Maður fannst látinn á opnu svæði í Hafnarfirði í dag. Að sögn Skúla Jónssonar, yfirlögregluþjóns á lögreglustöð 2, var tilkynnt um atvikið kl. 12:18 í dag.
Þar sem um mannslát er að ræða er málið sjálfkrafa komið inn á borð miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og segist Skúli ekki hafa með málið að gera lengur.
Varðandi viðbúnað á staðnum segir Skúli að hann hafi verið nokkur. Tveir lögreglubílar frá stöðinni, tæknideildarbíll og rannsóknarlögreglumenn frá miðlægri rannsóknardeild fóru á vettvang. Samkvæmt öðrum heimildum var einnig sjúkrabíll á vettvangi.
Aðspurður segir hann hins vegar að ekkert bendi til saknæms athæfis varðandi lát mannsins.
Ath: Ranglega var greint frá því að líkið hefið fundist í íbúðarhúsnæði í Hafnarfirði. Er beðist velvirðingar á því.