fbpx
Föstudagur 19.september 2025
Fréttir

Flóttakona mátti ekki rifta leigusamningi í Mosfellsbæ – Heimilið í heimalandinu lagt í rúst og bróðir hennar drepinn

Jakob Snævar Ólafsson
Föstudaginn 19. september 2025 14:30

Mynd/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kærunefnd húsamála hefur komist að þeirri niðurstöðu að leigusali konu sem fékk tímabundið dvalarleyfi á Íslandi sem flóttamaður vegna stríðsátaka í heimalandi hennar skuli fá hluta tryggingar hennar greiddan eftir að konan rifti leigusamningi, þeirra á milli, fyrirvaralaust. Vísaði konan til þess að upp hefðu komið óviðráðanlegar aðstæður. Hún hefði neyðst til að halda aftur til heimalands síns þar sem heimili hennar hefði verið eyðilagt í stríðsátökunum og bróðir hennar dáið. Segir nefndin þær ástæður ekki veita konunni heimild til að rifta samningnum.

Það kemur ekki fram frá hvaða landi konan er en líklega er þar um Úkraínu að ræða. Það er heldur ekki tekið fram í hvaða sveitarfélagi íbúðin sem hún leigði var en afar líklegt verður að telja að um sé að ræða Mosfellsbæ þar sem sveitarfélagið ábyrgðist greiðslu tryggingar fyrir konuna.

Leigusamningur var gerður milli konunnar og leigusalans og átti að gilda frá febrúar 2024 til febrúar 2025. Krafðist leigusalinn greiðslu úr tryggingunni vegna vangoldinnar leigu fyrir nóvember 2024 sem og vegna skemmda og flutnings á húsgögnum úr íbúðinni sem konan hafði skilið eftir.

Ófyrirséð

Konan sagði í sínum rökstuðningi, fyrir því af hverju henni hefði verið heimilt að rifta leigusamningnum, að upp hafi komi ófyrirsjáanlegar aðstæður. Hún hafi verið með tímabundið dvalarleyfi sem flóttamaður og væri upprunalega frá borg sem hafi orðið fyrir einna mestum áhrifum af yfirstandandi stríðsátökum í heimalandi hennar. Hún hafi neyðst til að snúa skjótt aftur til heimalandsins þar sem heimili hennar í landinu hafi eyðilagst og ýmsar flóknar lagalegar aðstæður komið upp í kringum það. Þá hafi yngri bróðir hennar fallið frá og hún þurft að veita fjölskyldunni stuðning .

Það kemur ekki fram með beinum hætti að bróðir konunnar hafi fallið í stríðinu en telja verður að það sé líklegt.

Konan sagðist ekki hafa getað komið í veg fyrir þessar aðstæður, sem hafi verið algjörlega ófyrirséðar og óviðráðanlegar og gert henni ómögulegt að uppfylla þriggja mánaða uppsagnarfrestinn sem kveðið hafi verið á um í samningnum. Hún hafi reynt að rifta samningnum í gegnum „MyIgloo“ kerfið og vísað til aðstæðna sinna en leigusalinn hafi ekki fallist á riftunina.

Skuldbinding

Sagði konan að sem einstaklingur með tímabundna vernd hér á landi vegna stríðsins í heimalandi hennar væri staða hennar viðkvæm bæði lagalega séð og út frá mannúðarsjónarmiðum. Skuldbinding Íslands til að vernda flóttafólk, bæði á innlendum og alþjóðlegum vettvangi, ætti að fela í sér sveigjanleika í málum sem þessum, þar sem sérstakar aðstæður krefjist tafarlausra aðgerða.

Sagi hún verulegan kostnað og áskoranir tengdar skipulagi hafa komið í veg fyrir að hún gæti snúið aftur til Íslands til að klára að tæma leiguhúsnæðið. Óskaði hún eftir því við nefndina að staða hennar yrði viðurkennd sem sérstakar aðstæður sem réttlæti riftun á leigusamningnum þannig að hún væri ekki bundinn af uppsagnarfresti.

Leigusalinn sagði konuna hafa rift samningnum fyrirvaralaust með SMS-skilaboðum 1. nóvember 2024 en auk þess að borga ekki fulla leigu fyrir þann mánuð hafi þrifum verið verulega ábótavant, húsgögn verið skilin eftir og klósettseta brotin. Gefin hafi verið út trygging að andvirði 600.000 krónur en konan aðeins greitt 40.000 krónur af leigu fyrir nóvember 2024.

