Rúmlega sextugur verkfræðingur, Elías Georgsson, hefur verið ákærður fyrir brot gegn frjálsræði, líkamsárás og brot gegn barnaverndarlögum vegna atviks sem átti sér stað sunnudagskvöldið 26. febrúar árið 2023. Er Elías í ákæru héraðssaksóknara sakaður um að hafa veist með ofbeldi að 12 ára dreng, skammt frá heimili Elíasar, elt drenginn uppi, fellt hann í jörðina og haldið honum föstum. Dregið hann síðan á fætur og tekið hann gegn vilja sínum inn á heimli sitt við götuna Vatnsholt í Reykjanesbæ og læst útihurðinni þar til nágranni kom og færði drenginn af heimilinu.
Drengurinn hlaut mar á innri upphandlegg, á framhandlegg og lófasvæði hægri handar, skrámur og hruflaða húð á sköflungi beggja vegna, mar aftan á kálfa beggja vegna og framan á hné og blámar og hruflaða húð á hægra hné. Segir á ákæru að með háttsemi sinni hafi Elías sýnt drengnum yfirgang og ruddalegt athæfi auk ógnandi og vanvirðandi framkomu.
Málið vakti mikla athygli fyrir um tveimur og hálfu ári er RÚV greindi frá því maður í Reykjanesbæ hefði verið kærður til lögreglu fyrir að hafa ráðist á dreng og frelsissvipt hann fyrir að gera dyraat hjá sér.
DV greindi frá því að Elías hefur áður verið kærður fyrir sambærileg brot:
Í öðru málinu lenti Elías í átökum við 17 ára pilt, rotaði hann og pilturinn hlaut stærðarinnar glóðarauga og æð sprakk í auga hans. Unglingurinn átti að hafa gert dyraat heima hjá Elíasi sem fór heim til unglingsins. „Ég reif í hann en hann fleygði mér í jörðina og ég rotaðist. Eftir að ég rotaðist hélt hann áfram að kýla mig, félagar mínir komu mér til bjargar og ég rankaði við mér í sjúkrabílnum,“ sagði unglingurinn við blaðamann DV í frétt blaðsins árið 2008. DV hefur ekki upplýsingar um hvernig því máli lauk, en fram kemur í frétt blaðsins að árásin var kærð til lögreglu.
Í hinu málinu var Elías dæmdur fyrir ólögmæta nauðung gegn 15 ára dreng sem hann frelssissvipti í kjölfar þess að hópur drengja kastaði skoteldi í garð hans.
„Hlutirnir eru ekki bara svartir og hvítir, þetta er eineltismál líka“ sagði ónefndur, fyrrverandi nágranni Elíasar í viðtali við DV árið 2023, er þetta mál sem nú liggur fyrir dómi kom upp.
Sagði hann Elías vera dagfarprúðan en það væri auðvelt að slá reitt fólk út af laginu. „Hlutirnir eru ekki svartir og hvítir. Ég þekki þennan mann ekkert nema það að ég veit bara að við stríddum honum allir, ég og vinir mínir. Það er önnur hlið á þessu. Þetta er eineltismál líka. Börnin hans voru líka lögð í einelti,“ segir fyrrverandi nágranninn.
Fyrir hönd drengsins sem Elías er ákærður fyrir að misþyrma er krafist skaðabóta auk sjúkrakostnaðar, samtals að fjárhæð rétt rúmar tvær milljónir króna.
Héraðssaksóknari krefst þess að Elías verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Málið verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness þann 10. september næstkomandi.