Tyler Robinson, sem grunaður er um morðið á áhrifavaldinum Charlie Kirk, er klæddur í sérstakan slopp til að koma í veg fyrir að hann fremji sjálfsvíg. Hann er vistaður á sérstakri deild þar sem allir fangar verða að vera í slíkum slopp.
Morðið á Charlie Kirk er eitt það umtalaðasta á undanförnum árum. Varla er til það mannsbarn sem ekki hefur heyrt um Kirk og meintan banamann hans, hinn 22 ára gamla Tyler Robinson.
Tekin var svokölluð fangamynd (mugshot) af Robinson föstudaginn 12. September, eins og gert er við alla sakborninga í Bandaríkjunum. Á myndinni, sem fylkisdómstóllinn í Utah birti, sést að Robinson er í mjög sérstöku klæðnaði.
Robinson var í sams konar klæðnaði þegar hann kom fyrir dómara þann 16. september, það er í gegnum fjarfundarbúnað eins og sagt er frá í tímaritinu People.
Tímaritið spurðist fyrir um þennan undarlega klæðnað og fékk þau svör frá Ray Ormond, varðstjóra hjá sýslumannsembættinu í Utah sýslu að Robinson væri hýstur á sérstakri deild. Á þeirri deild þyrftu allir fangar að vera í sérstökum sloppi sem er hannaður til þess að koma í veg fyrir að þeir geti framið sjálfsvíg.
„Á sérstöku hýsingardeildinni okkar er fylgst sérstaklega með föngum og þeir þurfa að vera í þessum slopp,“ sagði Ormond.
Ástæðurnar fyrir því að fangarnir eru settir í þessa sloppa er sérstök hætta sem fylgir þeim.
„Þeir glæpir sem þeir eru ákærðir fyrir, hegðunarvandamál, ofbeldishegðun og eða áhyggjur af því að þeir fremji sjálfsvíg,“ sagði hann en minntist ekki sérstaklega á Robinson í því samhengi.
Hins vegar segir í skjali sem saksóknari lagði fram þann 16. september fyrir dómstólinn að Robinson hafi hótað því að fremja sjálfsvíg áður en hann gaf sig fram við lögregluyfirvöld. Þetta hafi gerst eftir að hann hafi sagt föður sínum frá því að hafa skotið Charlie Kirk.
Hafi Robinson sagt að hann vildi ekki fara í fangelsi heldur „klára þetta strax,“ það er enda eigið líf. Það var eftir það sem foreldrar Robinson höfðu samband við fjölskylduvin, fyrrverandi lögreglustjóra, sem talaði Robinson til. Eftir það samtal hafi fjölskylduvinurinn hringt í yfirvöld og Robinson gefið sig fram.
Robinson er ákærður í sjö liðum, þar á meðal fyrir morð af yfirlögðu ráði. Saksóknari fer fram á dauðarefsingu yfir honum. Ekki er ljóst hversu lengi Robinson mun dvelja á hinni sérstöku deild og þurfa að klæðast sloppnum áðurnefnda.
Sloppar af þessu tagi eru gerðir úr stífu og þétt ofnu efni sem gerir þeim sem slæðast þeim erfiðara um vik að taka eigið líf.
Ef einstaklingar glíma við sjálfsvígshugsanir er bent á Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa samband við Píeta-samtökin sem veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.