Gjöf eða lán

Konan sagði þessa upphæð hafa verið greidda vegna brotnu klósettsetunnar sem hafi verið eina skemmdin sem orðið hafi í íbúðinni meðan hún var með hana á leigu. Hún hafi þrifið íbúðina vel áður en henni var skilað. Leigusalinn hafi flutt húsgögn í íbúðina sem hún hafi skilið eftir.

Sagði konan enn fremur að ekki hafi verið settar í leigusamninginn upplýsingar um að íbúðin væri leigð með innbúi, en það hafi átt að vera hlutverk leigusalans að gera það.

Leigusalinn vildi hins vegar meina að 40.000 króna greiðslan frá konunni hafi verið upp í leigu. Hún hafi ekkert minnst á brotnu klósettsetuna og hann því ekki vitað af henni fyrr en hann kom í íbúðina eftir að konan var flutt út. Sagði leigusalinn að húsgögnin sem hafi verið skilin eftir hafi verið gjöf hans til konunnar og fjölskyldu hennar. Hann hafi ekki verið að lána þeim neitt og hefðu þau því átt að fjarlægja húsgögnin en hann hafi greitt fyrir flutning á húsgögnunum eftir lok leigutímans.

Lögin nái ekki yfir þetta

Í niðurstöðu kærunefndar húsamála segir að konan hafi við upphaf leigtímans lagt fram tryggingu í formi ábyrgðaryfirlýsingar Mosfellsbæjar að fjárhæð 600.000 krónur.

Leigusalinn hafi krafist leigu fyrir nóvember 2024 að fjárhæð 320.000 krónur, 12.400 króna vegna flutninga á húsgögnum úr íbúðinni við lok leigutímans og greiðslu fyrir klósettsetu að fjárhæð 14.692 krónur. Konan hafi greitt leigusalanum 40.000 krónur vegna skemmda á setunni og sé þessi hluti kröfu leigusalans því óumdeildur.

Þegar kemur að áðurnefndum ástæðum sem konan gaf upp til að útskýra hina fyrirvaralausu riftun á leigusamningnum segirnefndin að kveðið sé á um riftunarheimildir leigjenda í húsaleigulögum. Engin þeirra nái hins vegar utan um tilvik konunnar.

Engin sönnun fyrir gjöf

Kærunefnd húsamála segir að því sé ljóst að konunni hafi ekki verið heimilt samkvæmt lögum að rifta leigusamningnum fyrirvaralaust. Því eigi leigusalinn rétt á að fá 320.000 krónur greiddar úr tryggingunni  vegna vangoldinnar leigu fyrir nóvember 2024 að frádregnum 25.308 krónum sem konan hafi greitt umfram kröfu leigusalans vegna brotnu klósettsetunnar.

Þegar kemur að kröfu leigusalans um greiðslu úr tryggingunni vegna flutnings á húsgögnum úr íbúðinni segir nefndin ljóst að hann og konan hafi litið það gerólíkum augum hvort hann hefði gefið henni húsgögnin eða lánað þau á meðan leigutímanum stóð. Leigusalinn hafi hins vegar ekki lagt fram nein gögn til að sanna að hann hafi gefið konunni húsgögnin og því er þeim hluta kröfu hans hafnað.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Flestir raða vitlaust í uppþvottavélina – Svona á að gera það

Flestir raða vitlaust í uppþvottavélina – Svona á að gera það
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Fyrrverandi heilbrigðisráðherra hæðist að kerfinu – „Væri ekki bara skilvirkast að láta grafa mig strax“

Fyrrverandi heilbrigðisráðherra hæðist að kerfinu – „Væri ekki bara skilvirkast að láta grafa mig strax“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Sótt að ungum Sjálfstæðismönnum úr þeirra eigin röðum – „Hvert er Sjálfstæðisflokkurinn að fara?“

Sótt að ungum Sjálfstæðismönnum úr þeirra eigin röðum – „Hvert er Sjálfstæðisflokkurinn að fara?“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Varað við svikahröppum sem þykjast vera heyrnarlausir

Varað við svikahröppum sem þykjast vera heyrnarlausir
Fréttir
Í gær

Komst upp um stórt kókaínsmygl frá Frankfurt hingað til lands – Afhenti félaganum ferðatöskuna

Komst upp um stórt kókaínsmygl frá Frankfurt hingað til lands – Afhenti félaganum ferðatöskuna
Fréttir
Í gær

Hægri öfgamenn bera ábyrgð á langflestum pólitískum morðum – Allar rannsóknir á einn veg

Hægri öfgamenn bera ábyrgð á langflestum pólitískum morðum – Allar rannsóknir á einn veg