Snjallgögn hafa ráðið dr. Helga Pál Helgason til starfa sem teymisstjóra gervigreindar hjá fyrirtækinu. Helgi Páll hefur lengi verið meðal fremstu sérfræðinga landsins á sviði gervigreindar og hefur áratugareynslu úr hugbúnaðar- og fjártækniiðnaði eins og segir í fréttatilkynningu.
Helgi Páll lauk doktorsprófi í almennri gervigreind fyrstur Íslendinga frá Háskólanum í Reykjavík árið 2013 og þar áður BSc- og MSc-gráðum í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands. Hann starfaði síðast sem deildarstjóri gervigreindar hjá Apró, en var þar áður hjá Travelshift, Activity Stream, Verifone og Kaupþingi.
,,Það er ögrandi tækifæri að vera treyst til þess að leiða uppbyggingu Snjallgagna á sviði gervigreindar. Það er skemmtileg upplifun að starfa í metnaðarfullu fyrirtæki sem hefur þá framtíðarsýn að gera Ísland að leiðandi vettvangi í hagnýtri gervigreind. Það er alvöru áskorun að nýta hérna fræðilegan styrk, nýsköpunaranda og vönduð vinnubrögð til að smíða alþjóðlega samkeppnishæfar hugbúnaðarlausnir,“ segir Helgi Páll.
,,Ráðning Helga Páls markar tímamót fyrir Snjallgögn. Andrúmsloftið er spennandi, enda erum við núna að breyta fyrirtækinu í takti við nýjustu vendingar í faginu. Næst ætlum við okkur að breyta íslensku atvinnulífi,” segir Stefán Baxter, forstjóri Snjallgagna.
Fjórtán manns starfa hjá Snjallgögnum samkvæmt tilkynningunni. Félagið þróar fjölbreyttar gervigreindarlausnir og meðal viðskiptavina eru Arctic Adventures, Blue Car Rental, Bónus, Brimborg, Elko, Nova og Skatturinn. Fjárfestar að baki Snjallgagna eru Founders Ventures, MGMT Ventures, Tennin, Icelandic Venture Studio og Bright Ventures.