Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, hefur eignast forláta flíspeysu Daða Más Kristóferssonar fjármálaráðherra. Peysan var boðin upp á landsþingi Viðreisnar í gær.
Eva Pandora Baldursdóttir, sambýliskona Helga Hrafns og annar fyrrverandi þingmaður Pírata, greinir frá þessu á samfélagsmiðlum. En hún gekk í Viðreisn fyrir tæpu ári síðan.
„Nýjasta tískubylgjan í íslenskum stjórnmálum,“ segir Eva Pandora í færslunni og birtir mynd af Helga Hrafni í téðum klæðnaði.
Ýmsir munir voru boðnir upp til styrktar flokknum í gærkvöldi á landsþinginu, sem er það fjölmennasta hingað til og er haldið á Grand Hotel. Þar á meðal þessi flíspeysa sem Daða Má var bannað að klæðast í kosningabaráttunni síðustu.
Á meðal þess sem boðið var upp var söguganga Maríu Rutar Kristinsdóttur um Vestfirði, stefnumót á Moulan Rouge með Ingvari Þóroddssyni og dómarafatnaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur úr Ísland Got Talent.
Mikið stuð var á þinginu í gærkvöldi og dansað fram á nótt. María Rut var veislustjóri og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir hélt hátíðarræðu. DJ Jón Gestur þeytti skífum og Selma Björnsdóttir tók Eurovision syrpu.