Mikil óánægja er hjá foreldrum í Kópavogi með hina svokölluðu Kópavogsleið í leikskólamálum. Margir foreldrar geta ekki nýtt tímann sem er gjaldfrjáls og því þurfa þeir að greiða upp í topp fyrir gæsluna.
„Þekki engan sem getur nýtt bara þessa sex tíma,“ segir foreldri í íbúagrúbbu í Kópavogi í umræðu um hina umdeildu leið sem Kópavogsbær byrjaði með haustið 2023. Það er að ef foreldrar nýta aðeins 6 klukkutíma dvöl fyrir börnin þá er leikskólinn gjaldfrjáls. En sé lengri tími nýttur þá eru gjöldin einhver þau hæstu á höfuðborgarsvæðinu. Hækkuðu skólagjöldin fyrir fulla 8 klukkutíma mjög mikið við þessa breytingu.
„Kópavogsmæður, finnst ykkur þess virði að nýta þessar 6 klukkustundir sem eru gjaldfrjálsar? Ég prófaði að hafa rúmlega 2 ára stelpuna mína frá 8.30 til 14.30 en mér fannst ég vera að slíta hana frá vinum sínum. Svo prófaði ég að sleppa einum degi í viku en fannst hún vera að missa af, því henni finnst gaman í leikskólanum. Nú er ég að hugsa um að hafa hana bara á sama tíma alla daga og borga dvalargjöldin því ég fæ líka ágætis afslátt, en mér finnst leikskólinn vera að þrýsta á að ég nýti þetta kerfi,“ segir upphafsmaður umræðunnar og spyr hvað öðrum finnist um þetta kerfi. Hvort það sé ekki aðallega hugsað fyrir starfsfólkið. „Af hverju borgar Kópavogsbær ekki bara starfsfólkinu hærri laun og ræður fleira fólk á leikskólana til að dreifa álaginu??“
„Er mjög sammála þessu. En ég fékk ekki afslátt af dvalargjaldi,“ segir annað foreldri sem er ósátt við kerfið. „Endaði að hafa hana 30-60 mínútur fram yfir 6 tímana, en þurfti oft að bíða lengi eftir að hún vildi koma eða að klára það sem hún var að gera. Einnig hitti ég aldrei á aðra foreldra til að skipuleggja hittinga utan skólans. Þetta kom ekki vel fyrir okkur.“
„Mér finnst þetta glatað,“ segir enn annað foreldri. „Ég er í vinnu með mjög óreglulegum vinnutíma þar sem ég veit ekki mánuði fyrir tímann hvenær ég þarf að mæta, og mjög mismunandi á milli daga hvenær ég þarf að vera komin í vinnuna.“
Þetta þýðir að foreldrið þarf að skrá barnið 7:30 til 16:30 þar sem það þarf stundum að vera mætti til vinnu 8:00 en stundum að vinna til 16:00.
„Hins vegar er raunveruleg notkun okkar á þessum tímum nær 6 klukkustundum á dag en Kópavogsbæ er alveg sama um það. Ég þarf því að borga um 84 þúsund á mánuði fyrir vistun á barninu sem það er ekki að nýta. Bara vegna þess að ég er í vinnu með óreglulegum vinnutímum og get ekki vitað nákvæma vinnutíma mánuð fram í tímann eða lengur,“ segir foreldrið. „Algjörlega galið!“
Annar segir að kerfið hafi aðeins virkað þegar foreldrar hafi verið í fæðingarorlofi. En það sé ekki möguleiki í dag.
„Þetta hentar ekki fólki sem þarf að mæta til vinnu á starfsstöð og þarf að skila 8 stunda vinnudegi,“ segir foreldrið. „Þetta hentar fólki sem getur unnið heima við í gegnum tölvu og þá er barni oft á tíðum plantað fyrir frama sjónvarp eða tölvu til að vinnu friður haldist sem best. Þetta hentar best þeim sem er mögulega að vinna t.d. á bæjarstjórninni eða alþingis mönnum sem hafa sveigjanlegan vinnutíma eða þurfa kannski ekki að skila raunverulegum 8 tímum í vinnu. Fólki sem hefur nóg á milli handanna og þarf ekki að skila 100% vinnuframlagi.“