Fox News greinir frá þessu og hefur eftir heimildum sínum.
Charlie var skotinn í hálsinn þegar hann hélt erindi við heimavist Utah Valley University í gær. Grunur leikur á að byssumaðurinn hafi komið sér fyrir á þaki byggingar skammt frá. Charlie var fluttur alvarlega slasaður á sjúkrahús þar sem hann var úrskurðaður látinn.
MSNBC birti yfirlýsingu í gærkvöldi þar sem ummæli Matthews voru fordæmd.
„Í beinni útsendingu okkar um skotárásina á Charlie Kirk lét Matthew Dowd falla ummæli sem voru óviðeigandi, ónærgætin og óásættanleg,“ sagði Rebecca Kutler, forseti MSNBC, í yfirlýsingu. „Við biðjumst afsökunar á þessum ummælum hans, og hann hefur gert það líka. Ofbeldi á ekki heima í Ameríku, hvort sem það er pólitískt eða af öðrum toga.”
Eftir að Kirk var skotinn seinnipart miðvikudags hélt Dowd því fram að kveikjan að árásinni væru hatursfull orð hans gegn ýmsum hópum. Sagði hann að Charlie bæri ábyrgð á því að hafa klofið bandarísku þjóðina, sérstaklega yngri kynslóðina og hann hefði sífellt verið að ýta undir einhvers konar hatursorðræðu gegn ákveðnum hópum.
„Og ég segi alltaf að hatursfullar hugsanir leiða til hatursfullra orða sem leiða svo til hatursfullra aðgerða,” sagði Matthew.
„Ég held að þetta sé andrúmsloftið sem við búum við, að fólk getur ekki stöðvað þessar skelfilegu hugsanir sem það hefur, og síðan að segja þessi skelfilegu orð, án þess að búast við að skelfilegar aðgerðir fylgi. Það er því miður andrúmsloftið sem við búum við í dag,“ bætti hann við.
Charlie var íhaldsmaður og náinn bandamaður Donalds Trump Bandaríkjaforseta.
Ummæli Matthews vöktu mikla reiði á samfélagsmiðlum og reyndi hann að klóra í bakkann með yfirlýsingu sem hann sendi frá sér.
„Í viðtali á MSNBC var ég spurður spurningar um það andrúmsloft sem við búum við. Ég biðst afsökunar á tóninum í orðum mínum og vil taka eftirfarandi skýrt fram: Ég ætlaði mér með engum hætti að gefa í skyn að Kirk bæri sjálfur ábyrgð á þessari hræðilegu árás. Við skulum öll sameinast um að fordæma hvers kyns ofbeldi,“ skrifaði Dowd.