Margrét Tryggvadóttir, fyrrverandi þingmaður, spyr hvort ekki sé ráð að takmarka notkun opinberra stofnana á gervigreind. Tilefnið er mjög illa gerð gervigreindarmynd sem Lögreglan á Vestfjörðum birti.
Á föstudag birti Lögreglan á Vestfjörðum færslu til að minna ökumenn í umdæminu á að sauðfé getur verið á vegunum. Það er að verið sé að smala og því geti sauðfé farið á vegina. Eru ökumenn því beðnir að sýna aðgát og keyra ekki of hratt.
Það er allt saman gott og blessað en hins vegar hefur myndavalið farið fyrir brjóstið á mörgum. Það er að lögregluembættið birti mjög illa gerða gervigreindarmynd með færslunni.
Er um að ræða dæmigert íslenskt landslag, dökkgrænar breiður, snævi þakin fjöll og alskýjað. Vegurinn reyndar óvenju góður miðað við íslenska vegi almennt.
Á veginum eru um tuttug ær og lömb en þegar að er gáð eru þau afar skringileg og mjög augljóslega gerð með lélegu gervigreindarforriti.
Ein af þeim sem er ekki sátt við þetta er Margrét Tryggvadóttir, rithöfundur og fyrrverandi þingmaður Borgarahreyfingarinnar, sem lætur orð í belg á samfélagsmiðlum.
„Er í alvöru ekki hægt að takmarka notkun opinberra aðila á svona gervigreindarrusli?“ spyr Margrét.
Segir hún að myndvinnsla sem þessi byggi á grófum höfundarréttarbrotum. Þá sé myndin afar bjöguð. Til að mynda sé ein kindin með fimm fætur og önnur ekki með neitt höfuð.
Taka margir undir með Margrét í athugasemdum við færslu hennar. „ Nóg til af eldri myndum. Þetta er bara ljótt,“ segir rithöfundurinn Þórarinn Leifsson. „Mér finnst að það ætti að setja ákveðnar siða- og verklagsreglur um notkun ai mynda hjá opinberum aðilum. Þetta snýst um fagmennsku og trúverðugleika,“ segir Sara Oskarsson fyrrverandi varaþingmaður Pírata.
Margir hafa einnig gagnrýnt Lögregluna á Vestfjörðum á þeirra eigin Facebook síðu. Það er vegna myndanotkunarinnar.
„Það eru til svo margar myndir af kindum á vegi sem eyðileggja ekki plánetuna hérna er ein flott til dæmis,“ segir ein kona og bendir lögreglunni á alvöru ljósmynd af kindum á vegi.
„Hið opinbera ætti ekki að nota gervigreind. Punktur. Gerið betur,“ segir annar.
Lögreglan sjálf svarar þessu en biðst þó ekki afsökunar á myndavalinu.
„Myndin vekur greinilega mikla athygli. Vonandi hefur færslan þá komist vel til skila og allir hafa boðskap hennar í huga. Góða helgi gott fólk,“ segir í athugasemd hennar.