fbpx
Fimmtudagur 18.september 2025
Fréttir

Gagnrýna að eyða eigi á þriðja hundrað milljónum í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 18. september 2025 18:35

Selirnir í Húsdýragarðinum vekja alltaf aðdáun gesta en stefnt hefur verið að því í nokkurn tíma að koma upp nýrri laug fyrir þá.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samþykkt var á fundi borgarráðs Reykjavíkur fyrr í dag að hefja innkaupaferli vegna framkvæmda í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, við uppbyggingu fræðsluseturs, en samkvæmt kostnaðaráætlun, sem fylgir með fundargerð fundarins, átti framkvæmdin að kosta 115 milljónir króna en í umsögn menningar- og íþróttaráðs segir hins vegar að tekist hafi að lækka kostnaðinn niður í 88 milljónir króna. Kemur þetta til viðbótar fyrri áformum um að útbúa nýja selalaug í garðinum og nýtt þjónustuhús fyrir dýrin en áætlað er að það kosti 150 milljónir króna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gagnrýna forgangsröðun meirihlutans og telja fénu betur varið í viðhald á skólahúsnæði og samgönguinnviðum.

Í greinargerð umhverfis- og skipulagssviðs sem fylgir með fundargerð borgarráðs kemur fram að framkvæmdirnar snúist um að breyta hlöðunni í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í fræðslusetur. Gert sé ráð fyrir að hefja framkvæmdir haustið 2025 og sé áætlaður framkvæmdatími 9 mánuðir. Heildarkostnaðaráætlun sé 115 milljónir króna.

Segir enn fremur að heildarstærð rýmisins sé 71 fermetri. Eftir framkvæmdir muni rýmið nýtast í fræðslustarfssemi og kennslu fyrir skólahópa. Einnig verði hægt að nota það fyrir sýningar og í almenna útleigu. Samhliða breytingum á hlöðunni verði byggð 36 fermetra viðbygging milli hlöðu og fjóss sem notuð verði í anddyri fyrir fræðslurými ásamt geymslu. Í framkvæmdunum muni núverandi tæknikerfi verða uppfærð miðað við núverandi reglugerðir og loftræsingu bætt við.

Hefði getað verið dýrara

Í umsögn menningar- og íþróttaráðs borgarinnar um framkvæmdirnar segir meðal annars að fræðsludeild Fjölskyldu- og húsdýragarðsins hafi ekki haft neina aðstöðu síðan 2018 þegar gamli bærinn „Hafrafell“ hafi verið rifinn. Uppi hafi verið hugmyndir um byggingu fræðslu- og starfsmannahúss sem einnig hafi átt að nýta sem frístundaheimili fyrir börn í hverfinu. Sú fjárfesting hefði hins vegar kostað vel yfir 1,5 milljarða króna. Því hafi verið ákveðið að fara ódýrari leiðir til að byggja nýja aðstöðu fyrir fræðsludeildina enda sé þörf á fjárfestingu fyrir fleiri deildir garðsins. Tækifæri hafi skapast til að fara þessa leið þegar ný fóðurgeymsla hafi verið tekin í notkun 2023.

Fram kemur einnig í umsögninni að þar sem hlaðan hafi verið hönnuð sem slík sé hún óupphituð, óeinangruð og gluggalaus en sé engu að síður í traustu ástandi.

Síðan er gerð í umsögninni ítarleg grein fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum og að endurskoðuð kostnaðaráætlun hljóði upp á 88 milljónir króna í stað 115 milljóna. Ýmsar breytingar hafi verið gerðar til að lækka kostnaðinn.

Til dæmis má nefna að hætt var við að hafa gólfhita og ákveðið að hafa einungis ofnalagnir, ódýrari ljós verða í kynningarrými, hætt var við að hafa lýsingu og reykvél í göngum, framkvæmdir á lóð voru endurmetnar og því þarf að taka upp færri hellur. Þetta eru hins vegar aðeins nokkur dæmi af þeim liðum sem endurmetnir voru frá fyrri kostnaðaráætlun.

Fleiri framkvæmdir

Í umsögn menningar- og íþróttaráðs er minnt á að síðan Húsdýragarðurinn, sem rann síðar saman við Fjölskyldugarðinn, var opnaður árið 1990 hafi fjárfesting í honum verið takmörkuð.

Umrædd framkvæmd er ekki sú eina sem stefnt hefur verið að í garðinum en í samstarfsáttmála flokkanna sem mynda meirihluta í borgarstjórn er stefnt að því að endurnýja selalaugina og byggja nýtt þjónustuhús til að bæta umönnun dýranna í garðinum. Áætlað er að sú framkvæmd kosti 150 milljónir króna. Þessum framkvæmdum hafði áður verið frestað en í millitíðinni urðu meirihlutaskipti í borgarstjórn.

Í bókun fulltrúa meirihlutans, Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Vinstri grænna og Flokks fólksins á fundi borgarráðs í dag segir að fagna beri áformum um að breyta hlöðunni í fræðslusetur. Fræðslustarfsemi garðsins hafi verið órjúfanlegur hluti af menntun reykvískra barna frá stofnun hans og mikilvægt sé að styrkja þennan þátt starfseminnar með viðeigandi aðstöðu sem fræðsludeildin hafi verið verið án síðan 2018. Ný aðstaða muni gjörbylta möguleikum til framþróunar fræðslustarfs garðsins, auka framboð sumarnámskeiða og tryggja góða aðstöðu fyrir nemendur. Minnt er síðan á að áætlaður kostnaður hafi verið lækkaður.

Betur varið í annað

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru síður hrifnir og segja í sinni bókun á fundinum að draga verði í efa að þessi fyrirhugaða breyting hlöðunnar í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í fræðslusetur geti talist forgangsverkefni við núverandi árferði í rekstri borgarinnar og almennt ástand á innviðum hennar. Kostnaðaráætlun vegna framkvæmdarinnar nemi 115 milljónum króna en jafnframt hafi þegar verið ákveðið að ráðast í gerð nýrrar selalaugar sem kosta muni 150 milljónir króna hið minnsta. Brýnna væri að verja þessum fjármunum til viðhalds á skólahúsnæði grunn- og leikskóla og samgönguinnviðum svo dæmi.

Sjálfstæðismenn geta þess þó ekki að kostnaðaráætlun vegna uppbyggingar fræðslusetursins hefur verið lækkuð í 88 milljónir króna.

Í bókun fulltrúa Framsóknarflokksins er lækkuninni fagnað og vísað til þess að flokkurinn hafi komið ábendingum um nauðsyn þess á framfæri. Segir í bókuninni að Framsóknarflokkurinn styðji framkvæmdina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Bergvin segist útilokaður af RÚV vegna dóms um kynferðislega áreitni – „Miklu þyngra að vera dæmdur af „dómstól götunnar““

Bergvin segist útilokaður af RÚV vegna dóms um kynferðislega áreitni – „Miklu þyngra að vera dæmdur af „dómstól götunnar““
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Þingmaður Samfylkingarinnar segir umræðu um málaflokkinn „svolítið eins og að slást við loft, baráttan er svo óáþreifanleg“

Þingmaður Samfylkingarinnar segir umræðu um málaflokkinn „svolítið eins og að slást við loft, baráttan er svo óáþreifanleg“