnar:„Sælan Reykjavík hefur lokað eftir að upp kom mygla í bekkjunum okkar. Við þökkum viðskiptavinum samfylgdina og biðjumst velvirðingar á stöðunni.“
Ljóst er að endalok rekstrarins snúast þó um fleira en myglu. Annar eigandinn staðfestir í samtali við DV að leigusali fyrirtæksins hafi skellt í lás í Faxafeninu vegna vangoldinnar húsaleigu.
Sælan Reykjavík hét áður Sólbaðsstofan Sælan og var staðsett í Bæjarlind í Kópavogi. Sú stofa varð gjaldþrota. Stofnandi hinnar endurreistu Sælu í Faxafeni bauð öðrum manni að koma inn í reksturinn með sér. Sá sakar hann núna um að hafa ekkert lagt til rekstrarins og segist hafa fengið í hausinn vangoldna húsaleigu og skuldir við iðnaðarmenn, sem stofnað var til áður en hann kom inn í reksturinn. Ennfremur hafi hinn eigandinn lagt til ljósabekki og búnað úr hinni gjaldþrota sólbaðsstofu í Bæjarlind sem hafi í raun tilheyrt þrotabúinu, enda hafi þessir munir verið endurheimtir og skiptastjóri seldi þá síðan þriðja aðila.
Hinn eigandinn ber af sér sakir. Málið er snúið og sagan flókin en ljóst er að þeir sem ætluðu í ljós í Sælunni Reykjavík þurfa að leita eitthvert annað. Fyrirtækið mun vera á barmi gjaldþrots og sem fyrr segir hefur starfseminni verið lokað.