Yfirfasteignamatsnefnd hefur staðfest afgreiðslu Hvalfjarðarsveitar á máli hjóna sem eiga fasteign í sveitarfélaginu. Eftir að í ljós kom að þau höfðu verið rukkuð um of háan fasteignaskatt í sjö ár kröfðust hjónin þess að álagningin yrði leiðrétt afturvirkt. Sveitarfélagið leiðrétti álagninguna en varð hins vegar ekki við því að gera það afturvirkt og hjónin fá því ekki neina endurgreiðslu.
Hjónin eignuðust fasteignina árið 2017 en hún hafði áður verið í eigu fyrirtækis og þar var rekinn gististaður. Í samræmi við það lagði Hvalfjarðarsveit á eignina fasteignaskatt samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga en þar er kveðið á um að hámarks fasteignaskattur á fasteign þar sem rekin er ferðaþjónusta megi vera 1,32 prósent af fasteignamati.
Ekki kemur fram í úrskurðinum nákvæmlega hversu háan fasteignaskatt Hvalfjarðarsveit lagði á eignina en árið áður en hjónin keyptu hana var álagningin eins og um gististað væri að ræða og var síðan óbreytt á árunum 2017-2024.
Hjónin nýttu hins vegar ekki eignina til neins rekstrar heldur til búsetu og haustið 2024 bárust upplýsingar um það með munnlegum hætti til Hvalfjarðarsveitar sem breytti álagningunni í kjölfarið til samræmis við ákvæði áðurnefndra laga. Samkvæmt þeim mega sveitarfélög ekki leggja hærri fasteignaskatt á íbúðarhúsnæði en sem nemur 0,5 prósent af fasteignamati.
Fyrr á þessu ári fóru hjónin fram á að sveitarfélagið breytti skráningu eignarinnar úr því að vera gististaður yfir í íbúðarhúsnæði. Lögmanni þeirra var tjáð að það hefði verið á ábyrgð hjónanna að láta vita að enginn rekstur væri lengur í eigninni. Þau hefðu í þessi sjö ár ekki gert neinar athugasemdir við álagninguna. Það væri of seint að kæra og ekki stæði til að endurgreiða þeim.
Hjónin kærðu þá niðurstöðu til nefndarinnar og kröfðust afturvirkar leiðréttingar. Þau sögðu meðal annars í sinni kæru hafa talið það óþarfi að láta sérstaklega vita að enginn rekstur væri lengur í eigninni enda hefðu þau talið það eiga að vera augljóst eftir að fyrirtækið, sem hafði rekstrarleyfi, seldi hana til þeirra. Þau hafi einfaldlega ekki áttað sig á að skráning eignarinnar væri enn óbreytt og þau því rukkuð um of háan fasteignaskatt. Vildu hjónin meina að Hvalfjarðarsveit hefði ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart þeim. Sveitarfélagið hafi vísað til þess að þau hafi í þessi sjö ár ekki gert neinar athugasemdir en hins vegar hafi þeim aldrei á þessum tíma verið greint frá forsendum álagningarinnar og þau því verið grunlaus um að hún væri of há.
Vildu hjónin einnig meina að kærufrestur væri ekki liðinn þar sem Hvalfjarðarsveit hefði ekki leiðbeint þeim um rétt þeirra til að kæra álagninguna.
Hvalfjarðarsveit stóð fast á því að kærufrestur væri liðinn og því bæri að vísa kæru hjónanna frá. Sagði sveitarfélagið það einnig hafa komið skýrt fram á álagningarseðlum að eignin væri flokkuð sem atvinnuhúsnæði. Tilkynnt væri um álagninguna í febrúar ár hvert og því væri kærufrestur fyrir álagningu hvers árs þrír mánuðir, frá þeim tíma. Hjónin hafi á þessum sjö árum aldrei gert neinar athugasemdir og því sýnt af sér tómlæti við að halda sínum réttindum til haga.
Minnti sveitarfélagið á að annað af hjónunum hefði átt fyrirtækið sem rak gististaðinn í eigninni. Þegar rekstri á grundvelli leyfis til reksturs gististaðar væri hætt bæri að tilkynna sýslumanni um það en það lægi ekki fyrir að það hafi verið gert, í þessu tilfelli, en um slíkar breytingar fái sveitarfélagið engar upplýsingar frá sýslumanni. Hvalfjarðarsveit tók ekki undir það með hjónunum að það ætti að vera augljóst að þegar eign þar sem gististaður sé rekinn sé seld þýði það að rekstri hafi þar með verið hætt.
Sagði Hvalfjarðarsveit að lokum flokkun eignarinnar hafa verið breytt á síðasta ári og hún færð í gjaldflokk íbúðarhúsnæðis en ekki væru lagalegar forsendur til að breyta skráningunni afturvirkt.
Í athugasemdum við andsvör Hvalfjarðarsveitar vildu hjónin meðal annars meina að sveitarfélagið hafi átt að vekja athygli þeirra á því að þau væru að greiða of háan fasteignaskatt. Sveitarfélaginu hafi verið full kunnugt um að fasteignin væri ekki lengur nýtt til atvinnureksturs.
Í niðurstöðu yfirfasteignamatsnefndar segir að á álagningarseðlum hjónanna hafi komið meðal annars fram upplýsingar um gjaldflokkun og álagningarprósentu fasteignaskatts vegna fasteignarinnar en vísað til vefsíðu sveitarfélagsins um kæruheimild og kærufrest til yfirfasteignamatsnefndar.
Nefndin segir að þar sem kærufrestur vegna álagningar áranna 2017-2023 sé löngu liðinn verði að vísa þeim hluta kærunnar frá. Kæra vegna álagningar fyrir árið 2024 fær hins vegar að standa þar sem nefndin segir að Hvalfjarðarsveit hafi ekki leiðbeint hjónunum um rétt þeirra til að kæra með fullnægjandi hætti. Það dugi ekki að vísa í almennar upplýsingar á heimasíðu sveitarfélagsins eins og gert hafi verið.
Nefndin segir hins vegar mestu skipta að þar sem hjónin hafi ekki tilkynnt sveitarfélaginu fyrir álagningu ársins 2024 að ekki stæði til að hafa rekstur gististaðar í fasteigninni á árinu. Það dugi ekki til að breyta álagningunni að tilkynna slíkt eftir á.
Álagning fyrir árið 2024 eins og um atvinnuhúsnæði væri að ræða stendur því óbreytt og kæru vegna álagningar áranna 2017-2023 er vísað frá. Fasteignaskattur sem lagður verður á eignina framvegis verður í samræmi við að um íbúðarhúsnæði er nú að ræða en hin of háa álagning áranna 2017-2024 verður ekki endurgreidd.