Fulltrúar evrópsku sjónvarpssamtakanna EBU hafa lagt til að Ísrael keppi undir hlutlausum fána í Eurovision á næsta ári. Yrði þetta gert til að leysa hnútinn sem kominn er upp en sífellt fleiri lönd hóta að taka ekki þátt ef Ísrael fær að keppa.
Greint er frá þessu á ísraelska miðlinum Arutz Sheva.
Fjöldi landa sem hóta að draga sig út úr Eurovision eykst sífellt en fresturinn til að staðfesta þátttöku er um miðjan desember. Þau lönd sem hóta þessu eru Ísland, Írland, Holland, Slóvenía og Spánn sem er eitt af „stóru fimm“ sem greiða mest til keppninnar. Lönd eins og Belgía og Finnland gætu fljótlega bæst í hópinn.
Nú hafa fulltrúar EBU óformlega viðrað þann möguleika að Ísrael fái að keppa en undir hlutlausum fána. Þetta þekkist til að mynda á Ólympíuleikunum þar sem Rússar, Serbar og fleiri hafa keppt undir hlutlausum fána.
Stjórn EBU mun funda um þátttöku Ísraels í Genf í Sviss bráðlega. Talið er líklegt að Ísrael verði vísað úr keppninni frekar en að missa stóran hluta þátttakenda. Samkvæmt frétt Arutz Sheva er hið óformlega tilboð sem Ísraelsmönnum hefur verið gefið, það er að keppa undir hlutlausum fána, leið til að sleppa við „niðurlægjandi brottrekstur“ þeirra.
Önnur leið sem rædd hefur verið er að Ísraelar sjálfir dragi sig tímabundið úr keppninni. Sú þriðja er að ísraelska ríkisútvarpið fjarlægi sig átökunum á Gaza og fordæmi þær.
Ekki er hins vegar talið að Ísraelar taki neinum af þessum tilboðum. Telja Ísraelsmenn að þetta myndi setja „slæmt fordæmi“ og að óásættanlegt sé að keppa ekki undir eigin fána.