„Hvað varð um þjóðina mína? Hvað gerðist? Síðan hvenær er hún svona illgjörn, rætin og hreinlega ömurleg?”
Þetta segir Hallgrímur Helgason, rithöfundur og listamaður, á Facebook-síðu sinni. Tilefnið er athugasemdir sem birtust undir frétt Vísis á Facebook í gærkvöldi þar sem Dagur B. Eggertsson, þingmaður og fyrrverandi borgarstjóri, gagnrýndi Snorra Másson, þingmann Miðflokksins, vegna málflutnings þess síðarnefnda í Kastljósi í gærkvöldi.
Sjá einnig: Allt á suðupunkti eftir Kastljósið í gær:„Ég er gjörsamlega orðlaus“ – „Þetta er bara byrjunin“
Hallgrímur birtir myndband á Facebook-síðu sinni þar sem hann fer yfir athugasemdirnar. Óhætt er að segja að flestar hafi verið mjög neikvæðar í garð Dags eins og sést á yfirferð Hallgríms hér að neðan.
Margir taka undir orð Hallgríms og lýsa áhyggjum sínum af þróun mála hér á landi.
„Tvær andskotans mínútur af ógeði. Mikið ofsalega er þetta dapurlegt,“ segir til dæmis Hildur Lilliendahl Viggósdóttir. „Já þetta er svo ömurlegt — hvað varð um almenna kurteisi og prúðmennsku… já og bara mennsku,“ er svo spurt í annarri athugasemd.
Kjartan Valgarðsson, fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, hvetur þó til stillingar.
„Þetta er ekki þjóðin. Þetta er hávaði frá fólki sem áður var hneykslistal og hrmpff á fámennum kaffistofum. Engin ástæða til að gefa þessum dólgshætti lögmæti með því að kalla þetta “umræðuna,” segir hann.